Ábúðarlög

Þriðjudaginn 11. mars 2003, kl. 23:05:51 (4814)

2003-03-11 23:05:51# 128. lþ. 96.25 fundur 651. mál: #A ábúðarlög# (heildarlög) frv., 652. mál: #A jarðalög# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur, 128. lþ.

[23:05]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tveimur stórum lagabálkum sem eru að vísu seint fram komnir og ekki við því að búast að þetta þing geti afgreitt svo stór mál. En það var mikilvægt að fá þau fram og koma til nefndar svo þau geti komið til umfjöllunar á haustþingi.

Ég ætla, með leyfi forseta, að mæla sérstaklega fyrir frv. til jarðalaga og leggja þau fram samtímis en þreyta ekki forseta eða þing á langri ræðu um ábúðarlögin sem ég mæli fyrir samtímis.

Frumvarp til jarðalaga er samið í landbúnaðarráðuneytinu samkvæmt ósk minni sem landbúnaðarráðherra og er því ætlað að leysa af hólmi núgildandi jarðalög, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til nýrra ábúðarlaga sem ætlað er að leysa af hólmi núgildandi ábúðarlög, nr. 64/1976, með síðari breytingum, og hefur verið reynt að samræma ákvæði þessara lagafrumvarpa eins og kostur er. Ljóst er að núgildandi jarðalög eru í fjölmörgum atriðum orðin úrelt og eiga ekki lengur við aðstæður hér á landi í dag. Núgildandi jarðalög voru sett á árinu 1976 en frá þeim tíma hafa orðið miklar breytingar í landbúnaði eins og á öðrum sviðum í þjóðfélaginu. Má í raun segja að allar forsendur í landbúnaði séu verulega breyttar frá þeim tíma.

Í núgildandi jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, eru ýmis ákvæði sem fela í sér umtalsverðar takmarkanir á rétti jarðeigenda til meðferðar og ráðstöfunar á jörðum sínum. Hér má t.d. nefna að land sem nýtt var til landbúnaðar við gildistöku laga nr. 65/1976 er óheimilt að taka til annarra nota nema með leyfi landbúnaðarráðherra. Sveitarstjórnir og jarðanefndir sem eiga að hafa eftirlit með meðferð og ráðstöfun jarða og starfa fyrir hverja sýslu þurfa að samþykkja hvers konar aðilaskipti að jörðum, hvort heldur er fyrir kaup, gjöf, skipti, sameiningu, nauðungarsölu, búskipti, félags- og sameignarslit, fyrirframgreiðslu arfs, lán, leigu, ábúð, stofnun nýbýla, félagsbúa o.fl. Enn fremur eiga sveitarfélög forkaupsrétt að næstum öllum jörðum sem seldar eru í sveitarfélaginu. Örfáar undantekningar eru frá þessu íhlutunarvaldi sveitarstjórna og jarðanefnda sem gilda einkum um ríkisjarðir og jarðir sem ráðstafað er til náinna ættingja jarðareiganda. Einnig má nefna að ef einn sameigandi jarðar sem er í óskiptri sameign fleiri aðila rekur bú á jörðinni getur hann með vissum skilyrðum fengið leyfi landbúnaðarráðherra til að leysa til sín eignarhluta sameigenda sinna í jörðinni án tillits til þess hvort sameigendur hans eru því samþykkir eða andvígir. Fyrir eignarhlutann greiðir hann matsverð sem ákveðið er af matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms. Sömu heimildir hefur aðili sem rekur bú á jörð til að leysa til sín jarðarpart sem skipt hefur verið út úr jörðinni, sbr. 13. og 14. gr. jarðalaga, nr. 65/1976.

Framangreindar takmarkanir á eignarráðum jarðareiganda hafa verið skýrðar með hliðsjón af 1. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, en þar kemur fram að tilgangur laganna sé að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda. Með framangreindum ákvæðum hefur verið reynt að tryggja að byggð haldist í sveitarfélögum á landsbyggðinni og að jarðir sem eru hæfar til búskapar séu nýttar til landbúnaðarstarfsemi.

