Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:38:42 (4627)

2003-03-10 16:38:42# 128. lþ. 93.26 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv. 55/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:38]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna er hér um viðamikið mál að ræða. Það hefur tekið talsverðan tíma í hv. umhvn. að fjalla um málið en sú umfjöllun hefur verið góð, yfirgripsmikil og vönduð. Ég held að við höfum skoðað alla þætti þessa máls í nefndinni. Meðal þess sem nefndin varð sammála um á endanum var það sem kemur fram í nál., að hér væri byggt á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í nál. segir, með leyfi forseta:

,,Með sjálfbærri þróun eða sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda er átt við þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Hugmyndafræðin byggist m.a. á því að náttúruauðlindir skuli ekki nýttar á þann hátt að af hljótist mengun eða að umhverfinu sé spillt á annan hátt. Nefndin bendir á að gæta verður jafnt að öllum þremur þáttunum sem hugmyndafræðin er spunnin úr, þ.e. þeim efnahagslega, samfélagslega og vistfræðilega. Mikilvægt er að tengja ævinlega saman efnahagslegar og vistfræðilegar forsendur þegar fjallað er um meðhöndlun úrgangs og gæta þess að vistfræðilegum forsendum sé gert jafnhátt undir höfði og hinum efnahagslegu og tæknilegu.``

Herra forseti. Ég tel mjög mikilvægt að þessi skilgreining skuli nú sett niður í þessu nál. Þar með er algjörlega ljóst að undirstöður hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar eru hér allar með í farteskinu. Þess vegna gætir kannski svolítils tvískinnungs þegar verið er að fjalla um mál af þessu tagi og reynt að hnykkja á að gera hlutina með sem minnstum tilkostnaði. Auðvitað erum við öll sammála um að svona hluti þurfi að gera með sem minnstum tilkostnaði en þó þarf að gæta þess að hinn efnahagslegi þáttur verði ekki ráðandi, þ.e. að þessir þrír þættir, hinn samfélagslegi, vistfræðilegi og hinn efnahagslegi séu samtvinnaðir í öllum ákvörðunum sem byggja á hugmyndafræðinni sem þetta frv. byggir á og nál. umhvn. byggir á.

Ég tel að hér sé mikið framfaramál á ferðinni, þ.e. vistvernd í verki. Hér erum við ekki bara að leggja ákveðnar skyldur á sveitarfélögin heldur alla íbúa þessa lands. Við erum auðvitað að leggja þær skyldur á herðar sveitarfélögunum að þau uppfræði íbúana um hvað er á ferðinni og þær skyldur hvíla að sjálfsögðu líka á umhvrn. að standa vel að fræðslu varðandi þessi mál. Svona ný hugmyndafræði er ekki innleidd í samfélag nema samhliða fari fram öflug fræðslustarfsemi.

Ég gat þess í nefndinni við umfjöllunina að gæta þyrfti að því að fræðsluþátturinn yrði tekinn föstum tökum og fjármagnið yrði ekki sparað í hann. Ég tel að hér þurfi sameiginlegt átak ef vel á að vera.

Að lokum, herra forseti, langar mig bara til að vitna til þess að þessi lagasetning er í samræmi við þær reglur sem við höfum undirgengist á alþjóðavettvangi, þ.e. reglur sem byggja á samningunum sem undirritaðir voru í Ríó 1992 og var síðan áframhald á í Jóhannesarborg á nýliðnu ári. Mig langar til að vitna til stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og til ræðu hæstv. forsrh. á þinginu í Jóhannesarborg, sem hann flutti 2. sept. 2002, en þar sagði hæstv. forsrh., með leyfi forseta:

,,Með grundvallarregluna um sjálfbæra þróun að leiðarljósi hafa margar þjóðir náð markverðum árangri á undanförnum árum. Ný viðfangsefni í umhverfismálum eru orðin forgangsmál í opinberri stefnumörkun, nýjar lausnir og aðferðir hafa orðið til sem gera okkur kleift að ná settum markmiðum og setja okkur ný og æðri markmið. Ríkisstjórn Íslands hefur gert þetta með nýrri langtímaáætlun sem miðar að því að tryggja sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Allt er þetta jákvætt og okkur ber að fagna því sérstaklega að sýnt hefur verið fram á að umhverfisvernd er ekki þrándur í götu efnahagslegra framfara, þvert á móti er okkur nú ljóst að umhverfisvernd er forsenda sjálfbærs efnahagsvaxtar til langs tíma.``

Herra forseti. Ég hef lokið tilvitnun í ræðu hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar á umhverfisþinginu í Jóhannesarborg í byrjun september á síðasta ári. Mér þykir mikilvægt að brýna ríkisstjórnina og þingmenn stjórnarflokkanna í þessum efnum. Hér er búið að leggja línur. Við höfum gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar og hæstv. forsrh. viðurkennir þær eins og hér kemur fram í ræðu hans á Jóhannesborgarþinginu. Ég held að nú þurfum við bara að taka höndum saman og sjá til að þær breytingar sem eru samfara þessari lagasetningu gangi þægilega fyrir sig. Þær verða vonandi kynntar fólki og fólk uppfrætt um þær þannig að við getum staðið að málum þannig að sómi verði að.