Úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 10:40:35 (4702)

2003-03-11 10:40:35# 128. lþ. 95.1 fundur 603. mál: #A úrræði fyrir fullorðna sem eiga við læsisvanda að etja# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[10:40]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég hefði að sjálfsögðu óskað þess að hæstv. menntmrh. gæti sagt okkur að verið væri að hrinda í framkvæmd metnaðarfullri áætlun til að bæta hér úr en ekki að við fengjum að heyra sama svarið og við heyrðum í nóvember sl. þegar hæstv. ráðherra gaf hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur nákvæmlega sama svarið og við fáum hér nú, þ.e. tillögur starfshópsins eru til athugunar í ráðuneytinu. Allur veturinn er liðinn frá því að þær bárust. Ég segi því við hæstv. ráðherra: Það hlýtur að vera kominn tími til, með allri þeirri áeggjan sem hæstv. ráðherra hefur fengið, fyrst með ályktun Alþingis og síðan með sífelldum spurningum hv. þingmanna, að hér sé blásið til aðgerða en ekki að menn sitji stöðugt yfir pappírunum og velti fyrir sér hvaða leiðir sé hægt að fara.

Ég lýsi líka vonbrigðum, herra forseti, með það svar hæstv. ráðherra að við höfum búið við það ástand að of margir færu í gegnum grunnskólann án þess að greinast. Það liggur við að manni finnist í orðunum liggja einhvers konar ásökun um það að Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands hafi verið hluti af vandanum, af því að menn hafi setið við mismunandi borð. Af því að ekki hafi öllum staðið til boða þjónusta Lestrarmiðstöðvarinnar hafi hún verið lögð niður. Getur verið að svo sé, herra forseti? Ég neita að trúa því. Ég gagnrýni í sjálfu sér ráðherra fyrir að heimila það að Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands skyldi hafa verið lögð niður.

Ég gagnrýni líka að ekki hafi verið leitað úrbóta á þeim svæðum á landinu sem Lestrarmiðstöð Kennraháskólans náði ekki til, en þegar öllu er á botninn hvolft er þetta svo að auðvitað þarf að taka heildstætt á þessu vandamáli. Ég geri ekki lítið úr því. En það þarf líka að gera sér grein fyrir því að tíminn er að renna út, aðgerðirnar bíða og kalla á að til þeirra sé gripið núna.