Ljóst er að allt umhverfi í landbúnaði er mjög breytt frá þeim tíma þegar jarðalög, nr. 65/1976, voru sett. Hefðbundinn landbúnaður hefur dregist saman á undanförnum árum og ættliðaskipti hafa ekki orðið með sama hætti og áður. Jarðir sem nýttar voru til landbúnaðar hafa verið teknar til annarra nota, t.d. fyrir sumarhúsabyggð eða frístundastarfsemi o.fl. Ekki er sama þörf og áður fyrir að jarðir hér landi séu nýttar til landbúnaðarstarfsemi. Þegar litið er til þeirra breytinga sem orðið hafa í landbúnaði síðan jarðalög, nr. 65/1976, voru sett og þess að forsendur í landbúnaði, sem voru fyrir hendi á þeim tíma eru í raun mjög breyttar, tel ég að kominn sé tími til að gera breytingar á íslenskri löggjöf að þessu leyti og slaka að nokkru leyti á þeim takmörkunum á ráðstöfunarrétti jarðareiganda sem fram koma í jarðalögum frá 1976.

Frumvarp þetta felur í sér nokkrar breytingar á þeim ákvæðum sem fram koma í jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Með ákvæðum þessa frumvarps er stefnt að því að færa löggjöf um jarðir í átt til nútímans og að samræma eins og unnt er eignarrétt og umsýslu jarða þeim meginreglum sem gilda um aðrar fasteignir í íslenskri löggjöf. Eins og áður hefur verið gerð grein fyrir eru í núgildandi löggjöf verulegar takmarkanir á ráðstöfunarrétti jarðeigenda og ýmsar kvaðir lagðar á þá sem geta verið mjög íþyngjandi og hafa oft í framkvæmd reynst ósanngjarnar. Með frumvarpi þessu er ætlunin að bæta að nokkru leyti úr þessum annmörkum, án þess að gengið sé lengra en þörf krefur.

Í frumvarpi þessu eru einnig nokkrar breytingar sem eiga rætur að rekja til þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við nokkur ákvæði jarðalaga, nr. 65/1976, og telur þau brjóta gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA hafa einkum beinst að ákvæðum 6. gr. laganna um tvöfalt samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar, 11. gr. laganna sem áskilur að þeir sem vilji kaupa jarðir eða fá umráðarétt yfir jörðum og nýta þær til landbúnaðar, skuli hafa stundað landbúnað hér á landi í a.m.k. tvö ár nema landbúnaðarráðherra veiti undanþágu frá því, svo og ákvæði 30. gr. laganna um forkaupsrétt sveitarfélaga og Jarðasjóðs ríkisins. Með frumvarpi þessu er reynt að koma að verulegu leyti til móts við þessi sjónarmið Eftirlitsstofnunar EFTA án þess þó að gengið sé lengra en þörf krefur í því efni.

Þá er á það að líta að með lögum nr. 28/1995, um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, voru lögfest ýmis ákvæði sem var ætlað að draga úr þeim áhrifum sem EES-samningurinn hafði á eignarhald og viðskipti með jarðir og annað land hér á landi en þau gengu undir nafninu ,,girðingalögin``.

Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að flestar þessar takmarkanir, þ.e. ,,girðingar``, verði áfram í lögunum. Í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins eru enn víðtækar takmarkanir á meðferð og ráðstöfun lands í landbúnaðarnotum og hefur því að svo stöddu enn ekki verið farin sú leið að fella niður allar þessar takmarkanir hér á landi.

Hæstv. forseti. Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru þessar:

Í fyrsta lagi: Markmiðum eða tilgangi laganna er hér breytt verulega í ljósi breytinga sem orðið hafa á aðstæðum, atvinnuháttum og nýtingu jarða í íslensku þjóðfélagi. Núgildandi jarðalög, nr. 65/1976, leggja of einhliða áherslu á landbúnaðarnot miðað við breytta atvinnuhætti og er reynt að breyta ákvæðinu í samræmi við það en jafnframt að tryggja þá veigamiklu hagsmuni sem fólgnir eru í þeim landkostum sem til eru hér á landi.

