Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:32:29 (5095)

2003-03-14 12:32:29# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:32]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að hv. þm. Jón Bjarnason sé þarna með prinsippatriði sem hann telur að ekki falli að stefnu stjórnmálaflokks síns. Að öðru leyti mátti skilja á máli hans að hér væri ný framtíð, ný stefna og mál sem væri allrar athygli vert hvað áhrærir rekstur hafna.

Við höfum farið vel yfir málið og 17. gr. hafnalagafrumvarpsins en í henni er upptalningin á gjöldunum. Við höfum líka skoðað 7. gr. sveitarstjórnarlaganna þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.

Sveitarfélög skulu setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra.``

Herra forseti. Þetta er mál sem lögfræðingar sem grannt hafa skoðað segja að standist tæplega. Nú eigi öll gjaldtaka hins opinbera að vera sýnileg og hún eigi að vera ákveðin hér, á Alþingi. Því máli ýttum við þá út af borðinu og töldum eðlilegt að áfram stæði 17. gr., svo breytt, eins og nú er í frv. til hafnalaga. Það má auðvitað deila um þetta en hins vegar erum við að fara eftir þeirri meginstefnu sem Alþingi hefur markað og mótað, þ.e. að öll gjaldtaka skuli vera sýnileg, hún skuli vera lögfest þannig að menn séu ekki að ganga lengra en heimildir segja til um.