Staða óhefðbundinna lækninga

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 11:12:44 (4713)

2003-03-11 11:12:44# 128. lþ. 95.4 fundur 592. mál: #A staða óhefðbundinna lækninga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi LMR
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 128. lþ.

[11:12]

Fyrirspyrjandi (Lára Margrét Ragnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Á síðasta löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun um stöðu óhefðbundinna lækninga. Þverpólitísk samstaða var um tillöguna og sú sem stendur hér var 1. flm. hennar. Ályktunin var samþykkt samhljóða.

Efni ályktunarinnar fjallaði í megindráttum um skipun nefndar til að gera úttekt á stöðu óhefðbundinna lækninga hér á landi og bera hana saman við stöðu mála annars staðar í Evrópulöndum og Norður-Ameríku. Sérstaklega voru tiltekin atriði svo sem menntun sem í boði væri og menntun leiðbeinenda, hvaða reglur gildi um viðurkenningu náms og starfsréttinda, hvaða samvinna og samstarf sé milli þeirra sem stunda óhefðbundnar og hefðbundnar lækningar og samvinna þeirra á millum. Staða óhefðbundinna lækninga í skattalegu tilliti, einkum hvað snertir virðisaukaskatt, var einnig nefnd.

Sú nefnd sem fyrirhugað var að skipa skyldi safna niðurstöðum úr rannsóknum á áhrifum og virkni óhefðbundinna lækninga, algengi eftirspurna eftir slíkum lækingum, viðhorfi almennings til óhefðbundinna lækninga, gildi aukinnar viðurkenningar í námi í þessum greinum og loks tillögum hvernig best sé að koma til móts við vaxandi umsvif óhefðbundinna lækninga hérlendis.

Loks var í áætluninni samþykkt að fela nefndinni að skila skýslu til Alþingis um framvindu mála 1. apríl 2003 og endanlegum niðurstöðum 1. október nú í ár, 2003.

Óhefðbundnar lækningar hérlendis fara hraðvaxandi. Brýnt er að vel sé fylgst með þessari starfsemi og reglur settar um menntun, réttindi og viðurkenningu þeirra sem þær stunda. Í ljósi þess að Alþingi mun væntanlega ljúka störfum sínum í þessari viku eða fyrir dagsetningu áfangaskýrslu nefndarinnar, vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra um hvernig nefnd þessi er skipuð og hvenær hún var skipuð, enn fremur um stöðu mála, þ.e. hvort nefndin hafi hrundið af stað virkum athugunum samkvæmt þingsályktuninni, hvar nefndin er stödd í starfi sínu og hvort ekki megi búast við að störfum nefndarinnar, bæði áfangaskýrslu og lokaskýrslu, muni ljúka á tilsettum tíma.