Í öðru lagi: Gildissviði laganna er nokkuð breytt og nær það einungis til landsvæða sem ekki hafa verið skipulögð fyrir aðra starfsemi en landbúnað án þess að slík svæði séu bundin við þéttbýli eins og er samkvæmt núgildandi jarðalögum, nr. 65/1976. Jafnframt er áréttað að alltaf verður skylt að leita leyfis landbúnaðarráðherra til að leysa land úr landbúnaðarnotum og gildir það bæði um skipulagsyfirvöld sem vilja skipuleggja landið fyrir aðra starfsemi en landbúnað og einnig aðra aðila. Sá fyrirvari er í lögunum að ef gert hefur verið skipulag staðfest af skipulagsyfirvöldum í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, fyrir aðra starfsemi en landbúnað um tiltekið land er það land undanskilið ákvæðum laganna. Sama gildir um land sem leyst hefur verið úr landbúnaðarnotum.

Í þriðja lagi: Jarðanefndir eru aflagðar með frumvarpinu. Í stað þess er gert ráð fyrir að sveitarstjórnum sé skylt að hafa starfandi sérstakar landbúnaðarnefndir sem hafi það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir sveitarstjórnir. Jafnframt er gert ráð fyrir að skylt sé að leggja fyrir þær öll mál sem sveitarstjórn fær til meðferðar samkvæmt frv. Sveitarstjórn er þó heimilt að sameina verkefni landbúnaðarnefndar og annarrar nefndar á vegum sveitarfélagsins, en það er í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

[23:15]

Í fjórða lagi: Felld eru niður ákvæði um innlausnarrétt ábúenda og sameigenda að eignarhluta í jörðum sem eru í óskiptri sameign, og landspildum sem skipt hefur verið út úr jörðum.

Í fimmta lagi: Breytt er verulega ákvæðum núgildandi jarðalaga, nr. 65/1976, um forkaupsrétt sveitarfélaga að jörðum. Farin er sú leið að takmarka heimildir sveitarfélaga til að neyta forkaupsréttar á þann veg að skilyrði fyrir því að sveitarfélög geti neytt forkaupsréttar séu að sveitarfélagi sé þörf á jörð, jarðahluta, öðru landi, fasteignum eða fasteignatengdum réttindum sem á að selja til nota fyrir starfsemi sveitarfélagsins eða til sameiginlegra nota fyrir íbúa sveitarfélagsins. Með sameiginlegum notum íbúa sveitarfélagsins er hér átt við hagsmuni stærri hópa íbúa sveitarfélagsins eða jafnvel meiri hluta, t.d. gæti fallið undir þá skilgreiningu ef sveitarfélag neytir forkaupsréttar að jörð í þeim tilgangi að nýta jörðina undir afrétt fyrir íbúa sveitarfélagsins. Ekki er hins vegar lengur heimilt að sveitarfélag neyti forkaupsréttar að jörð í þeim tilgangi að selja hana tilteknum íbúum sveitarfélags eða öðrum eða afhenda hana einstaklingum til nota með öðrum hætti. Ákvörðun sveitarstjórnar um að neyta forkaupsréttar að jörð er heimilt að kæra til landbúnaðarráðuneytisins. Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru m.a. gerðar vegna athugasemda sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við forkaupsréttarákvæði 30. gr. núgildandi jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum, en í bréfi stofnunarinnar til íslenskra stjórnvalda, dagsettu 4. júlí 2001, kemur fram það álit að ákvæði 30. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, brjóti gegn ákvæði 40. gr. EES-samningsins.

