2003-03-14 02:19:59# 128. lþ. 100.40 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[26:19]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum að ræða hér frv. til laga um svokallaðan meðafla sem hefur í seinni tíð, eftir að ákveðið var að verðmæti aflans rynni að mestu til Hafrannsóknastofnunar, verið nefndur því virðulega nafni Hafró-afli. Það ákvæði var sett í lögin sem hafa gilt frá 1. febrúar árið 2002. Ákvæðið kveður á um það að 80% af verðmæti þess afla sem menn lönduðu samkvæmt því ákvæði sem við erum hér að ræða, um að skipstjórar fiskiskipa megi vera með 5% afla utan aflamarks, renni til Hafrannsóknastofnunar.

Það hefur komið í ljós sem margir reyndar þóttust vitað hafa í nokkur ár að það var full þörf á því að slíkt ákvæði væri sett inn í kvótalögin til þess að tryggja eða reyna að tryggja að sem mest af aflanum sem í veiðarfæri kæmi kæmi að landi og hjálpaði til þess að koma í veg fyrir hluta af brottkasti sem lengi voru búnar að vera sögur um að hefði viðgengist í miklum mæli í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Það gerðist, herra forseti, að mjög fljótlega fóru menn að nota sér þessa reglu og jafnvel í sumum tilvikum hafa menn algjörlega fullnýtt regluna og er þá auðvitað alls ekki hægt að færa sönnur á það hvort þeir hefðu líka fullnýtt hana þótt hún hefði verið 7% eða 10%, og alveg eins líklegt að þeir sem ekki hafa fullnýtt regluna hefðu samt farið yfir 5% eða 7% ef reglan hefði verið rýmri. Þess vegna, herra forseti, minntist ég á það við 1. umr. málsins hvort ekki væri eðlilegt að hafa regluna rýmri og menn sæju þá hreinlega hver þörfin væri. Ef ekki væri þörf fyrir slíka reglu væru menn væntanlega ekki að landa umfram 5% í svokallaðan Hafró-afla því ekki fá útgerðin og sjómennirnir það stóran hluta af þessu. Þeir fá 20%. Ég tel að það hefði verið fróðlegt að gera þá tilraun úr því að í ljós hefur komið að menn hafa nýtt sér þessa reglu í jafnmiklum mæli og verið hefur.

Það er auðvitað fróðlegt að velta þessu máli upp. Ef þessi afli gefur 100 millj. upp úr sjó á ári hygg ég, herra forseti, að það hafi kannski eitthvað dregið úr brottkastinu á seinni árum miðað við það sem kannski áður var þó að ég viti það ekki gjörla. Miðað við það sem manni berst til eyrna í viðtölum við menn augliti til auglitis eða í símtölum áætla ég að eitthvað hafi e.t.v. dregið úr brottkasti hin síðari ár. Ég get þó ekki fullyrt um það. Þetta er bara tilfinning.

En hvað um það, segjum að ef prósentan væri rýmri værum við ekki að tala um 100 millj. á ári heldur 150 millj. Það væru sem sagt einhverjir sem þyrftu á því að halda að nýta sér regluna rýmra vegna kvótastöðu sinnar eða tegundasamsetningar í aflanum því að það er auðvitað það sem við höfum verið að gera, því miður, í stjórnkerfi fiskveiða, við höfum alltaf verið að fjölga fisktegundum inn í kvótakerfið, tína inn í það ólíklegustu fisktegundir sem eiga þangað ekkert erindi stjórnunarlega séð. Frægasta afrekið í því er náttúrlega skötuselurinn núna síðast, svo meðaflategundir eins og sólkoli sem veiðist í örfáum þúsundum tonna á ári og margar fleiri tegundir mætti svo sem nefna, herra forseti. Með því að sjútvrh. hefur haft forgöngu um það að fjölga fisktegundum í kvótakerfinu hefur auðvitað orðið meiri þrýstingur á að menn ættu kvóta í öllum þeim tegundum sem e.t.v. koma í veiðarfæri. Þar af leiðandi vinnur það eiginlega gegn því sem ég var að segja áðan, að brottkastið hefði minnkað, því að það felst ekki í því þegar menn festa fleiri og fleiri tegundir í kvótakerfinu, sérstaklega þegar það eru svo tiltölulega fáir sem eiga stærstan hluta af þessum nýju tegundum. Má þá t.d. nefna keilu og löngu þar sem eitt fyrirtæki er mjög áberandi í því að eiga veiðireynsluna þar, jafnvel svo að margir aðrir í dag geta ekki útvegað sér meðafla af þessum tegundum.

