2003-03-14 01:45:15# 128. lþ. 100.40 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[25:45]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá frsm. nál. skrifa ég upp á það en mér finnst ástæða til þess að fjalla um tiltekið atriði í nál. vegna forsögu málsins. Áður en ég kem að því vildi ég gjarnan smeygja mér inn í þá skemmtilegu umræðu sem hér hefur farið fram um tilurð auðlindanefndar, loforð forsrh. um stjórnarskrárákvæði, vatnsréttindi á Þjórsársvæðinu og almennt um meðferð auðlinda.

Ég er sammála hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur um að fyrst lögin um stjórn fiskveiða eru á dagskrá sé upplagt að víkja að ýmsu sem þingmenn hafa áhuga á að ræða um stjórn fiskveiða. Það er löng hefð fyrir því á Alþingi að menn nýti tilefni sem þetta til þess að fara nokkuð vítt yfir sviðið og er ástæðulaust að hafa það öðruvísi nú en jafnan áður. Og þó að ég viti að sá hv. þm. sem nú er formaður sjútvn. sé með málefnalegri þingmönnum hér veit ég að hann getur þolað það svona einu sinni að við tökum þetta ögn breiðar en nál. gefur endilega tilefni til. Hann vék áðan að skipun auðlindanefndar og rifjaði upp það sem kom fram í umræðunni í gærkvöldi þar sem helst var á hv. þm. Kristjáni Pálssyni að skilja að hann hefði átt upphaf að skipan nefndarinnar. Það getur vel verið. Ég þekki ekki hvernig upphafið var en vegna þess að hv. þm. talaði um að það hefði verið sátt um skipanina verð ég að leiðrétta það einu sinni enn. Það var engin sátt um þessa skipan. Ég studdi hana t.d. ekki og svo var um okkur þingmenn úr þingflokki jafnaðarmanna að við studdum ekki skipan þessarar nefndar. Við studdum ekki þáltill. Það var ekki einu sinni ljóst allan tímann að við mundum skipa fulltrúa í þessa nefnd, einfaldlega vegna þess að þarna var á ferðinni ómerkilegt kosningabragð eins og nú hefur komið á daginn. Ómerkilegt kosningabragð.

Það er nefnilega alveg laukrétt (Gripið fram í.) sem hæstv. forsrh. sagði í svari við fyrirspurn okkar hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur fyrir tæpu ári að stjórnarskrárákvæðið var ákveðin forsenda annars sem samþykkt var í nefndinni. Og nú þegar það hefur verið svikið, herra forseti, stendur lítið eftir, búið mál, allt í plati. Þetta var reyndar, herra forseti, það sem okkur grunaði allan tímann og þess vegna var ákveðin tregða, við studdum ekki þáltill. og veltum lengi fyrir okkur hvort við mundum taka þátt í störfum nefndarinnar. Það varð þó niðurstaðan vegna þess að það þótti þó rétt fyrst efna átti til nefndarstarfsins að menn hefðu þá fingurinn á því sem þar mundi gerast. En ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst hvorki að þessum tíma né peningum hafi verið vel varið fyrst niðurstaðan á að vera þessi.