Í sjötta lagi: Ákvæði um að samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar þurfi til stofnunar réttinda yfir og aðilaskiptum að réttindum yfir fasteignum sem lögin taka til hefur verið breytt og leiðir það af eðli máls þar sem jarðanefndir eru aflagðar með frumvarpinu. Í stað þess er einungis skylt að afla samþykkis sveitarstjórnar fyrir slíkum aðilaskiptum. Þessi breyting er m.a. tilkomin vegna athugasemda sem ráðuneytinu hafa borist frá Eftirlitsstofnun EFTA en í bréfi stofnunarinnar til íslenskra stjórnvalda, dags. 4. júlí 2001, kemur fram það álit að nú gildandi ákvæði 1. mgr. 6. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, um tvöfalt samþykki sveitarstjórna og jarðanefnda, brjóti gegn 40. gr. EES-samningsins. Einnig er fellt niður ákvæði sem nú er í 6. mgr. 6. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, um að sveitarstjórn sé heimilt að binda samþykki sitt samkvæmt ákvæðinu því skilyrði að sá sem öðlast réttindi yfir fasteign hafi í allt að tvö ár fasta búsetu á eigninni eða innan eðlilegrar fjarlægðar frá henni til að nýta hana. Þessi breyting er gerð vegna framangreindra athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA sem taldi þetta ákvæði fela í sér mismunun gagnvart aðilum búsettum í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins. Þá er ekki lengur gert ráð fyrir að afla þurfi samþykkis sveitarfélaga fyrir eigendaskiptum að eignarhlutum í félögum sem eiga jarðir eða annað land sem lög þessi taka til enda samrýmist það ekki breytingum og þróun sem orðið hefur á hlutabréfamarkaði hér á landi og viðskiptum með eignarhluti í félögum og fyrirtækjum.

Í sjöunda lagi: Samkvæmt frumvarpinu er óheimilt að stofna ný ættaróðul eftir gildistöku laganna. Í ákvæði til bráðabirgða kemur hins vegar fram að ákvæði VII. kafla núgildandi jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum, um ættaróðul, skuli þó halda gildi eftir því sem við getur átt fram að andláti óðalseiganda. Ættaróðalið skal þá falla úr óðalsböndum og jörðin erfast í samræmi við ákvæði erfðalaga, nr. 8/1962, með síðari breytingum. Þá kemur þar fram að ef óðalseigandi deyr tekur maki hans við réttindum og skyldum hans sem óðalseigandi ef hann óskar þess en eftir andlát makans erfist ættaróðalið samkvæmt ákvæðum erfðalaga, nr. 8/1962.

Í áttunda lagi: Nýmæli er almennt ákvæði um að óheimilt sé að skilja hlunnindi frá jörðum nema sérstakar undantekningar séu gerðar frá þeirri reglu í lögum. Þetta er meginregla sem hefur verið talin gilda í framkvæmd og kemur fram í sérlögum um einstakar tegundir hlunninda, samanber t.d. í lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, og fleiri lögum.

Í níunda lagi: Ef fleiri eigendur eru að jörðum eða jarðarhlutum er þeim skylt að hafa með sér félag um eignarhald og rekstur jarðarinnar eða jarðarhlutans. Jafnframt er þeim skylt að tilnefna sérstakan fyrirsvarsmann félagsins sem kemur fram fyrir hönd þess gagnvart sveitarstjórn og öðrum aðilum við úrlausn mála er lúta að réttindum og skyldum jarðeigenda. Félagið og fyrirsvarsmann þess skal skrá í fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands og er slík skráning skilyrði fyrir þinglýsingu eignarheimildar að jörð eða öðru landi. Ákvæðið gildir þó ekki ef eigendur félags eru einungis hjón eða foreldrar og ófjárráða börn þeirra. Þá gilda ákvæði greinarinnar um hjón einnig um sambúðarfólk með ákveðnum skilyrðum, sbr. 13. gr. frumvarpsins.

