Samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:16:23 (4838)

2003-03-12 11:16:23# 128. lþ. 97.3 fundur 686. mál: #A samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:16]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. 11. september árið 2001 var örlagaríkur dagur fyrir margra hluta sakir en þann dag voru hryðjuverkaárásirnar gerðar á New York og Washington í Bandaríkjunum. Ekki ætla ég að gera lítið úr viðleitni manna til að koma í veg fyrir hryðjuverk í framtíðinni en sú hætta er fyrir hendi að tilraunir til þess að kveða niður hryðjuverk geti orðið til þess, ef við ekki höfum allan vara á, að mannréttindi verði fótum troðin, að svo hart verði fram gengið í aðhaldi og eftirliti að réttur einstaklinga og þjóðfélagshópa verði fyrir borð borinn.

Fyrir fáeinum dögum bar ég það erindi hingað inn í þingsal að eftirlit með Íslendingum sem vinna hjá bandaríska hernum á Keflavíkurflugvelli hafi verið stórhert, þeir hafi fundið fyrir allt annarri framkomu í sinn garð en fyrr á tíð. Svo mun hafa háttað að í hliðunum, svo áþreifanlegt dæmi sé tekið, voru bæði íslenskur lögreglumaður og bandarískur hermaður og annaðist sá íslenski yfirleitt eftirlitið. Þetta mun hafa verið hin almenna regla og fór ekki mikið fyrir vopnaburði.

Nú er þetta allt breytt. Íslenski lögreglumaðurinn er horfinn í skuggann en fram kemur hermaður og er enginn látinn velkjast í vafa um að hann hefur vopn undir höndum. Allir eru nú krafðir skilríkja, og er enginn að amast við því í sjálfu sér, en að vera krafinn um skilríki undir byssukjafti er önnur saga. Nú eru þetta íslenskir ríkisborgarar og það kemur íslenskum stjórnvöldum við hvernig komið er fram við fólk hér á landi jafnvel þótt það sé í hliðinu á bandarískri herstöð. Hún er hér á landi og hér á landi heitir utanrrh. Halldór Ásgrímsson. Honum er falið það hlutverk að gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara.

Þær spurningar sem ég beini til hæstv. utanrrh. eru þessar:

1. Hvaða reglur gilda um samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna á Keflavíkurflugvelli varðandi eftirlit?

2. Á hvern hátt hafa íslensk stjórnvöld eftirlit með því að samskiptareglum sé framfylgt?