Raforkuver

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:18:27 (4523)

2003-03-06 18:18:27# 128. lþ. 90.5 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:18]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég er nokkuð viss um að þeir virkjanakostir sem hér er fjallað um eru allir hagkvæmir, ekki síst þegar hægt er að fara í Norðlingaölduveitu og gera góðar þær virkjanir sem Landsvirkjun á eftir að fara í á Þjórsársvæðinu og betri þær sem þegar eru þar.

Mér finnst hins vegar ástæða til að staldra aðeins við og velta fyrir sér af hverju hæstv. ráðherra kemur með þetta frv. inn í þingið. Eins og hún réttilega gat um áðan er frv. til nýrra raforkulaga á síðustu metrunum, a.m.k. þau ákvæði sem þarf til að iðnrh. geti tekið þessar ákvarðanir án þess að bera þær undir Alþingi. Þá er ég einkum að tala um b-lið 1. gr. Sjálf stóð ég í þeirri meiningu að a-liðinn þyrfti ekki að bera undir Alþingi, þ.e. að þar væri um að ræða veitu sem iðnrh. gæti gefið leyfi fyrir svo fremi sem mat á umhverfisáhrifum væri jákvætt. Ég velti því eðlilega fyrir mér, herra forseti, af hverju ekki er beðið eftir raforkulögunum. Af hverju bíður hæstv. ráðherra ekki eftir 4. gr. raforkulaganna og tekur þær ákvarðanir sem þarf að taka? Þurfi sú grein að taka gildi fyrr en aðrar greinar laganna, af hverju er það þá ekki skoðað frekar en að vera að leggja fyrir nýtt frv. sem mun kalla á mikla viðbótarvinnu? Að einhverju leyti hefði án þess ekki þurft að fara í þá vinnu, a.m.k. ekki á þessum vettvangi þar sem verkefni eru ærin.

Mér finnst þetta svolítið merkileg staða, að hafa öll þessi mál til meðferðar. Á sama tíma og hér er verið að bæta greinum inn í lögin um raforkuver er á öðrum stað verið að taka út greinar í frv. um raforkuver. Það er í raun verið að bæta inn greinum sem verða síðan gagnslausar þegar raforkulagafrumvarpið verður að lögum.

Ég ætla að freista þess, herra forseti, að biðja um enn frekari skýringar frá hæstv. ráðherra varðandi það af hverju þessi kostur er valinn. Mér finnst hún alls ekki hafa komið fram með sannfærandi skýringar á því. Mér finnst það ekki fullnægjandi skýring að þó að í gildandi lögum um raforkuver sé getið um Kvíslaveitu þá kalli það á að Norðlingaölduveita sé með þessum hætti lögfest á Alþingi. Mér finnst þetta fyrst og fremst spurning um hvaða leið ráðherra vill fara. Ég vil fá frekari skýringar á því af hverju þessi leið var valin.

Eins og ég sagði, herra forseti, er verið að fjalla um frv. til nýrra raforkulaga í iðnn. Okkur sýnist að þeirri vinnu sé að ljúka á næstu fundum nefndarinnar, enda búið að taka undan það sem helst yrði um ágreiningur. Það verður sett í nefnd. Annað frv. er að verða unnið til enda og ekki skrýtið að manni finnist þetta svolítið sérkennileg vinnubrögð.

Sjálf hef ég svolitlar áhyggjur af ákveðnum hlutum sem væntanlega fást svör við á morgun á fundi iðnn., þ.e. varðandi 4. gr. og skýringar á því hvernig hún og bráðabirgðaákvæði II í því frv. spila saman. En það ætti ekki að breyta miklu um þetta mál. Þetta er kannski fyrst og fremst tæknilegs eðlis og varðar það hvar við erum stödd með önnur mál.

Mér finnst verra, herra forseti, að við skulum þurfa að fjalla um málið með þessum hætti, sérstaklega vegna þess að við erum alltaf að vænta þess og bíða eftir nýju umhverfi þar sem ekki verði síður, jafnvel enn frekar, lögð áhersla á faglega umfjöllun en pólitískar ákvarðanir, einkum og sér í lagi þegar um er að ræða mál af þessu tagi.

Ráðherra sagði áðan réttilega í svari við gagnrýni á að ekki væru teknar nægilega pólitískar ákvarðanir varðandi virkjana- og stóriðjumál að víst væri svo. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra. Það eru teknar stórar pólitískar ákvarðanir varðandi þessi mál og í sjálfu sér ekkert út á það að setja miðað við núverandi lagaumhverfi. En ég hef verið í hópi þeirra sem vilja að Alþingi setji almennar reglur þannig að ekki þurfi sérstaklega að fjalla um hvert fyrirtækið á fætur öðru. Ég veit ég þarf ekki að endurtaka það hér.

Herra forseti. Frv. sem hér liggur fyrir, öllu heldur ákvæði þess, ákvarðanir um virkjanir, tengjast auðvitað frv. því sem við vorum að fjalla um áðan, um stækkun á Norðuráli. Ég var að reyna að fá hæstv. ráðherra til að svara þeirri einföldu spurningu hvort ákvæði frv. um stækkun Norðuráls, þá var ég fyrst og fremst að tala um 1. gr. þess frv., lægju orðið fyrir í samningi. Ég spurði og hvernig þetta væri með orkuverðið. Það sem ráðherra fékkst til að segja var að aðilar væru búnir að ræða saman um orkuverðið og væru nógu langt komnir til að þeir treystu sér til að hefja framkvæmdir við virkjanir. Það er bara þó nokkuð ef menn geta séð fyrir hvernig það mun verða en hinu var aldrei svarað, þ.e. hvort á að koma á undan, frumvarpstextinn með ákvæðum samningsins eða hvernig málin standa með samninginn.