Í tíunda lagi: Breytt er ákvæði 11. gr. gildandi laga á þann veg að ef aðilar sem óska eftir samþykki til að kaupa fasteign hér á landi og nýta hana til landbúnaðar njóta réttar samkvæmt ákvæðum EES-samningsins eða samsvarandi ákvæða í stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu teljast þeir uppfylla skilyrði ákvæðisins ef þeir hafa starfað við landbúnað í tvö ár í aðildarríkjum þess samnings sem þeir byggja rétt sinn á.

Í ellefta lagi: Nýmæli er í 18. gr. en þar er sú skylda lögð á landbúnaðarráðuneytið að gefa út 31. desember ár hvert skrá á grundvelli upplýsinga úr jarðarhluta Landskrár fasteigna yfir allar jarðir, jarðarhluta, landspildur, lóðir og annað land en ráðuneytinu er þó heimilt að fela öðrum aðilum að annast gerð slíkrar jarðaskrár í umboði ráðuneytisins. Er við það miðað að skráin verði hluti af Landskrá fasteigna sem Fasteignamat ríkisins heldur samkvæmt lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, en landbúnaðarráðherra hefur þó ákveðnar heimildir varðandi gerð hennar og notkun. Gert er ráð fyrir að þessi skrá verði eins konar ný jarðabók fyrir Ísland. Enn fremur er annars staðar í frumvarpinu gert ráð fyrir að landbúnaðarráðuneytinu sé skylt að gefa út 31. desember ár hvert sams konar skrá yfir lögbýli í landinu, m.a. með upplýsingum um félagsbú á grundvelli sömu upplýsinga úr jarðarhluta Landskrár fasteigna. Sömu reglur gilda um heimild landbúnaðarráðuneytisins til að fela öðrum aðilum að annast gerð lögbýlaskrár.

Í tólfta lagi: Breytt er ákvæði um forkaupsrétt ábúanda og hann miðaður við sjö ára ábúðartíma. Samkvæmt gildandi lögum er miðað við tíu ára ábúðartíma. Sérstakt ákvæði er um að ef ábúandi fellur frá haldi maki hans forkaupsrétti en það er í samræmi við gildandi framkvæmd. Einnig er sérstakt ákvæði um að forkaupsréttur ábúanda falli niður ef hann hefur sagt upp samningi sínum um ábúð eða ef honum hefur verið sagt löglega upp ábúðarsamningi vegna vanefnda. Sömu skilyrði eru í frumvarpinu og í núgildandi lögum um að ábúandi sem neytir forkaupsréttar verði að taka jörðina til ábúðar og landbúnaðarstarfsemi.

Í þrettánda lagi: Breytt er ákvæði núgildandi 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, um kauprétt ábúenda á ríkisjörðum. Samkvæmt gildandi lögum eiga ábúendur ríkisjarða rétt á að kaupa ábúðarjarðir ef þeir hafa búið á þeim í tíu ár eða lengur og leggja fram yfirlýsingu sveitarstjórnar um að ábúandi hafi setið jörðina vel og að sveitarstjórn mæli með því að hann fái hana keypta, svo og meðmæli jarðanefndar viðkomandi sýslu með kaupunum. Í frumvarpinu er ákvæðinu breytt á þann veg að í stað kaupréttar ábúenda kemur að heimilt verður að selja ábúendum ríkisjarða ábúðarjarðir sínar ef þeir hafa búið í sjö ár eða lengur en sá tími kemur í stað tíu ára í gildandi lögum. Ábúendur þurfa eingöngu að leggja fram meðmæli sveitarstjórnar þar sem í frumvarpinu er lagt til að jarðanefndir verði aflagðar en að sérstakar landbúnaðarnefndir sveitarfélaga fjalli um slíkar umsóknir. Nokkrar undantekningar eru frá núgildandi kauprétti ábúandans sem eru tilgreindar í 2. mgr. 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976. Í frumvarpinu eru svipaðar reglur en ekki alveg sama efnis en gert er ráð fyrir að ákvæðið gildi ekki um jarðir sem ekki eru nýttar til landbúnaðarstarfsemi og heldur ekki um jarðir sem þörf er á til opinberra nota eða ef almannahagsmunir standa gegn því að jörð verði seld.

