Áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:07:06 (4710)

2003-03-11 11:07:06# 128. lþ. 95.3 fundur 583. mál: #A áfengis- og vímuefnameðferð fyrir fanga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:07]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er dapurleg staðreynd að eiturlyfjaneysla er síaukið heilsufarsvandamál hjá þjóð okkar eins og flestum öðrum og það ástand endurspeglast í fangelsunum hjá okkur. Það er mjög mikilvægt, herra forseti, að veita föngum í afplánun meðferð eins fljótt og þeir eru tilbúnir til þess að fara í meðferð, þ.e. að hafa það ekki sem reglu að veita föngum meðferð, niðurtröppun eða afeitrun og fíkniefnameðferð í raun eingöngu síðustu sex vikur afplánunarinnar. Þá er langur tími oft liðinn sem hefði mátt nýta til þess að byggja viðkomandi upp og það sem eftir stendur er að eftirmeðferðin og markviss stuðningur eftir afplánun er ekki síður mikilvægur.