Raforkuver

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:09:51 (4522)

2003-03-06 18:09:51# 128. lþ. 90.5 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:09]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60 frá 4. júní 1981, um raforkuver. Það er á þskj. 1090 og er 670. mál þingsins.

Frumvarp þetta er flutt til þess að afla lagaheimilda fyrir virkjunarframkvæmdum í tengslum við væntanlega stækkun álvers Norðuráls hf. á Grundartanga. Í fyrsta lagi er um að ræða heimild til handa Landsvirkjun til gerðar veitu við Norðlingaöldu, í öðru lagi heimild til handa Orkuveitu Reykjavíkur til stækkunar Nesjavallavirkjunar og í þriðja lagi heimild til handa Hitaveitu Suðurnesja til framkvæmda við jarðvarmavirkjun á Reykjanesi og til stækkunar virkjunarinnar í Svartsengi.

Um nokkurt skeið hafa staðið yfir viðræður milli stjórnvalda, Landsvirkjunar og Norðuráls hf. um stækkun álvers fyrirtækisins á Grundartanga. Gert er ráð fyrir að stækkunin komi til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. 90 þús. tonna ársafkastagetu sem tekin verði í notkun snemma árs 2006 og 60 þús. tonna ársafkastagetu sem tekin verði í notkun árið 2009. Fyrir liggur samkomulag milli Landsvirkjunar og Norðuráls hf. um orkuafhendingu vegna fyrri áfanga stækkunarinnar. Samkomulagið byggir á því að Landsvirkjun afli orku til stækkunarinnar, m.a. með orkuframkvæmdum á Þjórsársvæðinu og samningum við Hitaveitu Suðurnesja hf. og Orkuveitu Reykjavíkur um byggingu jarðgufuvirkjana. Mun Landsvirkjun kaupa 340 gígavattstundir á ári frá hvoru fyrirtæki um sig og flytja um flutningskerfi sitt til Norðuráls. Í áætlunum Norðuráls er gert ráð fyrir að framleiðslugeta álversins kunni síðar að aukast í allt að 300.000 tonna ársframleiðslu.

Þar sem nú liggur fyrir niðurstaða setts umhvrh. í kærumáli vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu eru orðnar forsendur til að taka ákvörðun um leyfisveitingu vegna orkuöflunar til fyrirhugaðrar stækkunar álversins á Grundartanga. Ljóst er að ákvörðun um stækkun þarf að liggja fyrir fljótlega ef unnt á að vera að ljúka framkvæmdum við fyrri hluta stækkunarinnar áður en framkvæmdir vegna álversins í Reyðarfirði ná hámarki. Með þessi atriði í huga er frv. þetta lagt fram nú. Landsvirkjun hefur þegar hafist handa við undirbúning að framkvæmd við Norðlingaölduveitu í samráði við sveitarstjórnir og Umhverfisstofnun.

Í samræmi við 11. gr. gildandi orkulaga, nr. 58/1967, var leitað umsagnar Orkustofnunar um umsóknir Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. Umsögn stofnunarinnar ásamt yfirliti Landsvirkjunar um framkvæmdir við Norðlingaölduveitu fylgja frv.

Eins og sjá má á frumvarpstextanum er lagt til að iðnrh. fái heimild til að veita þau virkjunarleyfi sem um er að ræða og er það í samræmi við þá málsmeðferð sem lögð er til í frv. til raforkulaga sem nú liggur fyrir þinginu. Samkvæmt þessu ákvæði er Landsvirkjun heimilað að fengnu leyfi ráðherra að reisa og reka vatnsmiðlun, Norðlingaölduveitu, í samræmi við þau skilyrði sem fram koma í úrskurði setts umhvrh. frá 30. janúar sl.

Með Norðlingaölduveitu er vatni veitt úr Þjórsá við Norðlingaöldu yfir í Þórisvatn. Jafnframt er efstu upptakakvíslum Þjórsár sunnan Þjórsárjökuls veitt um setlón yfir í Kvíslaveitu og til Þórisvatns. Tilgangur veitunnar er að auka rennsli og miðlun í gegnum Þórisvatn og nýta betur núverandi virkjanir við Vatnsfell, Sigöldu, Hrauneyjafoss, Sultartanga og Búrfell og auka með því orkugetu þeirra.