Fyrir skömmu síðan kom hæstv. forsrh. fram með aðra sambærilega tillögu þegar allt í einu átti að fara að skipa nefnd um Evrópumálin. Það, herra forseti, verður auðvitað líka bara svona eitthvað allt í plati. Það er ekki búið að skipa þá nefnd enn þá og veit svo sem enginn um hvað hún á að fjalla. Ef ég hef skilið málið rétt af blaðafregnum var hæstv. forsrh. svo sem ekkert viss um það heldur. Hann ætlaði að leita eftir hugmyndum um hvað nefndin gæti talað. Hún átti ekki að móta neina stefnu. Það var svo sem reiknað með því að flokkarnir héldu áfram að fjalla um Evrópumálin hver á sínum vettvangi. Þetta var fullkomlega óskiljanlegt, herra forseti, en greinilega eitthvað sem átti að drepa málum á dreif svona rétt fyrir kosningar, rétt eins og auðlindanefndin á sínum tíma. En það verður að segjast eins og er að sporin hræða. Nú liggur þetta fyrir. Það stóð aldrei til að gera neitt með niðurstöðu nefndarinnar, enda hefur það ekki verið gert. Hér hafa verið afgreidd ýmis mál varðandi auðlindanýtingu. Ég man ekki eftir einu einasta þar sem farið hefur verið eftir tillögum nefndarinnar. Þær hafa fullkomlega verið hunsaðar í öllum tilfellum. Meira að segja þetta veiðigjald sem ríkisstjórnin skellti á fyrir ári síðan, þar var ekki einu sinni farið eftir hugmyndum nefndarinnar. Þá voru hugmyndir gripnar úr lausu lofti eða öllu heldur út úr endurskoðunarnefndinni, hugmyndir þriggja aðila í endurskoðunarnefndinni, einkum þó hugmyndir tveggja sem þar náðu fram, og settar inn í löggjöfina. Hvorugur hafði reyndar verið í auðlindanefnd og hvorugur svo sem handgenginn þeim hugmyndum út af fyrir sig að menn greiddu fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum.

Nei, herra forseti. Þetta mál er allt með ólíkindum og því miður liggur niðurstaðan fyrir. Við erum hér á næstsíðasta degi þingsins ef að líkum lætur. Og þó að okkur í Samfylkingunni sé svo sem ekkert að vanbúnaði að halda áfram fram í næstu viku til þess að ljúka þeim málum sem fyrir liggja hefur mér skilist að forsn. legði áherslu á það að verkum lyki á morgun og ekkert hefur enn komið fram um það að hæstv. forsrh. hyggist standa við orð sín.

Vegna þess sem ég sagði áðan, að það hefði ekkert verið gert með niðurstöðu nefndarinnar, langar mig til dæmis að nefna frv. forsrh. um meðferð vatnsréttinda á Þjórsársvæðinu. Það var líka nefnt áðan hvað kom í ljós með úrskurði óbyggðanefndar, að það land sem Gnúpverjar höfðu á sínum tíma selt Einari Benediktssyni og Einar Benediktsson selt Titan og Titan selt íslenska ríkinu og íslenska ríkið lagt inn í Landsvirkjun hafði aldrei verið eign þeirra Gnúpverja, heldur þjóðareign og allur gjörningurinn því ómark. Þegar farið var að skoða málið kom í ljós að vatnsréttindin á Þjórsársvæðinu voru metin á 550 millj. í bókum Landsvirkjunar. Við getum velt því fyrir okkur hér hvort okkur finnist að vatnsréttindin á Þjórsársvæðinu séu 550 millj. virði eða hvort þau eru kannski meira virði. En það varð þá niðurstaða hæstv. forsrh. að gefa Landsvirkjun réttindin. Fyrst það hafði ekki tekist í fyrstu atrennu skyldi það gert nú. Það var ekki nóg að afhenda Landsvirkjun nýtingarréttinn. Nei, gjöf skyldi það vera á réttindunum. Herra forseti. Það var eiginlega ekki hægt að fara lengra frá niðurstöðu auðlindanefndar heldur en nákvæmlega þetta. Lengra varð ekki komist. Þetta liggur sem sagt fyrir í þingskjali sem greinilega verður ekki afgreitt heldur, þessi vilji hæstv. forsrh. til þess að gefa Landsvirkjun vatnsréttindin á Þjórsársvæðinu.

Menn hafa sagt: Það þurfti að gera Landsvirkjun til góða með sama hætti og ætlunin var í upphafi, þ.e. að réttindin væru ekki af henni tekin. Það hefði samt verið hægt, herra forseti, með því að afhenda Landsvirkjun nýtingarréttinn um einhvern tiltekinn tíma, afmarkaðan tíma. Gjöf er óþarfi. Og nú bind ég vonir við það að næsta ríkisstjórn muni taka þetta mál upp og breyta því þannig að þjóðinni verði sýnd aðeins meiri virðing þegar kemur að eignum hennar.

