Samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:25:16 (4841)

2003-03-12 11:25:16# 128. lþ. 97.3 fundur 686. mál: #A samskipti Íslendinga og bandarískra hermanna# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:25]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vona að það sé heldur sterkt til orða tekið hjá hv. þm. að menn séu beðnir um skilríki undir byssukjafti. Það hygg ég að geti vart verið og ef það gerist er það mál sem er sjálfsagt að ræða.

Hins vegar er það svo eins og hv. þm. tók fram að það gilda mismunandi reglur á ákveðnum tímum um vopnabúnað hermannanna og fer þá eftir hættumati í herstöðvum Bandaríkjahers um allan heim. Þetta hættumat var t.d. aukið mjög mikið eftir atburðina 11. september og ég varð persónulega var við það vegna þess að ég fór í heimsókn á Keflavíkurflugvöll einmitt á þeim tíma þannig að mér er kunnugt um það. En það er sjálfsagt að koma því á framfæri sem hv. þm. sagði og það er líka velkomið að hann kynni sér þessi mál betur með því að heimsækja sýslumannsembættið. Hér er engu að leyna. Auðvitað getur eitthvað komið upp sem betur má fara en ég fullyrði að þessi samskipti eru mjög góð og yfirmaður Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli leggur sig mjög fram um að hafa þessi samskipti í góðu lagi. Það er því ástæða til að taka það fram að þau hafa sjaldan verið betri en um þessar mundir, a.m.k. þann tíma sem ég þekki til mála.