2003-03-14 03:15:11# 128. lþ. 100.40 fundur 602. mál: #A stjórn fiskveiða# (meðafli) frv. 75/2003, KVM
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 128. lþ.

[27:15]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Hér er verið að ræða um frv. til laga um breytingar á lögum sem urðu til vegna brottkasts. Menn áttuðu sig á því þegar tíu ár voru liðin frá því að lögin um stjórn fiskveiða voru sett að stundað væri brottkast, jafnvel í stórum stíl. Þá fóru menn að reyna að verjast því. Lengi vel þrættu menn reyndar fyrir að brottkast væri stundað í íslenskum sjávarútvegi en svo kom að því að menn urðu að viðurkenna það. Þess vegna var komið með þetta ákvæði um að koma mætti með í land 5% af botnfiski án þess að það yrði skráð sem kvóti á viðkomandi útgerð.

Nú er búið að bæta við 0,5% á uppsjávarafla. Ætli það sé ekki vegna þess að hina síðari daga hafa menn áttað sig á því að trollin sem uppsjávaraflinn er veiddur í eru farin að taka annan fisk en veiða átti, t.d. ufsa og jafnvel þorsk. Ef við leyfum veiðar á 1,5 millj. tonna af uppsjávarafla er hér um að ræða allt að 7.500 tonn af fiski, þ.e. getur farið upp í 5 þús. til 10 þús. tonn í botnfiskinum. Hér er því um talsvert magn af fiski að ræða fyrir utan kvótakerfið, eiginlega nokkuð stór hluti af því, t.d. meiri en allur byggðakvótinn. Þetta er gífurlega mikið magn.

Fyrir mér er þetta frv. ákveðin staðfesting, enn eitt dæmið um tilraun til að breyta lögum um stjórn fiskveiða og reyna að laga þá vankanta sem á því eru.

Mig langar að geta þess, herra forseti, að einungis tvær greinar laganna um stjórn fiskveiða eru óbreyttar, önnur þeirra er 1. gr. sem kveður á um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Það er náttúrlega góð grein sem mig minnir að hv. fyrrv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi átt stóran þátt í að koma inn í lögin. Ekki þótti öllum sjálfsagt að þetta ákvæði væri í lögunum, að nytjastofnar á Íslandsmiðum væru sameign íslensku þjóðarinnar. En sem betur fer komst það inn. Þetta ákvæði er að minni hyggju, herra forseti, síðasta vonin og grundvöllur þess að hægt verði að breyta því fiskveiðistjórnarkerfi sem hér er við lýði.

Fiskimiðin í kringum landið eru verðmætasta auðlind þjóðarinnar, a.m.k. nú um stundir. Menn hafa sagt í mín eyru að þetta eigi ekki að standa svona í ákvæðinu heldur eigi bara að viðurkenna sannleikann strax, að þeir sem eigi nytjastofnana hafi leyfi til að veiða þá. Þetta viðhorf er til. Þetta eru álíka viðhorf og giltu hjá nýlenduherrum, t.d. í Afríku. Þar áttu örfáir menn miklar auðlindir þar, t.d. gimsteinanámur í Suður-Afríku. Í sumum löndum eiga mjög fáir einstaklingar auðlindir viðkomandi landa, t.d. olíulindir. Miðað við íbúafjölda þeirra þjóða njóta mjög fáir verðmætanna sem auðlindirnar gefa. Það er einmitt einkenni ríkja þar sem er kúgun og eymd, að auðlindirnar eru í mjög fárra höndum. Ef við skoðum lönd þar sem fólk býr við hvað mestar þrengingar og einhvers konar auðlindir eru fyrir hendi þá eru einkennin þau að auðlindirnar eru í mjög fárra höndum. Við eigum að reyna að læra af samfélaginu hér á jörðinni og forðast það sem einkennir kúgunarríki og vond ríki.

Herra forseti. Það sem við sjáum í íslenska samfélaginu í dag er að æ færri aðilar eru að eignast meira og meira í auðlindinni í hafinu. Ég tel það ekki æskilegt. Ég tel æskilegast að sem flestir hafi sem auðveldastan aðgang að auðlindinni. Reyndin er sú að aðgangurinn að auðlindinni er ekki auðveldur, herra forseti. Hugsum okkur ungan mann með pungapróf, stýrimann á 30 tonna bát, ungan mann með mikinn dug í hjarta sér og kraft. Hann langar að gera út smábát. Það er ekki auðveldur aðgangur að auðlindinni að hann skuli þá þurfa að leggja út fleiri tugi milljóna króna til að geta farið að róa. Ég er sannfærður um að við gætum breytt kerfinu þannig að þetta þurfi ekki að vera svo gífurlega dýrt fyrir þennan mann.