Í fjórtánda lagi: Sérstakt ákvæði er um mat á söluverði ríkisjarða sem seldar eru ábúendum og sveitarfélögum. Kaupandi getur einnig óskað eftir að kaupverðið verði metið af dómkvöddum matsmönnum. Lögfest er þar að söluverðið skuli ákvarðað af aðilum utan ráðuneytisins og einnig hvaða matshlutar skuli metnir. Hér er gert ráð fyrir að meta skuli jörðina sjálfa, mannvirki, ræktun og hlunnindi, t.d. veiði, æðarvarp og önnur hlunnindi sem ekki eru undanskilin, svo og greiðslumark jarðarinnar. Þó er gert ráð fyrir að greiðslumark mjólkur og sauðfjár sem áunnið er á jörðina og fylgir lögbýli samkvæmt ákvæðum laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, og eldri lögum um sama efni fylgi með við sölu á ríkisjörðum sem seldar eru ábúendum en að það verði ekki verðlagt sérstaklega. Ef jörðinni verður hins vegar ráðstafað til annarrar starfsemi en landbúnaðar eða ef kaupandi selur greiðslumarkið frá henni innan tíu ára frá sölu ber honum að endurgreiða ríkissjóði andvirði greiðslumarksins á verði sem miða skal við markaðsverð á þeim tíma sem jörð er ráðstafað til annarrar starfsemi en landbúnaðar eða greiðslumark er selt frá jörð en að frádregnum jöfnum, árlegum 10% fyrningum. Þessari kvöð skal þinglýst á jörðina.

Í fimmtánda lagi: Nýmæli er að við sölu ríkisjarða verður alltaf skylt að undanskilja jarðefni og rétt til efnistöku, og einnig vatns- og jarðhitaréttindi umfram heimilisþarfir ásamt nauðsynlegri aðstöðu til að hagnýta þau réttindi. Samkvæmt núgildandi jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, gildir þetta eingöngu þegar ríkisjarðir eru seldar ábúendum en að öðrum kosti þarf samkvæmt núgildandi lögum leyfi iðnaðarráðherra til að skilja slík réttindi frá jörð.

Í sextánda lagi: Nýmæli er að ríkisjarðir sem fyrirhugað er að selja, aðrar en þær sem seldar eru sveitarstjórnum og ábúendum, skal auglýsa til sölu með opinberri auglýsingu og leita eftir kauptilboðum í þær í samræmi við gildandi löggjöf og stjórnvaldsreglur um sölu á eignum ríkisins á hverjum tíma. Undantekningar eru þó gerðar samkvæmt þessu ákvæði um einstakar jarðir ef þar er starfrækt atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar eða önnur starfsemi og hagsmunir sveitarfélags krefjast þess. Alltaf verður heimilt að hafna öllum innsendum tilboðum.

Í sautjánda lagi: Í 43. gr. frumvarpsins er sérstakt ákvæði um ríkisjarðir sem er óheimilt að selja en það eru jarðir sem þörf er á að ráðstafa til opinberra nota eða nauðsynlegt þykir með tilliti til almannahagsmuna að séu eign íslenska ríkisins. Jafnframt er gert ráð fyrir að leita skuli umsagnar viðkomandi fagstofnana ríkisins eftir því sem við á þegar reynir á ákvæðið.

Í átjánda lagi er það nýmæli í frumvarpinu að landbúnaðarráðherra eigi alltaf forkaupsrétt að jörðum, jarðarhlutum eða landi sem ríkið hefur selt ábúendum eða sveitarfélögum og að forkaupsrétturinn haldist í tíu ár frá sölu. Þá er þar sérstakt ákvæði um hvernig beri að meta eignir sem ábúandi átti við kaup á jörðinni þegar ríkið neytir aftur forkaupsréttar að henni.

