Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:16:00 (4540)

2003-03-06 20:16:00# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:16]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að Reykjavíkurhöfn hefur algera yfirburði yfir aðrar hafnir landsins. Þeir yfirburðir munu aukast við þær breytingar sem hér eru lagðar til. Hafi ég réttar upplýsingar um áhrifin af endurgreiðslu innskattsins mun það þýða að staða Reykjavíkurhafnar batni um 600 millj. kr. á ári. Hins vegar virðast fiskihafnirnar þurfa að auka tekjur sínar um 400--500 millj. kr. til að afla nýrra tekna til að mæta því að ríkið dregur sig út með styrkveitingar. Ég tel að báðar þessar breytingar vinni gegn því að jafna samkeppnisskilyrðin og muni auka á þá yfirburði sem Reykjavíkurhöfn hefur yfir aðrar hafnir landsins.

Ég sé ekki, herra forseti, að þessi breyting bæti úr þar sem vandinn er fyrir. Vandinn sem er fólginn í því að hafnir hafa ekki nægar tekjur og skuldir þeirra eru þungur baggi á sveitarfélaginu. Og það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. samgrh. hvar í frumvarpinu er að finna þær tillögur sem leysa þann vanda sem hafnirnar standa frammi fyrir. Við þurfum að leysa vandann en ekki búa til nýjan vanda.