Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 12:39:14 (5098)

2003-03-14 12:39:14# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[12:39]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla um hvort ríkisstjórnin sé góð eða slæm. Hún reynir vafalaust að vinna verk sín út frá sínum forsendum. Ég tel svo sem allt í lagi að skipta henni út en það er ekki mál þessa frumvarps, a.m.k. ekki í bili.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að í frv. er margt gott lagt til til þess að draga úr þeirri hættu og þeim ágöllum sem felast í því að taka upp samkeppni og hlutafélagavæðingu í höfnunum. Það er alveg hárrétt, og alveg skylt og sjálfsagt að taka undir það. Eftir stendur sú hugmyndafræði að baki óbreytt til lengri tíma að hafnirnar, þessar litlu þjónustuhafnir vítt og breitt um landið, eiga að fara að keppa innbyrðis um þjónustuna á grundvelli þess verðs sem þær geta boðið. Nú eru þær að keppa um að halda viðskiptum, að einhverjir geri út frá stöðunum, að viðskiptin fari ekki burt. Og ég hefði ekki trúað því að þeir styrki í sjálfu sér fjárhagsgrundvöll sinn þótt þeir fái heimild til þess að bjóða niður gjöldin við næstu höfn.

Herra forseti. Það fyrirkomulag sem hér er lagt til hentar að mínu mati engan veginn við íslenskar aðstæður og getur orðið byggð, búsetu og rekstri hafna vítt og breitt um landið hættulegt þegar til lengri tíma er litið.