Íslenskar orkurannsóknir

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 10:45:03 (5074)

2003-03-14 10:45:03# 128. lþ. 101.10 fundur 545. mál: #A Íslenskar orkurannsóknir# frv. 86/2003, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[10:45]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í gær við 2. umr. þessa máls ræddum við saman tvö mál, þ.e. 544. mál um Orkustofnun og hins vegar 545. mál um Íslenskar orkurannsóknir og það var eðlilegt, herra forseti, að ég samþykkti það vegna þess að þessi mál eru í rauninni óaðskiljanleg því að hér er verið að fjalla um breytingar á Orkustofnun sem síðan leiða til þess að til verður ríkisstofnunin Íslenskar orkurannsóknir.

Það sætir tíðindum, trúi ég, að hér skuli vera farið fram með nýja ríkisstofnun sem telur u.þ.b. 50 starfsmenn. Rannsóknasvið Orkustofnunar er eins og menn þekkja einkum á sviði jarðhitarannsókna, en það er einnig í almennri jarðfræði svo sem í gerð jarðfræðikorta fyrir sveitarfélög. Þá er fyrirsjáanleg gróska í umsvifum rannsóknasviðsins á sviði hafsbotnsmála og e.t.v. fleiri verkefna, vegna þess að það er auðvitað svo að rannsóknum vex stöðugt fiskur um hrygg í samfélagi okkar og sífellt er eftirspurn eftir meiri upplýsingum. Kallað er eftir meiri og vandaðri upplýsingum við ákvarðanatöku og ég tala nú ekki um þegar mat á umhverfisáhrifum er orðið lagaskylda við flestar ef ekki allar stærri framkvæmdir. Þá er nauðsynlegt að geta leitað til rannsóknastofnunar sem hefur yfir að búa þeirri þekkingu sem er til staðar hjá rannsóknasviði Orkustofnunar.

Herra forseti. Rannsóknasvið Orkustofnunar á sem sé ekki lengur að hýsast í Orkustofnun, heldur á að gera orkusviðið eða orkurannsóknasviðið að sérstakri stofnun, sérstakri ríkisstofnun. Sú niðurstaða byggir á skýrslu nefndar sem skipuð var af hæstv. iðnrh. í júní árið 2001. Sú nefnd átti að yfirfara skipulag Orkustofnunar með hliðsjón af því aukna stjórnsýsluhlutverki sem stofnuninni hefur verið falið með ýmsum lögum á undanförnum árum og nú síðast breyttu hlutverki Orkustofnunar samkvæmt frumvarpi til nýrra raforkulaga. Formaður þeirrar nefndar var Páll Hreinsson prófessor og var nefndinni falið að koma með tillögur um framtíðarskipulag stofnunarinnar.

Í rauninni varð niðurstaðan sú sem hér liggur fyrir að rannsóknasvið stofnunarinnar yrði tekið undan stofnuninni og búið til nýtt fyrirtæki. Þó áttu vatnamælingar ekki að fylgja með, þær verða áfram hluti Orkustofnunar og þeir ríflega 20 einstaklingar sem þar starfa verða áfram starfsmenn Orkustofnunar.

En það sem skiptir máli varðandi rannsóknasviðið og mikilvægi þess að skilja orkumálahlutann og rannsóknahlutann í sundur er kannski það, herra forseti, að menn töldu að það gæti orðið hætta á ákveðnum hagsmunaárekstrum sem fælust þá í því að rannsóknasvið stofnunarinnar veitti á ákveðnu stigi þjónustu og kæmi að mótun verkefna sem orkumálasviðið gæti síðan á seinni stigum þurft að veita stjórnvöldum umsögn um. Til að forðast slíka hagsmunaárekstra er verið að skipta þessu í sundur með þeim hætti sem hér liggur fyrir.

Það var að sjálfsögðu álitamál með hvaða hætti rannsóknahlutanum yrði komið fyrir, hvers konar fyrirtæki yrði búið til þegar orkumálahlutinn og rannsóknasviðið yrðu skilin að. Í skýrslu Páls-nefndarinnar svokölluðu segir, með leyfi forseta:

,,Formið á rannsóknareiningunni getur verið með ýmsu móti og fer það að nokkru eftir markmiðum og skilgreiningu á umfangi einingarinnar hvað helst á við. Í þessu samhengi vill nefndin draga fram nokkur grundvallarsjónarmið:

1. Rannsóknasviðið er ein stærsta jarðfræðistofnun landsins og um leið ein öflugasta rannsóknastofnun heims á sviði jarðhita. Á sama hátt eru vatnamælingarnar eina sérfræðistofnunin hér á landi á sínu sviði. Í ljósi hins mikla mannauðs rannsóknasviðsins er því æskilegt að það verði varðveitt sem ein heild.``

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli hv. þm. á að það á að biðja um leyfi forseta ef lesið er prentað mál.)