Settur umhvrh. kvað 30. janúar 2003 upp úrskurð vegna kæru á úrskurði Skipulagsstofnunar í mati á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er varðar ákvörðun um að fallast á lónhæð Norðlingaöldulóns í 578 m og 575 m yfir sjávarmáli. Að öðru leyti var fallist á úrskurð Skipulagsstofnunar með nokkrum viðbótarskilyrðum. Á þeim skamma tíma sem liðinn er frá því að úrskurður þessi gekk hefur ekki verið unnt að fullmóta breytta framkvæmdatilhögun, en Landsvirkjun vinnur nú í samráði við Umhverfisstofnun og viðkomandi sveitarfélög að athugun á nánari útfærslu veitunnar er taki mið af skilyrðum í úrskurði ráðherra. Í fylgiskjali III er að finna yfirlit um framkvæmd Norðlingaölduveitu þar sem gerð er grein fyrir þeim skilyrðum sem hafa mest áhrif á fyrirkomulag mannvirkja og hagkvæmni veitunnar. Í frv. er, eins og áður segir, lagt til að heimild iðnrh. til að veita leyfi til framkvæmdarinnar verði bundið þeim skilyrðum sem fram koma í úrskurði setts umhvrh.

Í 2. gr. er iðnrh. veitt heimild til að veita Orkuveitu Reykjavíkur leyfi til stækkunar Nesjavallavirkjunar í allt að 120 megavött. Nesjavallavirkjun afkastar nú 90 megavöttum og hefur rekstur hennar gengið vel. Náið hefur verið fylgst með jarðhitasvæðinu. Rannsóknasvið Orkustofnunar hefur í samráði við sérfræðinga Orkuveitu Reykjavíkur lagt mat á áhrif vinnslunnar og er niðurstaða þeirra sú að stækkun virkjunarinnar í 120 megavött breyti litlu varðandi áhrif á jarðhitasvæðið samanborið við áframhaldandi rekstur á óbreyttum afköstum. Þá má nefna að samkvæmt mati Skipulagsstofnunar er stækkunin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og er því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Verulegur hluti þeirra mannvirkja sem þörf er á vegna stækkunarinnar er þegar til staðar. Ekki þarf að byggja nýja háspennulínu og breytingar á gufuveitu og vélasal eru óverulegar. Hér er því um mjög hagkvæman virkjunarkost að ræða.

Í 3. gr. er ákvæði að finna um heimild til handa ráðherra til að veita Hitaveitu Suðurnesja hf. leyfi til þess annars vegar að reisa og reka allt að 80 megavatta jarðvarmavirkjun á Reykjanesi að fengnu mati á umhverfisáhrifum og hins vegar til stækkunar jarðvarmavirkjunarinnar í Svartsengi um 16 megavött.

Hitaveita Suðurnesja hefur á undanförnum árum undirbúið aukna nýtingu jarðvarma á Reykjanesskaga. Einkum hefur verið horft til tveggja svæða, Reykjanessvæðisins og svo Svartsengis-/Eldvarpasvæðisins. Hefur fyrirtækið stundað umfangsmiklar rannsóknir á báðum þessum svæðum, þ.e. rannsóknir á jarðfræði, jarðeðlisfræði, jarðefnafræði og vinnslutækni.

Á Reykjanessvæðinu umhverfis saltverksmiðjuna hafa verið boraðar tólf háhitaholur en háhitavinnsla á svæðinu hefur staðið í tvo áratugi. Niðurstöður áralangra rannsókna og sú reynsla sem fengin er gefur fulla ástæðu til að ætla að unnt sé nú þegar með fullu öryggi að reisa 80 megavatta virkjun. Svæðið er væntanlega mun gjöfulla en sem nemur 80 megavatta raforkuframleiðslu. Að undangengnum rekstri fyrsta virkjanaáfanga í nokkur ár fæst frekari vitneskja um raunverulega afkastagetu svæðisins og þá næstu virkjanaáfanga.

Aukin afkastageta virkjunarinnar í Svartsengi verður fengin með því að nýta betur þær borholur sem nú eru til staðar. Með því að koma fyrir svokölluðum toppþrýstihverfli er ráðgert að nýta orku sem nú er sóað og ekki er nýtt. Afl toppþrýstihverfils er áætlað 16 megavött og er um hreina grunnaflsframleiðslu að ræða.

Hæstv. forseti. Ég hef nú lýst þessum þremur fyrirhuguðu framkvæmdum með nokkrum orðum. Í öllum tilvikum er ljóst að um er að ræða hagkvæma virkjanakosti sem munu hafa afar takmörkuð áhrif á umhverfið.

Ég legg til, hæstv. forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.