2003-03-14 03:07:38# 128. lþ. 100.40 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[27:07]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði áðan, ef ég heyrði rétt, að ef lögunum um stjórn fiskveiða verði ekki breytt yrði auðlindin áfram í eigu þjóðarinnar. Mér finnst þetta undarlega skrýtin ummæli því að sá háttur er nú á og hefur verið að þeir sem hafa fengið úthlutað veiðiheimildum mega selja og kaupa þær heimildir að vild sinni eins og hverjar aðrar eignir. Þeir mega meira að segja veðsetja þær eða hafa leyfi til að veðsetja þær, þó að það sé reyndar kallað að veðsetja þær ekki, þá hafa þeir samt þessa leið. Dettur nokkrum manni það í hug öðrum en þeim sem stunda þrætubókarlist að halda því fram að þetta sé ekki eignarréttur eins og hann er framkvæmdur? Ef hann á að vera til framtíðar hljóta menn að líta þannig á að þeir sem hafa þetta undir höndum núna eigi að eiga það til framtíðar.

Ég velkist a.m.k. ekki í vafa um að þetta er fullkomlega hugsað sem eignarréttur frá hendi þeirra sem vilja hafa þetta fyrirkomulag svona. En þeir hafa auðvitað legið á því laginu frá upphafi að skrökva því að þjóðinni að hún eigi þessa auðlind en menn eigi bara að hafa aðganginn eins og eignina sína. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það mannborulegra að tala beint út og segja að útgerðarmenn eigi bara að eiga þessa auðlind. Þjóðin á ekkert með að eiga hana, enda tala margir útgerðarmenn þannig í dag. Þeir eru að tala um eignaupptöku þegar verið er að ræða um tillögur okkar. Þeir tala sem sagt um eignina sína sem talað er um að taka eigi frá þeim.