Allt hnígur þetta til þess að e.t.v. sé þörf fyrir rýmri reglu en hér er lögð til. Þess vegna vakti ég athygli á þessu atriði við upphaf umræðu um þetta mál, við 1. umr. Ég vakti einnig athygli á því að í uppsjávarafla síldveiði-, kolmunna- og loðnuskipa kæmi einnig meðafli af botnfiski og það væri þá a.m.k. eðlilegt að menn skoðuðu það og viðurkenndu. Ég gekk á sjútvrh. með svör um það við 1. umr. Það hefur auðvitað verið upplýst að með uppsjávaraflanum kemur ýmislegt fleira en einmitt sú uppsjávartegund sem verið er að reyna að veiða. Þetta er auðvitað misjafnt eftir árstíma og svæðum, og dögum sjálfsagt, en staðreyndin er sú að botnfisksafli kemur með í þessar vörpur, enda væri annað einkennilegt; vörpurnar eru stórar, skipin þau kraftmestu í íslenska flotanum, með mesta spilkraftinn, og möskvinn smár. Það er því útilokað annað en að það sem inn í vörpurnar kemur stoppi þar. Engin er skiljan á þessum vörpum enda erfitt að skilja frá miðað við það þegar verið er að veiða fisk sem er tiltölulega smár. Það væri þó hægt að hugsa sér að setja skilju sem virkaði svipað og skiljan á rækjutrollunum sem skilur út fisk en hleypir því smærra í gegn. Þó er alls ekki víst að það geri sig og engin reynsla á því hvort slíkt fyrirkomulag á veiðarfærinu dygði við þessar uppsjávarveiðar og hvort það kæmi þá ekki niður á aflabrögðum við uppsjávarveiðarnar sjálfar.

Hvað um það, þessari röksemd var tekið og inn í brtt. er nú komið að það skuli vera 0,5% heimild fyrir skip sem stunda uppsjávarveiðar til að landa öðrum afla utan aflamarks. Þar er þá sjálfsagt komið til móts við það eða gerð einhver regla sem gefur heimild til þess að uppsjávarskipin megi einnig landa afla utan aflamarks. Þetta mun væntanlega þýða það í framtíðinni að gerð verði krafa um það að í ristum á dælunum á uppsjávarskipunum verði sett grind sem skilji þá burtu fisk sem er stærri en sá fiskur sem verið er að veiða, eins og kolmunni og síld, og menn komi þá með þennan afla að landi og geri úr honum verðmæti. Og það er auðvitað af hinu góða.

[26:30]

Þegar ég nefndi áðan að ekki væri ólíklegt að þessi upphæð sem við höfum verið að tala um að væri 100 millj. á ári yrði fljótlega 150 millj. á ári, þá hygg ég að það geti orðið svo og jafnvel að upphæðin tvöfaldist. Við skulum samt halda okkur við það að það séu um 150 millj. á ári sem slíkur afli mundi gefa. Ef við förum með það aftur í tímann, herra forseti, yfir þau ár sem við höfum verið með þetta kvótakerfi á stórum hluta flotans og nánast öllum hluta flotans eftir 1990, þá erum við auðvitað ekki að tala um hundruð milljóna heldur milljarða, einn, tvo eða jafnvel allt að þrjá milljarða sem hafa þá ekki komið að landi, a.m.k. ekki í því formi sem hér hefur verið útbúið í lagatexta og hefur orðið til þess að menn hafa tekið að sér að landa svokölluðum Hafró-afla þó að verðmætið renni til Hafrannsóknastofnunar.

Hvers vegna er ég að rifja þetta upp? Það er vegna þess að í fjölda ára sögðu sjómenn frá því að brottkast væri stundað við veiðar í kvótakerfinu og á það var blásið. Ráðamenn í landinu, sjávarútvegsráðherrar og aðrir, mæltu þessu kerfi sérstaklega bót og trúa á það að kvótakerfið sé slík guðsgjöf að annað eins hafi ekki verið fundið upp, enda beri að breiða þá vitneskju út um heiminn af þeim sem eru á kaupi til þess og það hefur rækilega verið gert, herra forseti.