Virðulegi forseti. Ég bað um leyfi forseta, en ég get gert það aftur, með leyfi forseta:

,,2. Rannsóknasviðið keppir nú á samkeppnismarkaði, enda þótt keppinautarnir séu enn fáir og smáir. Það er afar líklegt, að þróunin verði svipuð og hefur þegar orðið á vatnsorkusviðinu, að einkamarkaðurinn --- jarðfræðistofur, verkfræðistofur og aðrir --- hasli sér í auknum mæli völl á jarðhitasviðinu. Því þarf að gæta þess að fyrirkomulag rannsóknareiningarinnar sé þannig að hún geti aðlagast slíkri þróun.

3. Vatnamælingarnar eru ekki á samkeppnismarkaði enda verður seint komið við samkeppni um eign og rekstur vatnamæla. Að þessu leyti kunna ólík sjónarmið að vera um rekstrarfyrirkomulag vatnamælinga og annarra rannsóknarþátta, sbr. atriðið hér á undan.

4. Rannsóknareiningin á að vera fjárhagslega sjálfbær og því ekki að fá fé beint af fjárlögum. Eins og fyrr segir ber að viðhalda því fyrirkomulagi að fé til orkurannsókna í þágu ríkisins fari til stjórnsýslueiningarinnar [þ.e. Orkustofnunar] sem síðan kaupi vinnu af rannsóknareiningunni eða öðrum. Ella munu koma upp sömu vandamál hjá rannsóknareiningunni og kölluðu á skipulagsbreytingarinnar á Orkustofnun í ársbyrjun 1997.

5. Sambýli. Ekkert er því til fyrirstöðu að hýsa hinar nýju einingar núverandi Orkustofnunar á einum stað og nýta sameiginlega þá þjónustu sem ekki fer í bága við meginmarkmið aðskilnaðarins og er í samræmi við samkeppnissjónarmið. Af því ætti að vera hagræði að stofnanir ríkisins geti sem mest sameinast um þjónustu.``

Það er skemmst frá því að segja að þessar niðurstöður Páls-nefndarinnar sem ég rakti leiddu til þess að við erum nú að fjalla um frv. þar sem gert er ráð fyrir að Íslenskar orkurannsóknir séu sérstök ríkisstofnun sem hafi það verkefni að vinna að rannsóknum á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála eftir því sem stjórn stofnunarinnar ákveður. Og eins og ég gat um áðan, herra forseti, var niðurstaðan sú að skilja vatnamælingar eftir í Orkustofnun.

Nokkrar umræður spunnust eðlilega um þá ákvörðun að búa til nýja ríkisstofnun utan um fyrirtæki sem sannarlega er á samkeppnissviði og menn veltu því satt að segja fyrir sér hversu lengi það fyrirkomulag fengi staðist. Ljóst er að markaðurinn á þessu sviði þróast mjög ört og líklegt er að lítill friður verði um ríkisstofnun sem t.d. er skattlaus við hliðina á eða í samkeppni við þær jarðfræðistofur eða þær verkfræðistofur sem eru að vinna sambærileg verkefni og selja út þjónustu sína.

Herra forseti. Þetta er auðvitað hluti af ákveðnum vanda í ríkiskerfinu þar sem á fleiri sviðum er verið að koma upp ríkisþjónustu og ég minni þá á hina miðstýrðu ríkisreknu vinnumiðlun sem er næsta afrek á undan þessu varðandi ríkis\-væðingu atvinnulífsins. Vandinn er auðvitað sá, eins og t.d. Samtök iðnaðarins hafa ítrekað bent á, að þjónusta sem ekki þarf að greiða skatta er að keppa við markaðinn sem þarf að greiða virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem seld er út. Samtök iðnaðarins hafa sérstaklega bent á tölvugeirann í þessu sambandi, þar sem mjög erfitt hefur verið um samkeppni við þjónustudeildir einstakra ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja sem hafa látið vinna og jafnvel tekið til sín verkefni inn í þessar þjónustudeildir sem ella hefðu verið úti á markaðnum ef ekki hefði komið til ívilnun vegna virðisaukaskattsins, sem í sjálfu sér er ekki ívilnun, vegna þess að það á að greiða af þessu virðisaukaskatt, en einhver brögð virðast vera að því að lögunum sé ekki framfylgt með þeim hætti sem ætlast er til. A.m.k. er þetta viðvarandi vandamál í þessum geira.

