2003-03-11 01:02:01# 128. lþ. 94.40 fundur 681. mál: #A lax- og silungsveiði o.fl.# (innflutningur lifandi sjávardýra, EES-reglur) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[25:02]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér fjöllum við um frv. til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, lögum um innflutning dýra og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Þetta er fylgifiskur þess frv. sem hér var kynnt áðan og afleiðing þess að við tókum upp tilskipanir frá EES og fengum frest þar til nú. Við höfum því ekki lengur undanþágu varðandi það ákvæði að flytja inn seiði og fisk á mismunandi þroskastigum. Það á bæði við í söltum sjó og í fersku vatni. Eins og hér hefur komið fram fara bæði hæstv. sjútvrh. og sjútvrn. og landbrh. og landbrn. með þessi mál og fer það eftir því hvort seiðin og fiskurinn eru í söltum sjó eða fersku vatni.

Við höfum verið svo lánsöm að búa við ákveðna vernd. Hér á árum áður var hún bara af náttúrlegum aðstæðum og síðan stafaði vernd sú sem við höfum búið við af undanþágu frá EES-ákvæðinu.

Nú er verið að gera breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, bæta við eldisdýrum sem þar hafa ekki verið áður inni. Þau eru lagardýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni, og tekin hafa verið úr náttúrulegu umhverfi sínu og eru alin við stýrðar aðstæður, svo og erfðaefni þeirra.

Hér er sem sé verið að bæta eldisdýrum inn í lög um lax- og silungsveiði og eins og oft hefur komið hér fram eru mismunandi hagsmunir í húfi. Við berum hag ánna og hins villta lax fyrir brjósti og alla hagsmuni sem laxveiðibændur eða eigendur ánna hafa af því að selja veiði úr ám sínum. En við höfum líka þær skyldur að vernda villta íslenska laxastofninn. Allt eldi á laxi sem ekki er af íslenskum uppruna hér við Íslandsstrendur er mjög viðkvæmt. Við erum núna að opna fleiri glufur, fleiri möguleika á að koma með fleiri tegundir hingað inn að landi.

Ég legg ríka áherslu á að þar sem verið er að opna fyrir eldi á hinum ýmsu tegundum hér á landi þá þurfum við ekki eingöngu að vera mjög varkár út frá smitsjúkdómavörnum heldur ekki síður vegna erfðablöndunar við sambærileg dýr eða fiska í íslenskri náttúru.

Þar sem þetta frv. og það sem hér var mælt fyrir áðan koma mjög seint inn í þingið og þessi frv. bæði munu skapa hér allt annað umhverfi hvað varðar verndun fiskstofna okkar og vörn gagnvart smitsjúkdómum í fiskum og skeldýrum þarf vitaskuld að fara mjög vel yfir þessi frv. Það verður að gefa hæstv. sjútvn. og landbn. tíma til þess að fara vel yfir þessi frv. og kalla til nefndanna sérfræðinga og þá sem best þekkja til og eiga að fara með þessi mál. Það þýðir ekkert að vera með neina fljótaskrift á afgreiðslu þessara mála.

Fari svo að þeirri vinnu verði ekki lokið þegar við erum tilbúin að slíta þinginu þá tel ég best að koma þessari vinnu af stað, fá umsagnir og vinna málin í sumar. Ég trúi ekki öðru, ef vinnan verður komin í gang, en að svipa EES verði ekki yfir okkur, þ.e. ef sannanlega er verið að vinna í málunum. Það er mjög mikilvægt að vanda vel til verka og reyna að skoða þessi frv. frá mismunandi sjónarmiðum, bæði hvað varðar erfðablöndunina og smitsjúkdóma.