Álbræðsla á Grundartanga

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:04:41 (4519)

2003-03-06 18:04:41# 128. lþ. 90.4 fundur 671. mál: #A álbræðsla á Grundartanga# (stækkun, skattlagning) frv. 85/2003, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:04]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi hef ég á tilfinningunni að við hæstv. ráðherra skiljum orðið jafnræði hvor sínum skilningnum. Ef henni finnst jafnræðið þurfa að ganga svo langt að það sama þurfi yfir öll önnur fyrirtæki á Íslandi að ganga þá erum við ósammála vegna þess að ég met það svo að jafnræði sé fyrst og fremst það að það sama eigi við um þau fyrirtæki sem eins er ástatt um þannig að samkeppnisforsendum sé ekki raskað, vegna þess að það getur aldrei það sama endilega átt við öll önnur fyrirtæki hér á landi, eins og hér stendur, til þess að jafnræði sé náð. En ef þessi skilningur ráðherrans er það sem menn vilja segja hérna þá finnst mér að textinn verði að vera skýrari og ég mun þá láta athuga það.

Síðan aðeins um það sem kom hér fram um orkuverð. Ég spurði líka, herra forseti, um samninga við fyrirtækið, þ.e. samninga af hálfu stjórnvalda. Eru stjórnvöld u.þ.b. að loka samningi með þessum ákvæðum sem hér koma fram og einhverju væntanlegu orkuverði? Er textinn þess vegna eins og hann er? Eða eru stjórnvöld fyrir sitt leyti að skrifa samningstextann upp með þessu frv.? Hvort kemur á undan? Mér finnst líka mikilvægt að það komi fram.