Ef við skoðum 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna þá sjáum við að í fyrstu setningunni kemur fram að nytjastofnarnir séu sameign íslensku þjóðarinnar. Við getum verið ákaflega ánægð yfir því en þegar kemur að því að þegnar þjóðarinnar vilja ganga inn í greinina og byrja að veiða þá þurfa þeir að vera margfaldir milljónamæringar. Þá finnst mönnum þetta bara vera grín. Þá finnst mönnum ekkert að marka þessi orð og ekki farið eftir þessu, að þetta sé frekar í orði en á borði. Þar tel ég að skilji á milli feigs og ófeigs í þessum málum, herra forseti.

,,Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra ...`` segir svo í næstu setningu á eftir. Nú eru uppi menn eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem eru farnir að efast æ meira um þá verndarstefnu sem yfirvöld ástunda og telja að hún hafi jafnvel þveröfug áhrif, sé ekki verndarstefna heldur eyðingarstefna gagnvart stofnunum. Sumir telja þessa verndarstefnu hafa þveröfug áhrif. Það er athyglisvert þegar slíkt gerist, herra forseti, að einn hv. stjórnarþingmaður og jafnvel fleiri skuli halda slíku fram. Þeir tala út í myrkrið. Á þá virðist ekki hlustað frekar en að mark sé tekið á 1. gr. laganna.

Menn hafa talað um að fyrsta setningin í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða verði fest í stjórnarskrá. Það hefur ekki verið gert. Af hverju eru menn að tala um að festa þetta í stjórnarskrá? Það er vegna þess að þeir óttast alvarlega að þróunin sé sú að gullið sem við sækjum í greipar Ægis sé að renna úr höndum þjóðarinnar.

Hlutirnir hafa gerst hratt undanfarin ár, herra forseti, í þessum málum. Við höfum t.d. séð hvernig heimildirnar til að veiða uppsjávarfiskinn færast á sífellt færri og færri hendur. Af einhverjum ástæðum er ekki einungis stjórnarandstaðan að tala um þetta. Í frumvarpi til laga frá því fyrir einu ári síðan og í lögum sem nú gilda eru einmitt ákvæði um að ákveðnir einstaklingar megi ekki eiga í ákveðnum stofnum nema að vissu marki. Þetta er gert til að koma í veg fyrir einokun. Við sem búum í þessu landi vitum hvað einokun þýðir og hvað einokun er. Við þurfum ekki nema að hugsa til dönsku einokunarverslunarinnar, hvernig hún starfaði hér, hvernig fólki var meinað að versla við þá kaupmenn sem það vildi skipta við. Menn þurftu jafnvel að fara fleiri dagleiðir til að versla við þann kaupmann sem þeir máttu versla við.

[27:30]

Síðan hafa menn verið að tala um það í hv. Alþingi að það sé mjög varasamt þegar t.d. verslunarkeðjur eru farnar að ná ákveðinni hlutdeild í öllum markaðnum, þá sé hætta á ferðum. Þetta gildir einnig um sjávarútveginn. Þess vegna eru lögin með þessum ákvæðum. En er þetta í reynd svona, herra forseti? Eru ekki fiskveiðiheimildirnar að færast á æ færri hendur? Hvað gerðist um daginn þegar SR-mjöl og Síldarvinnslan sameinuðust? Er það ekki eitt af þessum dæmum? Sumum finnst þetta kannski bara allt í lagi og að lokum hafi aðeins einn allan nýtingarréttinn. Svo má segja: Ja, þjóðin á þetta. En það bara kemst enginn að nema einn. Verið getur að það sé vilji einhverra og menn haldi að það sé svo mikil hagræðing og að sú hagræðing leiði til þess, herra forseti, að allir hafi það voðalega gott í þessu landi. Mér hefur skilist að áhuginn á námi í Sjómannaskólanum hafi farið dvínandi. Kannski er fiskveiðistjórnarkerfið hluti orsakar þess. Ég held að það sé alveg rétt að áhugi á skipstjórnarnámi hafi minnkað og að aðsókn í Sjómannaskólann sé ekki eins mikil og hún var. Skyldi það vera hluti af þessu kerfi öllu saman?

Nei, herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að það þurfi algjörlega að söðla um og breyta fiskveiðistjórnarkerfinu hér og við förum að huga mjög alvarlega að fyrningarleiðinni, sem mig minnir að þó nokkur hluti landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins síðast hafi viljað fara, 25% á síðasta landsfundi þess stóra flokks.

