2003-03-14 01:19:55# 128. lþ. 100.40 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, Frsm. ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[25:19]

Frsm. sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. hv. sjútvn. á þskj. 1255 um frv. um stjórn fiskveiða sem er 602. mál þingsins.

Í þingskjalinu kemur fram að nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund þá sem þar eru tilgreindir vegna umsagna um það.

Í frumvarpinu er lagt til að núgildandi heimild skipstjóra fiskiskips til að undanskilja allt að 5% af heildarafla í botnfiski sem reiknast ekki til aflamarks skipsins verði framlengd um tvö fiskveiðiár. Tilgangur ákvæðisins var að koma í veg fyrir brottkast og hefur reynslan af því verið góð.

Í umfjöllun nefndarinnar kom fram tillaga um breytingu þannig að heimildin gilti um allar tegundir, þ.e. ekki einungis botnfisksafla heldur einnig uppsjávarafla, enda slæðast aðrar tegundir með þar eins og í botnfiskveiðum. Lagt er til að heimilt verði að undanskilja allt að 0,5% af uppsjávarafla fiskiskips.

Einnig var á það bent að stofnanir og sjálfstætt starfandi vísindamenn gætu sótt um styrki í þann sjóð er fæst fyrir umframaflann og rennur til Hafrannsóknastofnunarinnar og er það skilningur nefndarinnar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri breytingu sem fram kemur á þingskjalinu:

,,Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Í stað 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XXIX í lögunum, sbr. b-lið 7. gr. laga nr. 129 20. desember 2001, um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, kemur: Á fiskveiðiárunum 2002/2003, 2003/2004 og 2004/2005 er skipstjóra fiskiskips heimilt að ákveða að hluti af afla skipsins reiknist ekki til aflamarks þess. Sá hluti sem þannig reiknast ekki til aflamarks skipsins skal þó aldrei nema meiru en sem nemur 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum sjávarafla sem hlutaðeigandi skip veiðir á hverju fiskveiðiári. Heimild þessi er háð því að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt.``

Á þingskjalinu kemur einnig fram að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara. Enn fremur að hv. þm. Jóhann Ársælsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir álitið rita auk mín nefndarmennirnir og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Einar K. Guðfinnsson, Svanfríður Jónasdóttir, Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón A. Kristjánsson, Adolf H. Berndsen og Hjálmar Árnason.