Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:34:35 (5096)

2003-03-14 12:34:35# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:34]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni um það að gjaldskrá skuli vera sýnileg. Þegar rekstur er kominn í samkeppni og stærðargráðu sem stendur undir mikilli sundurliðun er alveg sjálfsagt að gera það. Þessi grein sem kveður á um svo gríðarlega mikla sundurliðun á hafnargjöldum segir okkur kannski það að nánast engin höfn á Íslandi fellur að þessu munstri. Það munstur sem þarna er verið að draga upp hentar fyrir stórar hafnir með fjölþættri starfsemi og fjölþættri þjónustu á samkeppnismarkaði í Evrópu, Asíu eða þar sem samkeppnisumhverfið er allt annað og getur hiklaust átt rétt á sér. En við okkar íslensku aðstæður er það þannig að rekstur á þessum litlu fiskihöfnum, þjónustuhöfnum vítt og breitt um landið, sem eru fyrst og fremst til þess að þjóna viðkomandi atvinnulífi en ekki að standa í samkeppnisrekstri við að fá skip í viðskipti frá Frakklandi, Belgíu, Hollandi eða Lúxemborg eða hvaðan sem er, það væri ekki þeirra vettvangur, rekstur þessara litlu fiskihafna þjónar atvinnulífi á viðkomandi nærsvæði. Og þá er að mínu mati, herra forseti, sundurliðun eins og þarna er verið að tína til fullkomlega óþörf og hindrandi og hentar engan veginn og undirstrikar kannski betur en nokkuð annað að lagasetning á grunni þessarar hugmyndafræði hvað þetta varðar hentar alls ekki við íslenskar aðstæður.