Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:12:13 (5094)

2003-03-14 12:12:13# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. 2. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:12]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 2. minni hluta samgn. við frv. til hafnalaga sem kemur hér til 2. umr. Ég stend einn að þessu nál. en eins og kom fram í ræðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar fer afstaða okkar til þessa frv. nokkuð saman.

Þetta frv. til hafnalaga kom einnig inn á vorþingi á síðasta þingi en fékk þá ekki endanlega afgreiðslu.

Ég vil í upphafi máls míns vísa til upphafs nál. meiri hluta samgn. sem ég sleppti úr mínu nál. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson og Sigurberg Björnsson frá samgönguráðuneytinu, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Árna Þór Sigurðsson frá Hafnasambandi sveitarfélaga.

Frumvarpið er endurflutt frá síðasta þingi með nokkrum breytingum. Þá var það sent til umsagnar og bárust umsagnir frá eftirtöldum: Akraneskaupstað, Póst- og fjarskiptastofnun, Borgarfjarðarhreppi, Vegagerðinni, Almannavörnum ríkisins, Grindavíkurkaupstað, Slysavarnaskóla sjómanna, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, sveitarfélaginu Árborg, Siglingastofnun, Byggðastofnun, Samtökum iðnaðarins, Reykjavíkurhöfn, Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Vestmannaeyjahöfn, Hafnarfjarðarhöfn, Hafnasamlagi Norðurlands, Landhelgisgæslu Íslands, Þórshafnarhreppi, Samtökum ferðaþjónustunnar, Vopnafjarðarhreppi, Eimskipafélagi Íslands, Olíudreifingu ehf., Grundartangahöfn, Húsavíkurkaupstað, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Hafnasambandi sveitarfélaga, Akraneshöfn, Siglufjarðarkaupstað, Landssambandi smábátaeigenda, Náttúruvernd ríkisins, Reykjavíkurborg, Stykkishólmsbæ, Vélstjórafélagi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sveitarfélaginu Ölfusi, Eyþingi, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sandgerðisbæ, Þjóðhagsstofnun og Íslenska járnblendifélaginu ...``

[12:15]

Herra forseti. Ég rek þetta hér til að gera grein fyrir því hve gríðarlega þýðingarmikið mál þetta er og hversu margir hafa sent um það umsögn. Vegna orða hv. formanns samgn. Guðmundar Hallvarðssonar vil ég benda á það sem fram kemur í nál. meiri hlutans. Þar er vikið að þessum umsögnum, að viðkomandi umsagnir fylgdu þessu frv. Ég vildi útrýma þeim misskilningi að þær umsagnir ættu ekki við þetta frv. Hv. þm. hefur eitthvað misskilið það.

Það er alveg hárrétt að frumvarpið fékk mjög ítarlega umfjöllun á milli þinga og margt í því hefur verið lagfært. Það var því mat meiri hluta nefndarinnar að ekki þyrfti að senda frumvarpið aftur til umsagnar á þessu þingi. Hann mat það hins vegar svo að hægt væri að vísa til umsagna sem borist hefðu við frv. á vorþingi á sl. ári. Herra forseti. Ég segi þetta svona til upplýsingar og til þess að menn átti sig á þessum hlutum.

Ef ég vík aftur að nál. 2. minni hluta samgn. þá er þetta frv. sem hér er til umræðu, eins og ég hef áður getið, í helstu atriðum samhljóða því frumvarpi sem samgönguráðherra lagði fram á Alþingi fyrir einu ári.

Það er samdóma álit þeirra sem sendu inn umsagnir á síðasta þingi að þörf sé á að endurskoða lögin. Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því að það var lagt fram á síðasta þingi og eru þær flestar til bóta. Hugmyndafræðin er þó óbreytt og langtímaáhrif þessarar lagasetningar, ef af henni verður, munu verða gífurleg á byggðir á Íslandi og reynast fiskihöfnum vítt og breitt um landið þung í skauti.

Helstu nýmæli í þessu frumvarpi frá gildandi hafnalögum eru tilgreind í greinargerð með frumvarpinu en þar segir:

1. Gert er ráð fyrir að samræmd gjaldskrá hafna verði aflögð og ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku þeirra.

2. Leyft verður að reka hafnir undir fleiri rekstrarformum, þar með talið undir hlutafélagaforminu.

3. Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki til allra hafna landsins.

4. Móttökuskylda hafna er skilgreind.

5. Ríkisafskipti af höfnum eru minnkuð en áfram er gert ráð fyrir að viðhaldsdýpkanir, lagfæringar og viðhald á skjólgörðum sé greitt að hluta til úr ríkissjóði.

6. Framtíð smærri fiskihafna er betur tryggð en í núgildandi lögum.

7. Önnur stjórnvaldsafskipti af höfnum eru betur skilgreind.