Síðan ætla ég, herra forseti, að víkja að efni nál. Eins og fram kom hjá frsm. er hér um að ræða það sem hann kallaði Hafró-afla, minnir mig, þ.e. um það er að ræða að heimila fiskiskipi að koma með að landi allt að 5% af heildarafla botnfisks sem ekki reiknast til aflamarks skipsins. Um gæti verið að ræða fisk sem væri verðlítill eða utan aflaheimilda útgerðarinnar. Hugsun okkar með þessu ákvæði hefur allan tímann verið að koma í veg fyrir brottkast. Hugmyndir í þessa veru hafa lengi verið ræddar hér á Alþingi.

Mér finnst ástæða til að rifja það upp, herra forseti, svona rétt eina ferðina að á 113. þingi, minnir mig að það hafi verið frekar en 112. þingi, flutti ég tillögu þess efnis að sjómönnum yrði gert kleift að koma með allan afla að landi. Það var þá þegar ljóst að kvótakerfið gat haft þá hættu í för með sér að menn hentu afla sem ekki væri í aflamarki eða væri verðlítill og því varð sú tillaga mín til að mönnum yrði gert kleift að koma með allan afla að landi. Á þeim tíma fannst mér eðlilegt að sjómennirnir fengju að eiga þennan afla en ekki útgerðin. Ég gekk meira að segja svo langt að ég vildi láta ganga fram hjá skipstjóranum ef ég man rétt. Þetta átti að verða til þess að sjómennirnir yrðu tilbúnir til að ganga frá þessum afla, hann yrði síðan seldur á markaði, en það átti að halda skipstjóra og útgerð fyrir utan til þess að menn færu ekki að gera út á utankvótaaflann eða aukfiskinn, meðaflann. Síðan hafa þessar hugmyndir þróast nokkuð. Við erum nokkur sem höfum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar flutt þessar tillögur og við hv. þm. Jóhann Ársælsson gjarnan verið í þeim hópi, ýmist sundur eða saman. Það var okkur þess vegna sérstök ánægja að fá að taka þátt í því að afgreiða lög frá Alþingi á sínum tíma þar sem þetta ákvæði var tekið upp í lögin um stjórn fiskveiða þó að um bráðabirgðaákvæði væri að ræða. Við biðum satt að segja spennt eftir því að fá að vita hver niðurstaðan yrði. Það hefur komið fram að menn eru nokkuð sáttir við þá reynslu sem fengist hefur af þessu ákvæði, það sáttir að það hefur verið ákveðið að framlengja þetta ákvæði um tvö ár.

Það varð niðurstaðan þegar þetta var afgreitt sem bráðabirgðaákvæði við lögin fyrir um það bil ári síðan að þessum afla yrði haldið sérgreindum, hann yrði síðan seldur á markaði og andvirðið látið renna til Hafrannsóknastofnunar. Á þeim tíma var mikið um það rætt hvort það væri eðlilegt að allt andvirðið rynni til Hafrannsóknastofnunar eða hvort ekki væri rétt að menn nýttu þetta tækifæri og byggju til sjóð sem sjálfstæðir vísindamenn gætu sótt í til hafrannsókna. Það er alveg ljóst að það hefur verið nokkur gagnrýni á það að Hafrannsóknastofnun ber höfuð og herðar yfir alla aðra sem hafa reynt að stunda hafrannsóknir og fjármunir verið af skornum skammti til annarra. Jafnframt hafa menn verið sammála um að það væri mikilvægt fyrir stofnunina að hafa það aðhald sem gæti falist í því að hægt væri að leita annars álits. Þess vegna voru býsna margir áhugasamir um að það yrði til sjálfstæður vísindasjóður sem menn gætu sótt í, hvort sem það væru þá vísindamenn starfandi á Hafrannsóknastofnun eða aðrir vísindamenn, til tiltekinna verkefna sem tengdust hafrannsóknum.