Staðreyndin er auðvitað sú að kvótakerfinu fylgja ýmis vandamál, m.a. þessi. Það hefði kannski betur verið hlustað á það þegar menn voru að benda á það fyrir mörgum árum að leyfa yrði mönnum að tilkynna afla utan aflamarks, og sennilega hefðum við bjargað nokkur hundruð milljónum í verðmætum á þeim árum ef á það hefði verið hlustað. En menn þurftu sem sagt að fara í gegnum þessa rökræðu fram og til baka. Og þeir sem héldu því fram að e.t.v. væri þó nokkuð valið úr aflanum, sem svo er kallað, því ég hef hitt unga menn sem hafa aldrei heyrt annað en að velja bæri úr aflanum, þeir hafa aldrei tekið þátt í veiðum, herra forseti, öðruvísi en að valið væri úr aflanum eftir að kvótakerfið kom á. Og það er í raun og veru að hluta til hegðun sem fylgir, því að ofuráherslan á kvótakerfi byggir á því að veiða stærsta og dýrasta fiskinn og koma með hann að landi. Það sem ýtti sérstaklega undir þetta var þegar leigukerfið fór á fulla ferð og leiguverð á einu þorskkílói fór í þær himinhæðir sem það hefur reyndar verið í í nokkur ár, 140--160 kr. á kílóið, og þá var krafan náttúrlega orðin sú að veiða eingöngu stærsta fiskinn og veiða hann helst á þeim tíma þegar hann er fullur af hrognum, lifur og svili til þess að ná einhverjum verðmætum umfram kröfur greifanna sem leigja öðrum veiðiréttinn. Þess vegna hefur ýmislegt í framkvæmd kvótakerfisins orðið þess valdandi að menn hafa óttast að við stunduðum hér fiskveiðar sem mundu aldrei duga til þess að byggja upp þorskstofninn. Það hefur raunar orðið reyndin, a.m.k. miðað við það sem vísindamennirnir hafa verið að segja okkur á undanförnum árum að týnst hafi nokkur hundruð þúsund tonn úr þorskstofninum. Við erum enn þá með þorskstofninn í talsvert mikilli lægð, hrygningarstofninn í 300 þús. tonnum, ef ég man rétt nýjustu tölur fiskifræðinga, og nýlega lögðu fiskifræðingar alveg sérstaka áherslu á að grípa þurfi til mikillar verndar varðandi það að vernda stærsta fiskinn á hrygningartímanum.

Reyndar er það svo, herra forseti, og ég þekki þá sögu mjög vel, að fiskifræðingum var bent mjög gaumgæfilega á það fyrir nokkuð mörgum árum, sennilega að verða heill áratugur, að þorskveiðin væri einmitt að þróast í það að sóknin beindist geysilega hratt í stærsta fiskinn, nánast eingöngu, bæði með stækkun möskvans, róðrarlagi og sókn manna á þau svæði sem gefa stærsta fiskinn. Af þessu höfðu fiskimennirnir sjálfir verulegar áhyggjur. Þetta var fiskifræðingunum sagt í mörg ár. Í mörg ár var þeim sagt að menn hefðu miklar áhyggjur af því hvernig þetta væri að þróast. En það er auðvitað eins og svo oft hefur borið við að fiskimennirnir hafa þurft að segja fræðingunum í fjölda ára hvaða áhyggjur þeir hefðu og það hefur síðan tekið fræðingana nokkuð mörg ár að átta sig á því að margt af því sem sjómennirnir hafa haldið fram hefur síðan reynst vera rétt. Það hefði verið eðlilegt að taka þetta mun alvarlegar en gert var á þeim árum þegar menn byrjuðu að vara við þessu vegna þess að þá voru svörin að einn dauður fiskur væri einn dauður fiskur og að betra væri að drepa stóran fisk til þess að drepa þá færri fiska í tonnið en að drepa millifisk eða smærri fisk.