Herra forseti. Hér erum við kannski að fitja upp á fyrirkomulagi sem gæti orðið til vandræða mjög fljótlega. Í umfjöllun nefndarinnar um einmitt það af hverju þetta fyrirkomulag var valið, sem því miður er ástæða til að ætla að verði fljótlega ófriður um, kom það fram að menn litu svo á að þarna væri kannski ákveðið markmið að varðveita það sem hér var áðan kallað ,,mannauður stofnunarinnar`` og er tilefni til þess að ítreka að full ástæða er til að reyna að varðveita þann mannauð og þá þekkingu sem þarna er til staðar. En jafnframt kom annað fram sem var það að menn líta almennt á þetta sem fyrsta skref, þ.e. að til verði þessi sérstaka ríkisstofnun og það sé eins konar fyrsta skref í þá átt að það fyrirtæki verði fyrirtæki á markaði sem lúti þá öllum sömu lögmálum og önnur slík fyrirtæki.

Eins og þetta er núna er í rauninni verið að búa til stofnun sem lýtur beinum afskiptum iðnrh. á hverjum tíma. Forstjóri Íslenskra orkurannsókna er ráðinn af stjórn stofnunarinnar, sem er aftur skipuð af iðnrh., en síðan ekki söguna meir. Hins vegar væri það svo, herra forseti, að ef hér hefði verið búið til fyrirtæki sem hefði borið einkennisstafina hf. fyrir aftan, Íslenskar orkurannsóknir hf., þá hefði jú stjórn stofnunarinnar líka verið skipuð af iðnrh., en þá hefði gilt ákveðin löggjöf um fyrirkomulag og starfsemi stofnunarinnar, sem gerði hana jafnsetta þeim aðilum sem hún er að keppa við á markaði hvað varðar bæði skattalega meðferð og annað.

En eins og ég gat um vilja menn líta svo á að hér sé um að ræða fyrsta skref, að til verður ný sérstök ríkisstofnun sem á að starfa á viðskiptalegum grundvelli á samkeppnismarkaði. Þetta hljómar auðvitað sérkennilega, herra forseti, en eigi að síður varð þetta niðurstaðan. Eftir að hafa farið vandlega yfir málið varð það niðurstaða okkar fulltrúa Samfylkingarinnar í nefndinni, að styðja frv. með þeirri brtt. sem gerð er sem á að skerpa á stjórnsýslunni og þá í ljósi þess að hér er um fyrsta skref að ræða, vegna þess að eins og fram kom hjá mér strax í 1. umr. um málið er hætt við því að þessi stofnun, í þeim búningi sem hún er samkvæmt frv., fái lítinn frið á markaðnum.

Herra forseti. Ýmiss konar merkileg starfsemi hefur þróast í skjóli Orkustofnunar. Það er ekki bara að þarna hafi orðið til þetta rannsóknasvið sem eins og fram hefur komið er eitthvert öflugasta rannsóknasvið okkar á sviði jarðhitarannsókna, heldur gerðist það eðlilega í framhaldinu að þegar til varð Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, þá fékk sá skóli líka skjól hjá Orkustofnun. Orkustofnun hefur búið til eins konar auðlindadeild sem m.a. hefur umsjón með rammaáætlun sem hér hefur mikið verið kallað eftir, en hefur líka komið að rekstri Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, sem nú hefur verið rekinn í nær aldarfjórðung. Það er gert á grundvelli sérstaks samnings á milli Háskóla Sameinuðu þjóðanna og Orkustofnunar.

Herra forseti. Það er auðvitað stórmál þegar verið er að skipta upp stofnun eins og Orkustofnun og ég hef reynt að halda mig fyrst og fremst við það frv. sem hér er á dagskrá, þ.e. Íslenskar orkurannsóknir, sem fjallar um hina nýju sérstöku ríkisstofnun. Ég hef gert grein fyrir viðhorfum okkar, fulltrúa Samfylkingarinnar, varðandi þessa ákvörðun og hvernig umfjöllun hún fékk, en mun þá ræða um hlutverk og stöðu Orkustofnunar sérstaklega undir þeim dagskrárlið.