Þetta mál var rætt nokkuð þegar ákvæðið var fyrst formað. Það kemur fram í minnihlutaáliti okkar hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að við töldum að það væri eðlilegra að um væri að ræða sjálfstæðan rannsóknasjóð sem bæði Hafrannsóknastofnun og aðrir vísindamenn gætu sótt í til sérstakra verkefna á sviði hafrannsókna. Það varð hins vegar ekki, heldur rann allt féð til Hafrannsóknastofnunar. Gert er ráð fyrir að þessar sértekjur, eins og það er kallað núna, verði um 100 millj. kr. árlega en hlutur útgerðar og áhafnar verði um 25 millj. Það er sem sagt verið að tala um afla að andvirði u.þ.b. 125 millj. kr. á ári. Það varð ekki samkomulag um það í nefndinni núna heldur að fara í það að búa til þennan sjóð. Hins vegar er á það bent, eins og hér kemur fram í nál., að stofnanir og sjálfstætt starfandi vísindamenn gætu sótt um styrki í þann sjóð sem fæst fyrir umframaflann og rennur til Hafrannsóknastofnunar. Mér er ekki alveg ljóst, herra forseti, hvernig á að fylgja þessu eftir en það varð niðurstaða okkar að við mundum láta á þetta reyna, a.m.k. fyrst um sinn, reyna að koma þeim skilaboðum þá á framfæri til annarra að þarna væru peningar sem hægt væri að sækja um til rannsókna, láta á það reyna, herra forseti, hvort aðrar stofnanir eða sjálfstætt starfandi vísindamenn gætu eftir þessum leiðum fengið peninga til rannsókna sinna. Á það verður að láta reyna á næstu missirum og ef það gengur ekki verður að sjálfsögðu við því brugðist, a.m.k. skildi ég félaga mína í sjútvn. þannig að þá yrði að breyta þessu fyrirkomulagi.

Ég hef reyndar ákveðnar áhyggjur af fyrirkomulaginu vegna þess að ég er ekkert viss um að sjálfstætt starfandi vísindamenn eða aðrar rannsóknastofnanir vilji endilega láta Hafrannsóknastofnun fjalla um sig sérstaklega og meta hvað þeir eru að fara að gera og hvort það er þá styrkhæft. Ég held að þetta sé meingallað fyrirkomulag en til bráðabirgða, herra forseti, getur það gengið, rétt eins og hitt gat gengið. Aðalatriði málsins er auðvitað að það kemur meiri afli að landi sem styrkir fiskvinnsluna, eykur útflutninginn og gerir gott fyrir þjóðarbúið. Þegar á allt er litið er það jú það sem skiptir mestu máli.

Herra forseti. Þetta var erindi mitt í ræðustól. Það var að gera grein fyrir þessu með þennan sjóð og hvernig við hugsum þetta fyrirkomulag núna. Gjarnan hefði ég viljað ræða þetta mál í dagsbirtu vegna þess að ég hef á tilfinningunni að það hefði verið auðveldara að auglýsa sjóðinn eða þessa peninga sem sjálfstætt starfandi vísindamenn og aðrar stofnanir gætu sótt í ef um væri að ræða fund sem væri haldinn á venjulegum dagvinnutíma þegar fjölmiðlar, sem eru gluggi okkar til almennings í landinu, væru að fylgjast með. Það er bagalegt, herra forseti, að við skulum vera að ræða hér mál sem sannarlega þyrfti að koma á framfæri á þeim tíma nætur þegar fólk er flest, utan vaktavinnufólk, farið að sofa, enda klukkan að ganga þrjú að nóttu. Það er satt að segja alveg furðulegt að í þessari stofnun, Alþingi Íslendinga, skuli menn sýna fólki óvirðingu sem felst í því að vera með þingfundi langt fram á nótt og fram undir morgun. Það er fullkomlega óskiljanlegt að forseti þingsins skuli taka þær ákvarðanir að haga svona málum en þetta er það fyrirkomulag sem við þurfum að búa við á meðan þeir menn ráða hér húsum sem hafa ekki meiri skilning á eðlilegu fjölskyldulífi og því hvernig venjulegt fólk vill haga lífi sínu. Það er miður, herra forseti, að við skulum þurfa að vera að ræða þetta mál og önnur mikilvæg hér um miðja nótt.