Áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:03:32 (4709)

2003-03-11 11:03:32# 128. lþ. 95.3 fundur 583. mál: #A áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:03]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur beint til mín fyrirspurn um áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga. Hv. þm. vekur hér athygli á mikilvægu máli en sem kunnugt er hefur meðhöndlun vímuefna og meðferð við vímuefnafíkn innan fangelsa komið til umræðu annað slagið.

Mjög hátt hlutfall þeirra sem afplána dóma í fangelsum landsins á við ofneyslu áfengis eða annarra fíkniefna að stríða. Margir í þeim hópi munu jafnframt eiga við geðræn vandkvæði að stríða. Starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar sinna fangelsum landsins og eru í því starfi í miklu samstarfi við fangelsisyfirvöld sem kalla þessa starfsmenn til eftir þörfum auk reglubundinna vitjana þessara starfsmanna í fangelsin, bæði lækna og hjúkrunarfræðinga, en þetta er mjög breytilegt eftir fangelsum landsins. Skipulegust og mest er heilbrigðisþjónustan í fangelsinu á Litla-Hrauni. Þar starfar heilsugæslulæknir, hjúkrunarfræðingar og geðlæknir í hlutastarfi.

Hvað varðar áfengis- og vímuefnameðferð í fangelsum þá er þar yfirleitt hægt að veita afeitrunarmeðferð og síðan svonefnda niðurtröppunarmeðferð þegar þörf krefur. Þá hefur það tíðkast í nokkrum mæli að fangar hafa fengið að ljúka afplánun á meðferðarstofnunum svo sem hjá SÁÁ, Byrginu og í Hlaðgerðarkoti. Hefur reynsla af þessari meðferð að öllu jöfnu verið góð. Það gildir um fanga sem aðra að til þess að áfengis- og vímuefnameðferð eigi að takast verður viðkomandi einstaklingur að hafa ákveðinn og einlægan vilja til meðferðarinnar og vera jákvæður gagnvart henni. Árangur getur því verið mjög breytilegur.

Ég hygg eins og áður segir að meðal fanga sé geðrænn vandi og fíkniefnavandi mjög samofinn. Úrræði og meðferð þurfa að taka mið af því. Sérhæfð geðmeðferð jafnhliða fíkniefnameðferð þarf að standa föngum til boða og enn fremur þarf að vera fyrir hendi gott meðferðar- og endurhæfingartilboð fyrir sem flesta afplánunarfanga í slíkum vanda. Aðkoma heilbrigðisþjónustunnar að þessum málaflokki er í sífelldri skoðun og endurmati þeirra sem hana stunda. Slíkt þarf stöðugt að eiga sér stað bæði með tilliti til meðferðaraðferða og einnig með tilliti til þeirra mismunandi vímuefna sem um er að ræða.

Hlutfall fanga sem háðir eru vímuefnum hefur farið vaxandi og gefur það enn frekar tilefni til þess að hafa þennan málaflokk í stöðugri endurskoðun. Er þá jafnt leitað ráða hjá íslenskum meðferðarstofnunum sem og fylgst með aðferðum annarra þjóða til að ráða við þennan erfiða vanda. Í allri þessari aðkomu heilbrigðisþjónustunnar er samstarf við fangelsisyfirvöld lykilatriði. Að mínu mati hefur samstarf þetta verið gott þrátt fyrir að um mjög erfiðan málaflokk er að ræða.

Herra forseti. Hv. þm. hefur vakið hér máls á þjónustu við fanga sem endurtekið hefur komið til umræðu bæði á forsendum heilbrigðisþjónustu og út frá sjónarmiðum fangelsisyfirvalda. Endanlegar lausnir munu seint nást í þessum málaflokki en mikilvægi sífelldrar endurskoðunar og virks samstarfs hefur getað reynst afgerandi. Ég mun beita mér fyrir því að svo verði af hálfu heilbrigðisþjónustunnar hér eftir sem hingað til jafnt á sviði almennrar heilbrigðisþjónustu sem sérhæfðrar geðlæknisþjónustu.