Allt er þetta á þann veg, herra forseti, að það hefur sannað sig sem gömlu mennirnir sögðu, löngu á undan minni tíð, að eðlilegast væri að fiska úr öllu safninu og fiska á öllum veiðislóðum þótt það væri svo kannski gert með ákveðinni gát. Ég hef heyrt marga reynda fiskimenn halda því fram að það væri eðlileg nýting þorskstofns að fiska úr sem flestum árgöngum. Þær eru auðvitað þekktar sögurnar um það þegar við vorum að fiska þorsk í gúanó fyrir Norðurlandi fyrir nokkuð mörgum árum. (Gripið fram í.) Ég tók reyndar aldrei þátt í þeim veiðum en gamlir togarasjómenn hafa sagt mér frá því að menn voru hreinlega að fiska í bræðslu. Það var bara svoleiðis. Það hefur því auðvitað oft verið stunduð það sem við köllum í dag rányrkja á Íslandsmiðum, enda er það svo að þorskstofninn á Íslandsmiðum hefur minnkað frá því að vera yfir 2,5 millj. tonna um 1950 niður í það að vera núna vel innan við milljón tonn, þ.e. veiðistofninn. Það er því að fjölmörgu að hyggja þegar við förum yfir þessa sögu. En ég held að við getum dregið einn lærdóm af þessu máli sem við erum að ræða núna og hann er einfaldlega sá að menn geta ekki neitað því að kvótakerfi hefur þá tilhneigingu að menn velja úr aflanum og við þurfum að vera með öðruvísi útfærðar reglur en við búum við í dag ef við ætlum að ná eðlilegri nýtingu og stjórna eðlilegum fiskveiðum á Íslandsmiðum í framtíðinni.

Ég er alveg sannfærður um það, herra forseti, að við eigum að breyta kvótakerfinu mjög verulega, og ég er líka sannfærður um það, herra forseti, að ef menn nota kvótakerfi, þá eiga menn að vera með eins fáar fisktegundir inni í kvótastýringu á almennum botnfiskveiðum og mögulegt er fyrir hverja veiðigrein. Maður gæti látið sér detta í hug að það væru svona 2--3 burðarfisktegundir sem væru þá kvótabundnar í almennum botnfiskveiðum og þær væru kannski misjafnar eftir því hvort við erum að tala um togveiðar á togurum, netaveiðar, línuveiðar eða handfæraveiðar. Ég tel að það hefði gefist okkur miklu betur, herra forseti, ef við hefðum borið gæfu til þess að vera ekki að tína hverja einustu fisktegund inn í kvótakerfið með tilheyrandi örðugleikum og brottkasti. Þess vegna hafa menn smátt og smátt orðið að viðurkenna að það yrði að setja svona meðaflareglu þannig að menn gætu tilkynnt afla utan aflamarks og komið með hann að landi. Og það er auðvitað til marks um það hversu seinþroska við erum að það skuli taka okkur 15--18 ár í kvótakerfi að koma á reglu sem sjómenn eru búnir að benda á árum og áratugum saman að þyrfti að vera inni í kvótakerfinu. Það er enginn vandi að fletta þeim textum upp ef menn draga það í efa að þær tillögur hafi komið fram fyrir meira en áratug. Ég get alveg sýnt fram á það. En svona er þetta, herra forseti, það tekur oft tíma að lagfæra hlutina, en á þeim tíma höfum við auðvitað tapað miklum verðmætum sem við ella hefðum getað borið að landi og þau aflaverðmæti, upp á 100 millj. á ári, hefðu auðvitað tvöfaldast í vinnslu í landi, en það er þumalputtaregla að almennt megi reikna með því að hægt sé að tvöfalda aflaverðmætið með vinnslu í landi.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, við umræðu þessa máls vegna þess að það er nauðsynlegt fyrir okkur að viðurkenna það að eins og kvótakerfið er útfært þá þjónar það ekki þeim markmiðum sem við vildum ná. Það hefur ekki byggt upp fiskstofnana. Við höfum engum árangri náð við að byggja upp þorskstofninn, því miður, og sitjum í raun og veru í sama farinu ef ekki verra en þegar við settum kvótakerfið á 1984. En eins og þeir sem muna kannski þá tíð þá spáðu fiskifræðingarnir því að ekki mundu veiðast nema 200 þús. tonn þó að við veiddum reyndar 283 þús. tonn á árinu 1984 eða nánast sama afla og á síðasta ári utan kvótakerfis, á árinu 1983, og síðan fór auðvitað aflinn vaxandi 1987 og 1988 þrátt fyrir að fiskifræðingar hefðu talið að botninum væri ekki náð á árinu 1984. En það reyndist samt vera svo að honum var náð og það varð uppsveifla á eftir þó að við færum kannski heldur fort í það að veiða.

