Meðhöndlun úrgangs

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 16:49:14 (4629)

2003-03-10 16:49:14# 128. lþ. 93.26 fundur 338. mál: #A meðhöndlun úrgangs# (EES-reglur) frv. 55/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 128. lþ.

[16:49]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar meðhöndlun úrgangs tel ég að til að uppfylla skuldbindingar okkar beri okkur í fyrsta lagi að minnka sorp og í öðru lagi að flokka sorp, ekki síst að flokka lífrænan úrgang frá öðrum úrgangi. Þau rök sem hv. þm. notaði fyrir því að hafa þessa blöndun áfram voru að niðurbrot úrgangsins yrði hraðara á sorpurðunarstöðunum og það mætti nota metangasið til áframhaldandi vinnslu. Það er rétt en ég tel að það sé í raun og veru óraunhæfur kostur að sjá fyrir sér metangasframleiðslu á öllum urðunarstöðum landsins. Miklu líklegra er að niðurbrotið verði áfram hratt á urðunarstöðunum og metangasið fari áfram út í andrúmsloftið með þeirri miklu mengun sem af því er.

Varðandi kostnað sveitarfélaganna er þetta fyrst og fremst samstarf íbúa hvers svæðis og sveitarstjórna um að finna bestu lausnir til nýtingar á úrganginum. Þar með er ekki sagt að það þurfi að vera tvöfalt kerfi inni á hverju heimili, hverju fjölbýli. Það er hægt að koma fyrir flokkun utan húss þar sem fleiri sameinast um að koma lífræna úrganginum fyrir. Það hef ég séð erlendis þar sem hverfi nota sameiginlega slíkan stað, þ.e. litla gáma til að taka við lífræna úrganginum. Ég vil aðeins fá viðbrögð við þessu.