2003-03-11 00:54:29# 128. lþ. 94.40 fundur 681. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (innflutningur lifandi sjávardýra, EES-reglur) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[24:54]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hæstv. landbrh. að taka þurfi föstum tökum á þessum málum og hafa allan varann á þegar verið er að tala um að flytja inn dýr, hvort sem það eru sjávardýr eða önnur, til kynbóta eða eldis hér á landi.

Í umræðu um varðveislu erfðaefna í íslenskri náttúru í umfjöllun landbn. komu fram þau sjónarmið að í nefndinni ætti líka að sitja einhver fulltrúi sem kæmi t.d. frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, vegna þess að öll þau mál sem tengjast genum og innflutningi á dýrum og blöndun og annað skarast mjög við svið siðfræðinnar og þetta er ekki bara mál náttúrufræðinnar ef svo má að orði komast.

Mig langar aðeins að varpa þessum orðum hér inn í umræðuna og heyra hvað hæstv. landbrh. hefur um það að segja. Í 3. gr. er einmitt talað um fiskisjúkdómanefnd og þá datt mér í hug, herra forseti, hvort einnig gæti heyrt inn á hennar svið það sem ég var að tala um í sambandi við það sem lýtur að siðfræði og slíkum málum í þessari umræðu.