Því er það, herra forseti, að ég hefði talið að það væri jafnvel eðlilegt að hækka þessi 5% þannig að menn sæju þá ef þörf væri á að nýta það. Ef ekki væri þörf fyrir að nýta sér meira en 5% færi væntanlega landaður meðafli ekkert upp fyrir 5% og þá gætu menn verið vissir um að það væri svo. Ég skil ekki, herra forseti, ég átta mig bara ekki á því hvers vegna menn vilja ekki hafa regluna þannig að hún dekki það vandamál sem við er að fást að mestu leyti. Þegar slík regla er sett á, eins og 5% reglan, þá tekur það nokkurn tíma fyrir fiskimennina og skipstjórnarmennina að fara að vinna eftir þeirri reglu og ég hygg að það hefði verið eins þótt við hefðum hækkað þessa heimild t.d. í 7%. En það hefði verið ákaflega fróðlegt að sjá það, herra forseti, hvort menn hefðu nýtt sér það að fara alla leið í 7% eða hvort menn hefðu einfaldlega stöðvast við 5%. Það hlýtur að vera tilgangur okkar með lagasetningunni hér að reyna að ná verðmætunum á land og reyna að fá raunverulega mynd af því sem við erum að fást við í fiskveiðunum.

Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti. Fyrr í kvöld fóru fram fróðlegar umræður um að það ætti að vera í stjórnarskránni að fiskstofnarnir við Ísland, auðlindin okkar í hafinu væri sameign íslensku þjóðarinnar. Það orðalag ætti að setja í stjórnarskrána. Ég hlustaði á hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur þegar hún fór með orð forsrh. um að staðið hefði til að koma með frv. um slíkt ákvæði á þessu þingi og festa það í lög. Það kom líka fram í máli manna og ég hef tekið eftir því sjálfur að Framsfl. samþykkti á landsfundi sínum að slíkt ákvæði yrði sett í stjórnarskrána og það yrði þeirra kosningamál. Þess vegna hlýtur að verða að draga þá ályktun að það sé þá Sjálfstfl. sem er andvígur því að setja slíkt ákvæði inn í stjórnarskrána, að auðlindirnar í hafinu séu sameign íslensku þjóðarinnar og að útgerðarmennirnir hafi eingöngu nýtingarrétt á þeirri sameiginlegu auðlind. En það er auðvitað það sem útgerðarmenn þurfa að hafa. Í hvers konar fiskveiðistjórnarkerfi sem unnið er þurfa menn að vita að þeir eigi aðgang að nýtingarréttinum til þess að stunda veiðar. Og það er auðvitað meginmarkmiðið þegar menn breyta fiskveiðistjórnarlögum, eins og vonandi tekst að gera eftir kosningar, að þeim sé þá breytt á þann hátt að menn séu vissir um hvaða reglur eigi að taka við því þeir sem gera út, hvort sem það eru þeir sem gera út í dag eða nýir aðilar sem vonandi komast einhvern tímann inn í þessa grein, ella ber hún feigðina í sér eins og allar lokaðar atvinnugreinar, þurfa auðvitað að vita eftir hvaða reglum þeir mega vinna.

[26:45]

Herra forseti. Ég held að þegar við förum að velta fyrir okkur stjórn fiskveiða á Íslandi til framtíðar getum við dregið þann lærdóm, m.a. af veiðum Færeyinga, að það sé stofnunum ekki svo hættulegt að veiða talsvert mikið og undir talsvert miklu veiðiálagi úr viðkomandi stofni ef notaðar eru til þess svokallaðar krókaveiðar.