Fleiri dæmi um breytingar mætti nefna en ég læt þetta nægja í bili og vek athygli á að í greinargerð með frv. er gerð ítarleg grein fyrir þeim breytingum sem frv. hefur í för með sér miðað við núgildandi jarðalög, nr. 65/1976. Á fskj. með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa í hana. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar sem fylgir frv. og athugasemda með því.

Hæstv. forseti. Nú er liðinn rúmlega aldarfjórðungur síðan núgildandi jarðalög, nr. 65/1976, voru samþykkt. Ljóst er að miklar breytingar hafa orðið á þeim tíma sem beinlínis kalla á að breytingar verði gerðar á núgildandi löggjöf um þetta efni. Í frv. því sem hér liggur fyrir hefur verið reynt að svara því kalli og koma til móts við þær þarfir sem hafa skapast í íslenskum landbúnaði og annarri landnýtingu, meðferð og umsýslu jarða hér á landi. Ég tel því að hér sé um að ræða nauðsynlega tímamótalöggjöf sem mikilvægt er að þingið taki til alvarlegrar skoðunar miðað við núgildandi aðstæður í íslenskum landbúnaði og hvernig landnýtingu er að öðru leyti háttað, svo og annarri meðferð og umsýslu jarða hér á landi. Það er von mín að þetta frv. og þau ákvæði sem það hefur að geyma sé svar við kröfum tímans um sanngjarna löggjöf um eignarhald, meðferð og nýtingu lands hér á Íslandi í dag.

Hæstv. forseti. Ég legg svo til að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.

Ég gat þess að hæstv. forseti gaf mér leyfi til að mæla fyrir báðum þessum málum í sömu ræðu, þ.e. einnig frv. um ábúðarlög sem er líka langur lagabálkur. Í því eru margvíslegar breytingar sem þykja nauðsynlegar. Það má segja um það mál, herra forseti, að nú er liðinn rúmlega aldarfjórðungur síðan núgildandi ábúðarlög, nr. 64/1976, voru samþykkt. Ljóst er að miklar breytingar hafa orðið hér á landi á þeim langa tíma, sem beinlínis kalla á að breytingar verði gerðar á núgildandi löggjöf um þetta efni.

[23:30]

Í frv. því sem hér liggur fyrir er reynt að svara þessu kalli og koma til móts við þær þarfir sem hafa skapast í íslenskum landbúnaði og annarri landnýtingu um meðferð og umsýslu jarða. Við samningu frv. hefur eins og kostur er verið reynt að hafa jafnt að leiðarljósi sjónarmið ábúenda og jarðeigenda. Ég tel því að hér sé um að ræða nauðsynlega tímamótalöggjöf sem þingið þarf að taka til alvarlegrar skoðunar miðað við núgildandi aðstæður í íslenskum landbúnaði og hvernig landnýtingu er að öðru leyti háttað hér á landi. Það er von mín að þetta frv. og þau ákvæði sem það hefur að geyma sé svar við kröfum nútímans um sanngjarna löggjöf um ábúð og eignarhald jarða við þær aðstæður og þá framkvæmd sem er ríkjandi á Íslandi í dag.

Ég vísa svo, hæstv. forseti, til frv. um ábúðarlög sem liggur hér frammi á borðum þingmanna. Það er mjög ítarlegt og greinargott eins og frv. um jarðalögin þannig að ég læt þessa ræðu nægja, hæstv. forseti. Að lokinni umræðu um bæði þessi mál legg ég til að þeim verði vísað til landbn. Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, get ég ekki ætlast til þess, þar sem málið er seint fram komið, að þingið afgreiði málið. En það er komið til þingsins eins og ég hafði heitið þingmönnum, að vísu of seint að mínu mati. En það tók langan tíma. Málið er flókið og í það fór mikil vinna. Ég tel að þetta verði eitt af hinum stóru málum sem næsta löggjafarþing mun afgreiða. Þá læt ég máli mínu lokið, hæstv. forseti.