Hafnalög

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 20:36:39 (4546)

2003-03-06 20:36:39# 128. lþ. 90.7 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[20:36]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég var að hlýða á þessar umræður á skrifstofu minni um þetta frv. til hafnalaga og ég verð að segja það alveg eins og er að ég tek undir orð þeirra þingmanna sem hér hafa sagt að það væri afar furðulegt að koma með þetta mál hér inn núna. Ég lýsti þeirri afstöðu minni að ég er algjörlega andvígur frv. eins og það er upp sett. Ég tel að það verði mörgum sjávarbyggðunum til mikils tjóns.

Ég hef satt að segja staðið í þeirri trú, herra forseti, að hæstv. samgrh. hefði í raun beitt sér fyrir nógu mörgum verkum sem mér finnast ekki hafa verið til gæfu eins og síðasta verkið um áhafnir fiskiskipa og flöggun undir erlendum fána. Núna kemur frv. sem á að vega að höfnum landsins og starfsumhverfi úti um landið. Ég tel að þetta frv. eigi að fara í nefnd og sofna þar löngum svefni eins og það er í pottinn búið. Ég tel að þetta muni vega að öryggi byggðanna. Þetta vegur að þeirri lífæð sem hafnirnar eru og þeim rekstri sem sjávarþorpin byggjast á. Mér er nær að líkja þessu frv. við þá aðför sem gerð var að byggðum landsins þegar framseljanlega kvótakerfið var tekið upp 1990, þ.e. ef þetta gengur eftir. Ég hygg að þetta muni höggva veruleg skörð víða í rekstur og afkomumöguleika margra sjávarbyggða.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál nú við 1. umr. Ég mun hins vegar tjá mig betur um málið ef það kemur til 2. umr. sem ég vona svo sannarlega að verði ekki á þeim fáu dögum sem eftir lifa af þessu þingi. Ég held að öllum væri til gæfu að málið fengi að sofa fram yfir kosningar. Ég átta mig alls ekki á því hvað hæstv. samgrh. gengur til að keyra þetta mál hér inn í þing á síðustu dögum. Það verður enginn friður um að keyra þetta mál hér í gegn.