2003-03-11 00:43:49# 128. lþ. 94.40 fundur 681. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (innflutningur lifandi sjávardýra, EES-reglur) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[24:43]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Segja má að þetta sé svona systurfrumvarp þess sem hér var rætt áðan og snýr að lax- og silungsveiði og lögum um innflutning dýra og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, með síðari breytingum. Það er rétt hjá hv. þingmönnum að málið kemur seint fram. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. (Gripið fram í: Segðu okkur þær.) Í fyrsta lagi hafa menn auðvitað verið að vinna í þessum málum og vonuðu það sem kannski gat gerst að menn fengju þessa undanþágu áfram en það hefur ekki tekist frá því í júní í sumar.

Hér hefur verið farið yfir það að með EES-samningnum skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að innleiða tilskipun 91/67/EBE í íslenskan rétt sem taka átti gildi í júlí 1994.

Íslensk stjórnvöld hafa haft víðtæka undanþágu frá framangreindri tilskipun en sú undanþága féll endanlega úr gildi 30. júní sl. eins og áður sagði.

Ef ég á að rekja nokkur atriði, þá stendur málið þannig nú að Eftirlitsstofnun EFTA hefur fylgst náið með framgangi mála hér á landi um innleiðingu tilskipunar 91/67/EBE og af því tilefni sent fjögur kvörtunarbréf á undanförnum mánuðum. Sá tími sem Ísland hefur til svara, skýringa eða úrbóta er nú að renna út. Telji stjórnvöld sig ekki geta bætt úr því sem kvartað er yfir eða rökstutt, að þau telji sér það ekki skylt, má telja líklegt að málið fari á næsta stig mjög fljótt, innan eins eða tveggja mánaða. Eftirlitsstofnun EFTA mun þá krefjast rökstudds álits af Íslands hálfu, gefa lokafrest sem er yfirleitt tveir mánuðir til úrbóta og lagfæringa. Eftir þann frest hefur Eftirlitsstofnun EFTA heimild til að höfða mál gegn íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum.

[24:45]

Í frumvarpi þessu er kveðið á um breytingar á þrennum lögum sem varða innflutning á fiski, hrognum og sviljum. Meginbreytingarnar eru eftirfarandi:

Í lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, er lagt bann við innflutningi lifandi laxfiska eða annarra fiska er lifa í ósöltu vatni. Landbúnaðarráðherra er heimilt að leyfa innflutning lifandi hrogna slíkra fiska. Innflutningsbann þetta stríðir gegn tilskipun 91/67/EBE og er því nauðsynlegt að það verði afnumið. Þar sem bann er lagt við innflutningi á notuðum eldisbúnaði í lögunum verður jafnframt að vera skýr heimild í lögum um notkun erlendra flutningstækja vegna fiskeldis, eins og brunnbáta, þar sem hér er um að ræða sérhönnuð flutningsför sem oft eru ekki til hér á landi en eru nauðsynleg til flutnings eldisdýra. Þá er gert ráð fyrir að fiskistofustjóri taki sæti í fisksjúkdómanefnd en með frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, sem fjallar um innflutning sjávardýra á grundvelli tilskipunar 91/67 og lagt er fram samhliða þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að fisksjúkdómanefnd verði sjávarútvegsráðherra til aðstoðar og ráðuneytis varðandi fisksjúkdóma í sjávardýrum. Valdsvið nefndarinnar hefur því verið aukið á þann veg að það nær að þessu leyti til sjávardýra. Er því talið eðlilegt að fiskistofustjóri eigi sæti í nefndinni. Nefndin verður þá skipuð fjórum aðilum og miðað við að ef atkvæði verða jöfn ráði atkvæði formanns úrslitum.

Samkvæmt lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra, er óheimilt að flytja til landsins hvers konar dýr, tamin eða villt, svo og erfðaefni þeirra. Ráðherra hefur þó heimild samkvæmt lögunum til að víkja frá banninu að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Þar sem ákvæði þetta kveður á um almennt innflutningsbann dýra er talið nauðsynlegt með frumvarpinu að kveða á um heimild til innflutnings lifandi fiskeldisdýra með skýrum hætti í samræmi við tilskipunina, enda skal innflutningurinn háður skilyrðum reglugerðar sem landbúnaðarráðherra setur.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breytingu á lögum nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, þar sem kveðið á um skyldu landbúnaðarráðherra til setningar reglugerðar vegna innleiðingar tilskipunar 91/67/EBE í íslenskan rétt, þ.e. til að takmarka útbreiðslu sjúkdóma. Reglur um sjávardýr skulu settar í samráði við sjávarútvegsráðherra. Jafnframt er kveðið á um heimildir landbúnaðarráðuneytisins í samráði við embætti yfirdýralæknis til að takmarka eða banna inn- og útflutning tiltekinna dýra og afurða þeirra, til lengri eða skemmri tíma, til tiltekins lands eða landsvæðis telji hann að slíkur flutningur valdi eða sé líklegur til að valda útbreiðslu sjúkdóma.

