Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 19:59:35 (4538)

2003-03-06 19:59:35# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, KHG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[19:59]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Í þessu frv. eru lagðar til mjög róttækar breytingar á þeim lögum sem í gildi eru um hafnir og í meginatriðum lagt til að afnema ríkisstyrki sem hafa verið mjög umtalsverðir mjög lengi til flestra hafna á landinu og koma á samkeppni milli hafnanna með því að afnema ákvæði um gjaldskrár og taka upp endurgreiðslu á virðisaukaskatti þannig að þessi rekstur verði eins og annar atvinnurekstur, virðisaukaskattsskyldur.

[20:00]

Víst er að vandi steðjar að ýmsum höfnum landsins, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra. Þær búa við aðstæður þar sem tekjur eru ónógar til að standa undir stofnkostnaði eða nauðsynlegum framkvæmdum eða endurnýjun á mannvirkjum sem ganga úr sér með tímanum. Sumar hafnir eru þannig staddar að rekstrartekjur duga ekki fyrir útgjöldum. Það er ljóst að skoða þarf það umhverfi sem er í gildi og huga að því að koma á fót lagfæringum sem geti orðið til þess að bæta úr þar sem vandi steðjar að.

Engu að síður eru breytingarnar mjög umdeilanlegar og sérstaklega í ljósi þess að ekki er alltaf ljóst að breytingarnar sem stefnt er að nái að bæta úr þar sem menn telja þörf á. Því held ég að það sé nauðsynlegt að ræða vandlega þetta frv. og gefa því þinglega meðferð þannig að menn fari vandlega og gaumgæfilega yfir efni þess.

Við vitum hvernig landið hefur byggst hér, með mörgum plássum um allt land og hugsanlega má segja að sjávarplássin gætu verið færri og mannvirkin að sama skapi. En við erum ekki við þær aðstæður að við getum teiknað upp nýtt Íslandskort, heldur þvert á móti búum við við þær aðstæður sem við erum með í dag. Það er náttúrlega töluvert mikið í fang færst ef menn ætla að gera breytingar sem munu leiða til þess, eins og eðli samkeppninnar kallar á, að höfnum fækki. Það getur ekki verið annað markmið og önnur niðurstaða af því að taka upp samkeppni í þessari starfsemi en að höfnum fækki.

Ég bendi t.d. á að seint hefði það verið talið skynsamlegt í ljósi þess nýja anda sem hér er í frv. að leggja mikla peninga í dýpkunarframkvæmdir í öllum þeim höfnum landsins sem menn hafa ákveðið að ráðast í til þess að mæta þróun í stækkun skipaflota, t.d. í loðnuveiðum. Ég velti því fyrir mér hvort menn hefðu fallist á að stækka höfnina og dýpka á Raufarhöfn ef við værum að vinna samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir. Mér er kunnugt um að fólk á Raufarhöfn hafði miklar áhyggjur af framtíð síns staðar og sagði fullum fetum að ef það fengi ekki dýpkun á höfninni stæðist það ekki samkeppni við aðrar hafnir sem stór og djúprist skip geta komið inn á og þar með væri grundvellinum kippt undan byggðarlaginu. Það varð niðurstaða þingmanna, bæði kjördæmisins og annarra, að það mætti ekki verða og menn ákváðu að beita sér fyrir því að fenginn yrði ríkisstyrkur til þess að standa undir þessari framkvæmd.

Í raun og veru segir þetta frv. að líklega hefur þessi ákvörðun ekki verið skynsamleg. Ég get ekki fengið annan botn í efni frv. en að menn ættu, og menn eigi, að stuðla að því að fækka höfnum og draga þannig úr bæði rekstrar- og stofnkostnaði og færa útgerðir á færri hafnir þannig að tekjurnar dreifist ekki eins víða og er í dag. Það má vel vera að þetta sé skynsamleg framtíðarsýn en ég hef efasemdir um það vegna þess að slík breyting kemur við svo marga og hún yrði mjög kostnaðarsöm. Ég held að það verði mikið álitamál hvort menn geti fundið út úr því hagnað þegar öll kurl koma til grafar. Þess vegna held ég að menn þurfi að vera algerlega vissir um að breytingin sem þeir ætla sér að fara í verði til góðs áður en þeir láta til skarar skríða.

Það er alveg ljóst að við það að taka út megnið af ríkisframlagi til hafnanna verða menn að velta þeim tekjumissi yfir á notendur. Og það er þá útgerðin, fiskiskipaútgerðin og vöruskipaútgerðin. Nú er dreifingin á þessu ekki jöfn eftir landshlutum eða höfnum landsins, heldur eru tekjurnar af vöruflutningi, inn- og útflutningi, fyrst og fremst hjá Reykjavíkurhöfn. Og gjöld og tekjur af fiskiskipaflotanum eru fyrst og fremst tekjur hafnanna á landsbyggðinni. Hafnirnar á landsbyggðinni sem munu missa ríkisstyrkinn að öllu eða verulegu leyti verða að bæta sér það upp með því að hækka gjöldin sem þær rukka af útgerðunum. Öðruvísi geta þær ekki náð endum saman. Og það hefur verið áætlað að tvöfalda þurfi aflagjaldið þannig að aukinn kostnaður á útgerðir á þessum stöðum getur verið 400--500 millj. kr. á ári.

