2003-03-11 00:56:33# 128. lþ. 94.40 fundur 681. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (innflutningur lifandi sjávardýra, EES-reglur) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[24:56]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. er nú utan við það mál sem við ræðum hér í umfjöllun sinni um allt annað efni. Hér er fyrst og fremst um að ræða að eiga sterk tæki til að varna því að sjúkdómar komist til landsins og að standa við þær skuldbindingar sem menn ákváðu hér í þessari stofnun þegar gengið var í EES eða EES-samningurinn var gerður á síðustu öld, fyrir einum tíu árum eins og við munum. Hér er verið að fullnægja því og koma um leið reglum á til þess að mæta því að undanþágu hefur verið svipt burtu, þannig að málið snýst um þær varnir.

En hvað hitt varðar sem hv. þm. nefnir með erfðafræðina og alls konar áætlanir og tilraunir sem menn standa í, þá get ég vel fallist á það að siðfræðimenntaður maður frá háskólanum komi að því. Ég minnist þess t.d. þegar ég fjallaði um innflutning á norsku kúnni á sínum tíma eða þeirri tilraun sem þá átti að fara í gang og allri þeirri umræðu, þá átti ég ágætt samstarf við siðfræðimenntaðan mann úr Háskóla Íslands, sem mér þótti vænt um bæði að hitta og fá álit frá. Þetta er gott innlegg, hv. þm., í aðra mikilvæga umræðu.