Samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:23:28 (4840)

2003-03-12 11:23:28# 128. lþ. 97.3 fundur 686. mál: #A samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:23]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Hann hefur gert grein fyrir því hvernig löggæslueftirliti er skipt milli íslenskra og bandarískra aðila. Hann vísaði í samning frá árinu 1988 um þetta efni, um framkvæmdina á þessu eftirliti, og segir að þar komi fram að bandarísk og íslensk lögregluyfirvöld skuli leitast við að styðja hvort annað á svæðinu og stuðla að vinsamlegum samskiptum. Það sem ég er að vísa í eru samskiptin við íslenska ríkisborgara sem greinilega eru ekki sem skyldi. Ég geri mér grein fyrir því að í bandarískum herstöðvum eru ýmsar varúðarráðstafanir nú um stundir en eitt er að leita eftir skilríkjum við fólk og annað er að það sé gert undir byssukjafti.

Hæstv. utanrrh. segir að til sé vettvangur þar sem fyrir séu teknar kvartanir frá Íslendingum varðandi samskiptin og ég vil vinsamlegast beina því til hæstv. utanrrh. að koma því á framfæri að hér á Alþingi hafi verið sett fram slík kvörtun og óska ég eftir því að henni verði fylgt eftir til að stuðla að því að mannréttindi séu virt og að fólk sé þá krafið þeirra skilríkja sem þörf er á að það leggi fram án þess að sveiflað sé framan í það byssukjöftum.