Þetta getur kannski verið í lagi að því leytinu til að það hreyfi ekki mikið til útgerðarmynstrinu þannig að útgerðir færi sig ekki á milli hafna ef ekkert annað raskar stöðu hafnanna. En það er nákvæmlega það sem mér sýnist að gerist, að sumar hafnir bæti afkomu sína verulega við þessa breytingu, sérstaklega Reykjavíkurhöfn sem mun fá árlega mörg hundruð millj. kr. afkomubata vegna breytinga á virðisaukaskattslögunum og hafa tekjurnar af vörugjöldunum. Sú höfn mun bæta afkomu sína verulega og samkeppnisstaða hennar batna að sama skapi gagnvart hinum höfnunum sem þurfa að hækka gjaldskrá sína. Og það verður freistandi, hygg ég, fyrir margar fiskiskipaútgerðir að færa sig frá höfn sem þarf að tvöfalda gjaldskrá sína til hafnar sem þarf ekki að gera það. Það blasir alveg við að þetta er ekki breyting sem styrkir stöðu hafnanna á landsbyggðinni þegar þetta gerist hvort tveggja í senn.

Ef taka á upp samkeppnisrekstur verða að vera samkeppnisskilyrði, þá verða menn að geta keppt. Við getum ekki komið á samkeppni ef ekki eru sambærileg skilyrði fyrir hendi víðar á landinu en stefnir í. Það eru enn þá óleyst ýmis mál sem tengjast þessu frv. og það þarf að gera verulegar breytingar á því til þess að sæmileg samstaða náist um þessar viðamiklu breytingar.

Ég bendi á að aðeins 16 hafnir munu fá ríkisframlög miðað við það sem er að finna í frv., og það eru mjög litlar hafnir. Allar aðrar hafnir munu missa ríkisframlög sín. Þær munu í fyrsta lagi ekki eiga nokkra möguleika á að standa undir þeim skuldum sem á þeim hvíla í dag og það vantar allar upplýsingar um hvernig eigi að taka á þeim kostnaði. Það er heldur ekki sjáanlegt hvernig þessar hafnir eiga að geta aflað sér tekna til þess að standa að nauðsynlegu viðhaldi og uppbyggingu. Ég hef skoðað þetta t.d. miðað við hafnir á Vestfjörðum og það verður ekki séð að þessi breyting bæti stöðu þeirra. Þvert á móti benda upplýsingarnar til þess að staða þessara hafna muni almennt versna við þá breytingu sem lögð er til í frv. Og það er ekki það sem menn þurfa í þessu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, að efna til breytinga sem veikja stöðu byggðarlaga eins og sjá má að verði við þessar breytingar. Það er ekki neinum til góðs og ég ætla að hæstv. samgrh. sé ekki að leggja til að leggja í slíkan leiðangur. Menn verða þá auðvitað að fara yfir efni frv. og gera á því þær breytingar sem nauðsynlegar eru til þess að ljóst sé að menn veiki ekki stöðu sjávarplássa víða um landið frá því sem nú er.

Ég tel t.d. að sú skilgreining sem er í frv. á því hvaða hafnir eru styrkhæfar og hvenær --- það er undantekningarákvæði, í raun er meginreglan sú að ríkisstyrkir eru aflagðir --- sé allt of þröng til þess að við hana sé hægt að una. Ég tel að algerlega vanti ákvæði um þann kostnað sem fallinn er til hjá skuldsettum höfnum og hvernig eigi að leysa úr því máli. Ég tel að það vanti algerlega ákvæði um hvernig hafnirnar eigi að geta keppt. Ég sé ekki samkeppnisumhverfið sem á að búa til. Ég sé ekki annað en að Reykjavíkurhöfn muni hafa algera yfirburði í því umhverfi sem lagt er til í frv. að verði, og að það hljóti að leiða til þess að útgerðir færi starfsemi sína til, jafnvel milli landshluta, sæki í hafnir sem geta boðið miklu lægri gjöld fyrir þá þjónustu sem þarf að veita. Þetta eru hlutir sem þarf að skoða.

Við verðum auðvitað að hafa það í huga hvernig staðan er hjá okkur. Við erum með eina aðalútflutningshöfn, og tekjur af innflutningi og útflutningi renna til þeirrar hafnar. Aðrar hafnir á landinu fá lítið sem ekkert í tekjur af því, heldur styðjast við gjöld af fiskiskipaflotanum. Mér sýnist ekki geta verið vænlegt að stórhækka gjöld á þann flota þegar hann getur síðan sótt í aðra höfn eða aðrar hafnir sem ekki þurfa að hækka gjöld sín. Það liggur alveg í augum uppi hvaða hættu menn bjóða heim með slíkri breytingu.

Af minni hálfu eru því verulegar efasemdir um þetta mál og fleiri. En þingflokkurinn féllst á að leggja frv. fram til þess að það mætti koma hér til umræðu og þinglegrar meðferðar. Við leggjum áherslu á að það fái vandaða meðferð í hv. samgn. en leggjum jafnframt áherslu á að efni frv. verður að taka verulegum breytingum til þess að menn nái samkomulagi um afgreiðslu þess.