Ef ráðherrann metur það svo að hér sé um svo mikið leyndarmál að ræða að það megi einungis upplýsa í nefndinni þá er ég alveg tilbúin að hlíta því svari á þessari stundu og leita eftir því þar. En mér finnst verra að hafa það á tilfinningunni að hæstv. ráðherra sé að skjóta sér undan spurningunni. Hennar var spurt í þrígang hér áðan. Nú endurtek ég hana vegna þess að mér finnst ekki óviðeigandi að henni sé svarað undir þessum dagskrárlið, um frv. til laga um raforkuver þar sem einmitt er fjallað um veitur og virkjanir sem eru forsenda þess að hægt sé að ráðast í stækkun Norðuráls.

Herra forseti. Menn hafa haft nokkrar áhyggjur af því, eins og komið hefur fram í umræðunni um byggingu álversins --- sem segir okkur hversu nátengt þetta er --- hvar rammaáætlun er á vegi stödd. Hæstv. ráðherra hefur út af fyrir sig svarað því. En ég get alveg skilið þá sem hafa af því áhyggjur hve langt við virðumst ætla að ganga varðandi nýtingu þeirra orkukosta sem hagkvæmastir virðast án þess að rammaáætlun liggi skýrar fyrir en orðið er. Þetta eru hálfgerð handarbakavinnubrögð. Þó svo að það sé rétt sem hér hefur komið fram, að erlend fyrirtæki vilji fjárfesta núna og menn séu brenndir af þeirri reynslu að langur tími leið áður en þessi fjárfestingarbylgja fór í gang og menn óttast e.t.v. að missa af einhverjum fjárfestingaraðilum sem nú vilja vera með, þá hljótum við samt sem áður að setja við það spurningarmerki hversu hratt við getum unnið og upp á hvað við getum boðið sjálfum okkur miðað við aðra framtíðarhagsmuni.

Maður fær líka á tilfinninguna að sumt sé dálítið eins og í plati. Það er verið að vinna að rammaáætlun en samt er verið að taka allar þessar ákvarðanir um virkjanir. Þá hefur maður svolítið á tilfinningunni að rammaáætlunin sé frekar yfirvarp en alvara.

Hið sama gildir um hvernig hið háa Alþingi vinnur þá löggjöf sem héðan á að fara. Á haustin, á meðan stendur á stjórnarfrumvörpunum, er vinnan í nefndunum tiltölulega vönduð. Frumvörp eru send út til umsagnar og þeim sem kemur málið við gefst tækifæri til að kynna sér það, hafa skoðun á því og koma henni á framfæri eftir atvikum. En þegar þinglok nálgast og ríkisstjórnin er loksins tilbúin með þau mál sem hún vill setja fram þá er enginn tími til vandaðra vinnubragða, heldur bara mokað í gegn.

Ég velti því fyrir mér af hverju hæstv. ráðherra kýs að hafa þann háttinn á, að kvelja þetta frv. í gegnum þingið og gera að lögum fremur en að notfæra sér raforkulagafrv. Hæstv. ráðherra veit jafn vel og ég að öll vinna við þetta verður ekki annað en sýndarmennska og mun ekki bæta neinu við umfram það sem hæstv. ráðherra iðnaðarmála, hver svo sem hann verður, getur aflað sér með einföldum hætti hjá embættismönnum sínum og undirstofnunum, til að taka ákvarðanir um leyfisveitingar í þessu efni. Ég vil, eins og ég sagði áðan, fá frekari útskýringar á því af hverju við þurfum að vinna málin með þessum hætti.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, eru lög að breytast vegna raforkulagafrv. og vinnslunnar við það. Þar erum við að breyta öðrum lögum á orkusviði og lög um raforkuver eru ein af þeim lögum. Þar er verið að fella út tilteknar greinar almenns eðlis en lögin eiga að halda sér hvað varðar einstaka virkjanir, hvort sem þær hafa þegar verið gerðar eða hvort það á eftir. Það er spurning hvort ráðherra er bara svona af fegurðarástæðum að hnýta þessar framkvæmdir upp á þessa festi einnig. Mér finnst a.m.k. að betri skýringar þurfi en fyrir hafa legið.

Herra forseti. Sé það er einlægur ásetningur hæstv. ríkisstjórnar að láta nefndina vinna frv. þá verður það að sjálfsögðu gert. Mér finnst ekki líklegt að iðnn. muni svíkjast undan því að fara ofan í saumana á öllum þeim atriðum sem þörf krefur, fyrst það er vilji ráðherrans. Eins og ég sagði, herra forseti, væri gott að vita af hverju. Er það af því hún treystir nefndinni betur en þeim embættismönnum sem ella gætu unnið málin upp í hendurnar á henni í staðinn fyrir að gera það upp í hendurnar á nefndinni? Mér sýnist nokkuð ljóst að það gefist tæplega tími til að senda málið út til umsagnar.