Fjáraukalög 2003

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 14:44:51 (4479)

2003-03-06 14:44:51# 128. lþ. 90.2 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Ég vil taka það fram að ég tel nauðsynlegt að byggja upp vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu. Ég er því mjög hlynntur. (ÁRJ: Nú?) Þannig að málið snýst ekki um það. (ÁRJ: Mér heyrðist nú annað.) Í umræðunni gætum við ímyndað okkur að það væri e.t.v. hægt að færa til einhverja peninga og ég er því ekki ósammála heldur. Mér skilst að ekki sé hægt að nota nema um 400 millj. strax af þessum peningum vegna þess að hönnun sé ekki lokið á þeim mannvirkjum sem menn vilja fara í. Ég tel athugandi að beita sér fyrir því og hv. þm. mun eflaust gera það, t.d. að nota hluta af fjármagninu í byggingarframkvæmdir af einhverju tagi, svo sem eins og stúdentagarða og þess háttar. Það væri mjög við hæfi vegna stöðunnar í þessum málum. Það verður augljóslega ekki hægt að nota alla þessa peninga fyrr en þær framkvæmdir sem þeir eiga að fara í eru tilbúnar.

Ég held að ég og hv. þm. tölum dálítið í kross. Ég hlustaði mjög gaumgæfilega á ræðu hv. þm. en ég kallaði eftir þessari endurskilgreiningu á því hvernig við úthlutum þessum peningum. Ég væri tilbúinn, sem búsettur úti á landi, að sæta sömu formúlu og hv. þm. Ásta Ragnheiður sem býr í Reykjavík, lúta sömu formúlu gagnvart úthlutunum. Það er mjög skaðlegt fyrir okkur öll að setja málin upp þannig að þetta sé kapphlaup um fjármagn milli höfuðborgarsvæðis og dreifbýlis.