Herra forseti. Þetta eru megindrættir þeirra markmiða sem ætlað er að ná varðandi breytingar á núgildandi hafnalögum.

Annar minni hluti gerir sérstakar athugasemdir við fyrsta og annan lið í framangreindri upptalningu sem lýtur að því að samræmd gjaldskrá hafna verði aflögð og ákvæði samkeppnislaga gildi um gjaldtöku þeirra, þ.e. að höfnunum sé gert að fara í frjálsa samkeppni innbyrðis um gjaldtöku fyrir þá þjónustu sem þær veita.

Annað sem sérstaklega eru gerðar athugasemdir við er að leyft verði að reka hafnir undir fleiri rekstrarformum, þar með talið hlutafélagsforminu. Hér greinir okkur verulega á en að mati þess sem hér talar eru hafnirnar hluti af grunnneti samgöngukerfis landsins. Þær hafa byggst upp vegna samgangna á sjó og sem nauðsynleg þjónustumannvirki fyrir fiskiskipaflotann. Hafnirnar eru forsenda atvinnulífs og búsetu í sjávarþorpum og bæjum víða um land. Annar minni hluti lítur því á hafnir í flestum tilvikum sem þjónustumannvirki, hluta af almannaþjónustu við atvinnulíf og búsetu í landinu. Hugmyndafræðin að baki frumvarpinu felst í að heimila einkavæðingu hafnarmannvirkja vítt og breitt um landið og innleiða frjálsa samkeppni hafna innbyrðis, þ.e. að láta þær keppa hverja við aðra um að fá til sín viðskipti og þjónustu. Samkvæmt frumvarpinu verður dregið verulega úr ríkisstyrkjum til hafna og notendum hafnanna, einkum sjávarútveginum, gert að standa undir nauðsynlegum framkvæmdum og viðhaldi þeirra. Búast má við harðri samkeppni milli hafna þegar fram líða stundir og í slíkri samkeppni munu einhverjar hafnir óhjákvæmilega verða undir.

Í athugasemdum við 18. gr. frumvarpsins segir:

,,Frumvarpið gerir ráð fyrir að sveitarfélög geti framselt rekstur hafna til annars rekstrarforms`` --- þ.e. hlutafélagsformsins. --- ,,Gert er almennt ráð fyrir að slíkt félag verði áfram í eigu viðkomandi sveitarfélags en þó eru í frumvarpinu engar takmarkanir settar á að sveitarfélög geti síðar selt hlut sinn öðrum aðilum.``

Herra forseti. Það er verið að opna fyrir fullkomna hlutafélagavæðingu og einkavæðingu á höfnunum ef þannig ber undir.

Annar minni hluti getur ekki fallist á þessa einkavæðingarhugmyndafræði sem teygir sig sífellt lengra inn á svið almannaþjónustunnar.

Loks gagnrýnir 2. minni hluti þá tæmandi sundurliðun gjaldheimilda sem finna má í 17. gr. frumvarpsins. Greinilegt er að ákvæðið er eingöngu sniðið að stórum umsvifamiklum höfnum og ljóst að smærri hafnir eiga óhægt með að sundurliða og kostnaðargreina gjöld sín eins og krafist er. Þá er ljóst að tæmandi talning gjaldheimilda getur verið mjög heftandi í starfsemi hafna.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir nál. sem ég stend að um frv. til hafnalaga og vil víkja betur að nokkrum þeim atriðum sem komið er inn á í nál.

Ég hef gert að sérstöku umtalsefni þá heimild sem frv. felur í sér til hlutafélagavæðingar hafnanna og það að gera höfnum skylt að keppa innbyrðis um gjaldskrá. Að mínu mat þurfa fiskihafnirnar í sjávarbyggðunum á Vestfjörðum eða Norðurlandi vestra ekki mest á því að halda nú að fá rétt til að keppa um viðskiptin. Ég tel það þeim reyndar mjög hættulegt.

Í umfjöllun um þetta frv. var vikið að því hvernig þessu væri háttað erlendis, t.d. í nágrannalöndunum. Mig minnir að vitnað hafi verið til Danmerkur og þá komið fram að aðeins örfáar hafnir, ein, tvær eða þrjár hafnir í Danmörku, teldust af þeirri stærð að það réttlætti að þær kepptu á samkeppnismarkaði. Aðrar hafnir landsins voru taldar of litlar en það stór og mikilvægur hluti af grunnþjónustu viðkomandi svæða, með svæðisbundna þjónustu, að það væri engan veginn í takt við verkefni þeirra og stöðu að láta þær keppa á samkeppnismarkaði.