Margir hafa sagt sem svo: Við getum lært af Færeyingum. Það er alveg rétt. Við getum lært af Færeyingum að þessu leyti. Við getum líka lært, herra forseti, af okkar eigin sögu í þessu efni. Hér á árum áður, á árunum frá 1930 og fram til 1960, bar bátaflotinn hér við land langmesta þorskaflann á land, og þegar menn voru að veiða við land yfir 500 þús. tonn af þorski bar bátaflotinn að stórum hluta þann afla að landi með þeim veiðarfærum sem þá voru notuð, þ.e. línu, netum og handfærum. Þessi mikli afli sem ég vitnaði til sem var rúmlega tvöfalt og komst upp í að vera þrefalt það sem við erum að veiða þessi árin af þorski úr sjónum var að stórum hluta veiddur af bátaflotanum á grunnslóðinni og á vertíðartímanum. Það voru oft lélegri aflabrögð við norðanvert landið og Vestfirði á árunum 1950--1960 en t.d. núna. Það er miklu meiri afli á hvern línubala í dag á þessum miðum fyrir vestan og norðan en var t.d. á árunum í kringum 1955 þó að það væri toppaflaár í þorski á Íslandsmiðum. Hann hélt sig bara meira þá við vestanvert og sunnanvert landið þannig að það er að mörgu að hyggja, herra forseti, þegar við erum að skoða sögu okkar. Frv. sem við ræðum hér er bara einn angi af fiskveiðistjórnarkerfinu, einn þáttur þess, sem hefur þó orðið til þess að borist hafa á land nokkur hundruð milljónir í verðmætum og munu vonandi gera það í framtíðinni ef þetta heldur áfram.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því, herra forseti, og enda ræðu mína á því að um leið og menn fækka kvótabundnum tegundum í fiskveiðikerfinu, að ég ekki tali um taki upp sóknarstýrt kerfi á strandveiðiflotanum, hverfur auðvitað sú mikla áhersla sem hvílir á ákvæði eins og 5%-ákvæðinu. Eftir sem áður munu þeir hlutar flotans sem eru í kvótakerfi hafa nýtingu fyrir svona ákvæði þannig að framlenging ákvæðisins um tvö ár --- því það mun taka meira en tvö ár að beyta öllu veiðikerfinu á Íslandsmiðum, hversu fljótt sem menn vilja gera það. Ég hef talið að það væri hægt að breyta mjög fljótlega veiðum smábátaflotans og sömuleiðis veiðum strandveiðiflotans. En ég hygg að lengri tíma taki að breyta veiðimunstri togaraflotans og frystitogaraflotans og það þurfi miklu meiri skoðunar við þegar við komum í frystitogaraflotann því að sá floti er að þróast í að verða alhliða veiðiskip. Eftir tíu ár munu menn ekki sjá neinn mun á nótaskipi eða uppsjávarveiðiskipi og togara. Reyndin er sú með þeim nýju skipum sem eru komin til landsins í dag að þetta eru bæði togarar og uppsjávarveiðiskip, alhliða veiðiskip sem við getum kallað fjölveiðiverksmiðjuskip. Þau veiða uppsjávarfisk sem botnfisk, ekki bara í lögsögu okkar heldur víða utan hennar og í lögsögum annarra ríkja. Það er auðvitað annað veiðimunstur á slíkum skipum en var kannski fyrir 10--20 árum. Til þess verður að taka tillit þegar menn breyta fiskveiðistjórnarkerfinu.

Þegar menn ætla að breyta einu kerfi sem búið er að vera við lýði er það ævinlega vandasamt og engum er greiði gerður með því að setja þá á hausinn sem fyrir eru í kerfunum við það að taka upp breytinguna, enda á það ekki að þurfa að gerast. Það á alveg jafnt við hvort menn eru að tala um stjórnkerfi í fiskveiðunum eða stjórnkerfi í landbúnaðinum þar sem er líka kominn mjólkurkvóti og beingreiðslukvóti eða ærgildiskvóti. Það verður engum greiði gerður með því að setja bændur á hausinn við að breyta því kerfi þó að framtíðin, held ég, kalli á að það þurfi að breyta því einnig.

Þetta vildi ég sagt hafa almennt, herra forseti, um þetta mál. Ég tel að eðlilegt sé að framlengja þetta ákvæði um tvö ár. Það mun þurfa á því að halda til þess að tryggja það að verðmæti sem ella færu í hafið komi að landi þannig að ákvæðið er okkur til góða. Ég vakti hins vegar sérstaklega máls á því, herra forseti, hversu lengi menn væru að átta sig á því að svona ákvæði eins og við settum fyrir rúmu ári inn í löggjöfina færir okkur mikil verðmæti. Þetta ákvæði hefði betur verið komið inn í löggjöfina fyrir 10--15 árum. Þá hefðum við bjargað á land 1--2 milljörðum kr. í verðmæti sem því miður hafa farið í súginn fyrir það að menn töldu sig vera að verja hið heilaga kvótakerfi, heimsins besta kvótakerfi sem menn ferðast með í veröldinni og reyna að kynna öðrum þjóðum. Ég ætla samt að vona, herra forseti, að engin þjóð verði þeirrar ógæfu aðnjótandi að taka óbreytt kvótakerfið upp eftir okkur.