Samkvæmt gildandi löggjöf hér á landi koma bæði landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti að málum vegna innflutnings á lifandi fiskeldisdýrum og erfðaefni þeirra. Í 13. gr. laga nr. 54/1990, um innflutning dýra, er skýrt kveðið á um heimild landbúnaðarráðherra til að leyfa innflutning fiska og erfðaefnis þeirra. Um er að ræða fisk sem lifir í fersku vatni. Í bráðabirgðaákvæði laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, var ákvæði sem heimilaði sjávarútvegsráðherra að veita leyfi fyrir innflutningi lifandi fiska, skrápdýra, liðdýra og lindýra sem lifa í söltu vatni en það féll úr gildi 31. desember 2002. Tilskipun 91/67/EBE tekur bæði til fiskeldisdýra sem lifa í fersku og söltu vatni. Tilskipunin varðar þannig starfssvið tveggja ráðuneyta, landbrn. og sjútvrn., og þau hafa haft samvinnu við undirbúning beggja þeirra lagafrv. eins og hér hefur komið fram.

Frumvarp þetta felur í sér að innflutningsbanni lifandi laxfiska og annarra fiska, sem lifa í fersku vatni, er aflétt. Samhliða þessu frumvarpi leggur sjávarútvegsráðherra fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar, sem hefur að geyma sambærilega heimild til innflutnings á fiskeldisdýrum sjávar. Með frumvörpunum er því verið að samræma innflutningsreglur vegna lifandi fisks í fersku og söltu vatni.

Við undirbúning frumvarpanna var lögð áhersla á að reglur verði heildstæðar hvað sjúkdóma varðar og að stofnanir sem fyrir eru verði nýttar til að hafa eftirlit með sjúkdómastöðu í eldi ferskfisks, vatna- og sjávardýra.

Eitt meginmarkmiða tilskipunar 91/67/EBE er samræming eftirlits með inn- og útflutningi lifandi fiskeldisdýra og erfðaefnis þeirra. Þetta eftirlit mun hérlendis verða í höndum embættis yfirdýralæknis sem er í samræmi við lög og reglur innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji með reglugerð, byggðri á tilskipun 91/67/EBE, með síðari breytingum, ákvæði sem nauðsynleg eru með tilliti til smitsjúkdómahættu vegna innflutnings sem kann að verða leyfður verður á grundvelli þessara laga.

Til þess að tryggja megi óbreytt heilbrigðisástand við innleiðingu tilskipunarinnar, hafa íslensk fisksjúkdómayfirvöld óskað eftir viðbótartryggingum gagnvart fimm alvarlegustu sjúkdómum sem upp geta komið í fiski. Tilgangur umsóknarinnar er að fá formlega viðurkenningu Evrópusambandsins þess efnis að íslensk yfirvöld sinni öflugu eftirlitsstarfi og landið sé sannanlega laust við alvarlega smitsjúkdóma. Slíkar tryggingar kveða á um sérstakar heimildir stjórnvalda til að verjast smitsjúkdómum með öflugri hætti en ella og takmarka innflutning. Gert er ráð fyrir að afgreiðsla viðbótartrygginganna taki u.þ.b. fjóra mánuði eftir að frv. er orðið að lögum, en ekki verður unnt að fá viðbótartryggingar fyrr en tilskipunin hefur verið innleidd í íslensk lög.

Hér er því lagt til að gildistöku laganna verði frestað til 1. ágúst 2003, eða þann tíma sem áætlað er að þurfi til að fá viðbótartryggingarnar í gildi hér á landi.

Í fylgiskjali með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa í það.

Hæstv. forseti. Ljóst er að verði tilskipun 91/67/EBE ekki innleidd í íslenska löggjöf á næstunni getur það haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf. Framtíðarútflutningi á fiski kann að vera ógnað ef íslensk stjórnvöld uppfylla ekki áðurnefndar skuldbindingar. Í þessu sambandi geta m.a. komið upp vandamál sem felast í óljósri lagastöðu Íslands vegna ófullnægjandi innleiðingar samræmdra reglna og erfiðleika við vottun sem líklegt er að erlendir samkeppnisaðilar nýti sér. Einnig er aukin hætta á að hingað berist sjúkdómar sem ekki finnast hér á landi sem geta eyðilagt þann mikla og góða orðstír sem Ísland hefur vegna einstakrar sjúkdómastöðu á þessu sviði. Miklir hagsmunir eru því í húfi, jafnt hvað varðar útflutning og heilbrigði íslenskra fiskstofna, en með innleiðingu tilskipunarinnar verður lögð áhersla á að með henni fái íslensk stjórnvöld jafnframt nauðsynleg stjórntæki til að gæta þess að einungis verði flutt inn eldisdýr sem eru laus við þá sjúkdóma sem ekki fyrirfinnast hér á landi. Málssókn Eftirlitsstofnunar EFTA vofir yfir gegn íslenska ríkinu vegna brota á EES-samningnum eins og ég hef hér komið áður inn á.

Með vísan til þess sem hér hefur verið gerð grein fyrir, tel ég ljóst að allir þingmenn geri sér grein fyrir að Ísland er í erfiðri stöðu í þessu máli og hversu brýnt það er og í raun óhjákvæmilegt að tilskipun 91/67/EBE verði innleidd í íslenska löggjöf á því löggjafarþingi sem nú stendur yfir eins og gert er ráð fyrir í því frv. sem hér er til umfjöllunar.

Ég tek undir ýmislegt sem hér hefur komið fram í umræðunni, að landið getur þess vegna við þessar aðstæður verið opið í báðar áttir og því brýnt að taka þetta mál föstum tökum.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.