Mörg orð er hægt að segja um þetta. En núna er búið að birta ákærur á hendur skipstjóra einum sem hleypti myndatökumanni um borð í skip sitt. Þar var veruleikinn sýndur, þ.e. að verið væri að henda fiski í sjóinn. Menn velta fyrir sér ástæðum þess hvort það sé vegna þess að viðkomandi hafi einhverja tilhneigingu eða sérstaka löngun til að vera brotamaður eða hvort ástæðan geti hreinlega verið sú að viðkomandi hafi verið að reyna að gera út sinn bát og þurft að leigja sér veiðiheimildir á mjög háu verði og þess vegna orðið að reyna að veiða eins verðmætan fisk og mögulega var hægt. Það var langstærsti fiskurinn. En fyrir hinn, þann minni, fæst ekki eins mikið og því hafi freistingin verið að setja hann fyrir borð. Ég vona, herra forseti, að þetta hafi bara komið fyrir hjá þessu eina skipi. Ég vona að það hafi bara farið 53 fiskar í sjóinn í öllu þessu brottkasti sem talað hefur verið um. En margir halda öðru fram, að það hafi verið mun meira. Ævintýralegar sögur hafa verið sagðar af slíku brottkasti og sagt að það hafi allt átt sér stað vegna þess að leiguliðar vildu fá eins mikið fyrir aflann og hægt var til þess að geta staðið undir því að borga leiguna og greiða hásetunum laun og einnig undir rekstur útgerðarinnar. Þetta er ástæða brottkastsins.

Það er hálfgerð úlfakreppa að vera í þeirri stöðu að eiga bát sem hefur litla aflahlutdeild og viðkomandi mann langar til að gera út bátinn sinn. En til þess að gera hann út verður hann að hafa meiri aflahlutdeild og til þess að fá meiri aflahlutdeild verður hann að leigja af öðrum. Og til þess að leigja af öðrum verður hann að eiga mikinn pening og til að fá sem mestan pening þá þarf hann að fá sem mestan fisk og bestan og stærstan. Því hefur þetta skapast.

Gaman væri að vita, herra forseti, hversu mikill peningur hefur farið í að greiða fyrir leigu á fiskveiðiheimildum frá því að þessi viðskiptamáti hófst. Ég held að það hljóti að skipta mörg hundruð milljónum króna og það hefur verið nokkuð mikill skattur á byggðirnar. Það er t.d. mjög undarlegt að hugsa sér að netabátar, t.d. frá Ólafsvík eða annars staðar á landinu, sem fara nokkrar mílur út frá landi og eru rétt á sínum heimamiðum, skuli þurfa að greiða gífurlega háar fjárhæðir fyrir að veiða þann fisk sem er þarna fyrir utan og sem enginn annar hefði veitt. Þeir greiða fyrir það og senda peninga í sparisjóði eða banka í allt aðra landshluta. Það er nokkuð kyndugt.

Þess vegna er það rangt þegar fyrningarleiðin er rædd og þeir kostir, að talað er um að hún verði svo kostnaðarsöm samanborið við það sem gildir í dag fyrir útgerðina. Við vitum að útgerðin í dag eða nokkur hluti hennar greiðir hundruð milljóna fyrir að veiða fisk. En það fer bara til einstakra manna. Við getum hugsað um líkinguna sem ég var með áðan, herra forseti, um olíulindirnar eða demantanámurnar, þ.e. að einhver fái leyfi til að nýta olíuna eða grafa eftir demöntum, en þurfi að greiða fyrir það langstærstan hluta þess sem unnið er úr jörðinni eða úr olíulindinni. Þetta er óásættanlegt eins og það er í dag. Við búum við óásættanlegt fiskveiðistjórnarkerfi og við þurfum að bæta það.

Herra forseti. Umræðan í samfélaginu er þannig að æ fleiri líta svo á að komandi kosningar muni hafa mikil áhrif eða að fólk muni greiða atkvæði einmitt um þetta, þ.e. hvort við viljum fá ríkisstjórn sem hefur einlægan áhuga á því að breyta þessu kerfi, breyta kerfinu þannig að meiri möguleiki sé fyrir fólk að byrja í þessari grein og að það fái aftur trú á sjávarútveginum.

(Forseti (HBl): Ég bið hv. þm. að afsaka. Ætli hann eigi mikið eftir af ræðu sinni?)

Nei, ég reikna nú ekki með því, herra forseti.

(Forseti (HBl): Ef hann ætti mikið eftir þá hefði ég óskað eftir því að hann gerði hlé á ræðu sinni.)

Herra forseti. Ég get eiginlega ekki sagt hve mikið er eftir af ræðunni fyrr en hún er búin. En það er hálfgerð mótsögn.

Við erum að ræða, herra forseti, þetta frv., þessa breytingu sem fjallar um að setja það í lög að menn megi koma með svokallaðan meðafla, koma með aukaafla ef svo má að orði komast, í land og að það verði ekki tekið af aflaheimildunum. Ég tel að þetta sé jákvætt mál að því leyti að það dregur úr brottkastinu. En kannski væri best að leyfa mönnum að koma með allan aflann sem þeir veiða svona.

Að lokum segi ég þetta, herra forseti: Að minni hyggju væri best fyrir íslenskan sjávarútveg að þeir sem aðhyllast breytingar, grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu komist sem fyrst til valda.