Raforkuver

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 18:33:55 (4525)

2003-03-06 18:33:55# 128. lþ. 90.5 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[18:33]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta pínulítið rekast hvað á annars horn. Í fyrsta lagi: Ef málið er svona einfalt, af hverju þarf þá þingnefndin að fara yfir það, þ.e. ef þetta liggur svona beint fyrir? Þetta segi ég ekki síst af því að raforkulagafrv. er á síðustu metrunum og með því fær hæstv. ráðherra heimild til þess að taka ákvarðanir í þessu efni, ákvarðanir um mál sem hún telur að séu afskaplega einföld og liggi beint við.

Í öðru lagi: Fyrst ráðherra vill frekar að Alþingi fjalli um málið en að hæstv. iðnrh. taki ákvarðanir á grundvelli nýrra raforkulaga þá velti ég því fyrir mér hvort hún muni þá, ef til þess kæmi, ekki treysta sér til að vera iðnrh. hér áfram þegar búið er að breyta lögum í þá veru að iðnrh. veiti þessa heimild án beins atbeina Alþingis. Ég geri ráð fyrir því að eftir eigi að koma upp ýmis flókin virkjanamál þar sem iðnrh., hver svo sem hann verður í framtíðinni, þarf að taka ákvörðun um virkjanaleyfi án þess að geta borið það undir iðnn. Alþingis. Er það þá frágangssök af hálfu hæstv. ráðherra eða er þetta bara svona í þetta skiptið sem hæstv. ráðherra telur að Alþingi þurfi að skoða málið, en í framtíðinni geti hæstv. iðnrh., hver svo sem hann verður, verið án þess að hafa stimpil Alþingis á þau leyfi sem hann kemur til með að veita?