2003-03-11 00:58:20# 128. lþ. 94.40 fundur 681. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (innflutningur lifandi sjávardýra, EES-reglur) frv., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[24:58]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir góðar undirtektir við það sem ég vakti máls á og tel að það eigi alveg heima í þessari umræðu líka, því við erum náttúrlega að tala um hluti sem koma inn á svið íslenskrar náttúru jafnvel, þegar við erum að flytja inn dýr sem geta haft breytingar í för með sér vegna gena og haft áhrif á stofnana með sjúkdómum og öðru.

Það er svo að stundum fara menn fram af meira kappi en forsjá í því þegar þeir sjá hagnaðar- og ábatavon í hvers konar eldi og vilja þá kannski fara að flytja inn ýmsar tegundir dýra eða fiskstofna jafnvel eða fiskstofnaafbrigða, og því er ég að benda á það í þessari umræðu að siðfræðingar eða aðilar sem hefðu aðra sýn á málið en náttúrufræðingar væru ágætir inn í umræðuna og ákvarðanatöku þegar verið er að leyfa innflutning á ákveðnum dýrum eða lífverum sem við teljum ábata í að rækta hér eða koma upp. Það er það sem ég vildi segja, að það verður að vera ákveðinn agi ef svo má að orði komast, herra forseti, og aðhald í þessum efnum til að forðast hugsanleg slys, jafnvel stórslys, þegar við erum að fást við þetta. En ég ítreka aftur þakkir og jákvæð viðhorf hæstv. landbrh. í þessu.