2003-03-11 00:03:09# 128. lþ. 94.38 fundur 132. mál: #A réttarstaða samkynhneigðs fólks# þál. 17/128, Frsm. ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[24:03]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um till. til þál. um skipun nefndar til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks.

Við fengum gesti á fund nefndarinnar frá biskupsstofu, Samtökunum 78, og Mannréttindaskrifstofunni, og umsagnir frá ýmsum aðilum sem getið er um á þingskjali.

Í umsögnum kemur m.a. fram mikilvægi þess að gera heildarúttekt á þessum málum og bæta réttarstöðu þessa hóps til jafns á við aðra í samfélaginu. Með skipun nefndarinnar er stigið mikilvægt skref í því að fá heildarsýn hvað stöðu þessa hóps varðar, en eins og kemur fram í greinargerð með tillögunni sést afar skýrt hversu réttarstaða samkynhneigðra er slæm þegar hún er borin saman við réttarstöðu sambúðarfólks og þeirra sem eru í hjónabandi.

Til grundvallar tillögunni liggur skýrsla frá mars 2001 sem unnin var í dómsmálaráðuneytinu um réttarstöðu fólks í sambúð og hjónabandi. Samkynhneigðir eiga ekki þann valkost að geta skráð sig í sambúð eins og aðrir heldur einungis að fara í staðfesta samvist. Stefnumið síðustu ára hafa ótvírætt verið í þá átt að leggja sambúð án vígslu í auknum mæli til jafns við hjúskap í einstökum lagasamböndum og er í skýrslunni gerð grein fyrir lagaákvæðum á fjölmörgum réttarsviðum sem sett hafa verið um réttarstöðu einstaklinga í óvígðri sambúð. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að ekki hafi verið gerð úttekt á því hvort og þá hvernig rétt væri að setja einstök lagaákvæði um réttarstöðu samkynhneigðra í óstaðfestri samvist. Nú er því mikil réttaróvissa um hvort og á hvaða réttarsviðum unnt er að leggja að jöfnu sambúð gagnkynhneigðra og sambúð samkynhneigðra. Rétt er að leggja áherslu á að þetta snertir bæði réttindi og skyldur samkynhneigðra í sambúð.

Mikil þróun og umræða hefur átt sér stað á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu um þessi mál, og margar breytingar hafa verið gerðar á lögum til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu. Mikilvægt er að skoða þessi mál heildstætt, bæði stöðuna hér heima og í öðrum löndum og verður það m.a. hlutverk þeirrar nefndar sem hér er gerð tillaga um.

Ísland hefur á síðustu árum verið í fararbroddi þeirra landa og þjóða sem hafa stutt við réttindi samkynhneigðra og er þessi tillaga því að mínu mati mjög rökrétt framhald af þeirri lagaþróun sem átt hefur sér stað í málefnum samkynhneigðra.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt, herra forseti.