Hvað skyldum við segja, í þeirri stöðu sem hafnirnar eru hér á landi? Það má kannski segja að tvær eða þrjár hafnir hér séu af þeim stærðarflokki að hægt væri að segja að þær gætu verið á samkeppnismarkaði með rekstur sinn. Allar hinar hafnirnar veita að stórum hluta staðbundna þjónustu og eiga ekkert erindi inn í það umhverfi sem þeim er heimilt að fara inn í samkvæmt frv. Það er svo, herra forseti, að þó að menn segi að þetta sé bara heimild og hafnir taki upp þetta rekstrarform, hlutafélaga- og samkeppnisformið ef þær vilja, þá mun það óneitanlega leiða til þess að fari ein af stað þá munu hinar verða að taka upp sama form til þess að geta slegist á sama plani. Þannig er það nú bara. Fögur orð og góðar væntingar um að menn sjái að sér og nýti sér ekki þessar heimildir gilda ekki þegar út á völlinn er komið.

Ég vil vekja athygli á því að þetta lagafrv. kveður á um stærðarflokkun hafna og að sú flokkun ráði m.a. ríkisstyrkjum og öðru sem lýtur að stofnkostnaði og rekstri þeirra. Nú er það svo að sveitarfélög hafa verið að sameinast og stofnuð hafa verið hafnasamlög þar sem fleiri en ein höfn, hafnir af mismunandi stærð hafa verið innan vébanda sveitarfélagsins. Sú staðreynd að hafnir af mismunandi stærð myndi eitt hafnasamlag getur í sjálfu sér komið niður á stöðu þeirra gagnvart ríkisframlögum.

Í 14. gr. frv., um hafnasamlög, er kveðið á um að hafnasamlög, samsett af mismunandi stærð af höfnum, geti átt rétt á ríkisstyrk miðað við fyrri stærð þeirra í allt að fimm ár frá því að sameining tekur gildi þrátt fyrir að hafnirnar falli undir hafnasamlag yfir viðmiðunarmörkum um stærðir hafnargarða varðandi ríkisframlögin. Þarna er gefinn fimm ára aðlögunartími.

Það er svo sem gott og blessað að fá aðlögunartíma. En fimm ára aðlögunartími breytir í sjálfu sér engu í eðli byggðarinnar nema ætlunin sé að nota þann tíma til að leggja niður einstakar hafnir. Fimm ár breyta vonandi ekki því að einstök byggðarlög leggi af hafnir sínar og starfsemi. Í grundvallaratriðum er þessi grein og þessi ráðstöfun íþyngjandi fyrir þá sem vildu finna hagræðingu eða rekstrarlega betri forsendur fyrir að sameina hafnirnar í eitt hafnasamlag. Þessi grein er því til trafala.

Hin greinin sem ég benti á, um innheimtu á gjöldum, er afar nákvæm sundurliðun á gjöldunum. Hver höfn verður að sundurliða gjöldin mjög nákvæmlega, í einum 14 eða 15 gjaldflokkum sem: vörugjöld, farþegagjald, leigugjald fyrir svæði, gjald fyrir geymslu, leigugjöld fyrir afnot af mannvirkjum, leyfisgjöld fyrir bryggjur og önnur mannvirki, lóðargjald og lóðarleiga, hafnsögugjöld, gjöld fyrir þjónustu dráttarbáta, festargjöld, gjöld fyrir sölu á vatni og rafmagni, sorpgjöld, vigtargjald og umsýslugjald.

Ég skil vel nauðsyn þess að halda þessum gjaldflokkum aðgreindum í rekstri stórra hafna. En ég sé ekki þörfina fyrir það í rekstri hinna smáu fiskihafna þar sem einungis er veitt grundvallarþjónusta við fiskiskipaflotann og í mesta lagi eitt strandferðaskip. Strandsiglingarnar eru reyndar að leggjast af þannig að sú starfsemi hafnanna fer minnkandi. Þetta er fyrst og fremst staðbundin þjónusta á höfnunum við atvinnulífið á staðnum. Þó að svona sundurliðun geti fallið að einhverjum risahöfnum þá passar hún að mínu mati engan veginn við litlar fiskihafnir sem eru bara þjónustuhafnir fyrir sitt svæði.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir nefndaráliti mínu við frv. til hafnalaga. Ég tel þá grundvallarhugsjón sem þar er höfð að leiðarljósi ranga, að hafnir vítt og breitt um landið skuli reknar á samkeppnisgrunni, keppa um viðskiptin, heimilt skuli að einkavæða þær og setja á hlutafélagamarkað. Ég tel þetta ranga nálgun og er andvígur henni. Hafnirnar eiga að vera þjónustustofnanir, þjónustumannvirki fyrir atvinnulíf og búsetu á viðkomandi stöðum fyrst og fremst. Í þeirri þjónustu á arður þeirra að vera fólginn, þ.e. gagnvart atvinnulífinu í landinu öllu. Ekki skal þó dregin dul á að ýmis atriði önnur í þessu frv. til hafnalaga eru þörf, tímabær og í takt við nýjar og breyttar aðstæður.