Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 14:39:53 (4476)

2003-03-06 14:39:53# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[14:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en gert smáathugasemd við málflutning hv. þm. Hann vitnaði í ræðu mína frá því í morgun. Ég held að hann hafi varla hlustað gaumgæfilega á það sem ég sagði. Ég sagði að við höfuðborgarbúar hefðum umborið það að landsbyggðin hefði fengið meira fé til framkvæmda á samgönguáætlunum undanfarin ár vegna þess að þjóðvegakerfið er okkar allra, ekkert síður höfuðborgarbúa en landsbyggðarinnar. Þetta er okkar allra og því vegna höfum við umborið þetta.

Hér er hins vegar á ferðinni átak til atvinnuskapandi aðgerða. Á höfuðborgarsvæðinu eru 70% allra þeirra sem eru atvinnulausir. Í hlut höfuðborgarsvæðisins, af þessum 6,3 milljörðum sem á að nota næstu 18 mánuðina er einn milljarður, til alls höfuðborgarsvæðisins. Það er Reykjavík, Mosfellsbær, Garðabær, Hafnarfjörður og allt til Keflavíkur. Það fær einn milljarð þegar 70% atvinnulausra er á því svæði. (Gripið fram í.) Hálf þjóðin býr hér. Hér er mesta atvinnuleysið og hingað koma 18% af því fé sem menn ætla til atvinnuskapandi aðgerða. (Gripið fram í.)

Auðvitað gerum við athugasemdir við þetta. Þetta er auðvitað ekki sanngjarnt. Það mundu hv. þm. líka gera ef þeirra kjördæmi fengju þá útreið eins og við höfum fengið. (EKG: Hvað er sanngjarnt?)

Auðvitað þurfum við að skoða þetta. Ég hefði líka viljað sjá peninga fara í ýmislegt annað en bara vegagerð, að konur og menntafólk fengju störf við hæfi, fólk sem situr heima atvinnulaust. (Gripið fram í.)

(Forseti (GÁS): Hv. þm. hefur orðið.)

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki hvort maður á að vera að svara svona frammíköllum en það er full ástæða til að vekja athygli á hversu lítill hlutur fer til hálfrar þjóðarinnar og rúmlega það af fé sem á að vera til atvinnusköpunar þegar 70% atvinnulausra eru á þessu svæði.