Hafnalög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 14:34:33 (5104)

2003-03-14 14:34:33# 128. lþ. 101.27 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Sínum augum lítur hver á silfrið. Ég vísa nú til þeirrar útbreiddu andstöðu sem er við frv. og þeirrar tortryggni sem það mætir víða að af landsbyggðinni þar sem menn hafa verið að skoða þetta og reyna að spá í þá framtíð sem þarna væri að teiknast upp fyrir þeirra hönd. Það er bara ósköp einfaldlega grundvallarágreiningur uppi um túlkun þessa máls. Ég held að hæstv. samgrh. verði að horfast í augu við það að þannig er það. Það sem við höfum auðvitað alveg sérstaklega verið að gagnrýna, það er rétt hjá hæstv. ráðherra, er að við teljum að með þessu sé verið að ryðja brautina fyrir einkavæðingu. Það er sannanlegt og óhrekjanlegt. Verið er að opna fyrir það að þessi rekstur færist yfir í algert einkarekstrarform, hlutafélög, þar sem einkaaðilar geti verið að stunda þennan rekstur og draga arð út úr starfseminni og allt hvað er, samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. En hvað kemur í framhaldinu? Það koma árekstrar. Menn fara að vitna í samkeppnislög. Og þetta verður notað til þess að brjóta niður hinn félagslega rekstur, hina félagslegu hugsun.

Hæstv. samgrh. hlýtur að vita hvernig þetta gengur alltaf fyrir sig, hvernig þetta er gert. Það ætti engum að koma á óvart að menn séu orðnir tortryggnir á einhverjar yfirlýsingar og loforð um að þetta sé nú allt saman svona saklaust og meinlaust og ekki standi til að selja og ekki standi til að einkavæða. Hvenær hefur eitt einasta atriði sem ríkisstjórnir Sjálfstfl., fyrst með krötunum og síðan með Framsókn, hafa lofað af þessu tagi staðist? Aldrei. Því var lofað að hreyfa ekki við Pósti og síma fyrstu fjögur árin. Það loforð var ekki orðið kalt þegar hjólað var í hann. Því var lofað að selja ekkert í ríkisbönkunum fyrstu fjögur árin, bara breyta þeim í hlutafélög, kannski bjóða út nýtt hlutafé. Ekki orðin köld yfirlýsingin þegar byrjað var að undirbúa að svíkja hana, o.s.frv. Þannig að allur þessi ferill er varðaður blekkingarleik af þessu tagi. Það er alveg á hreinu að við erum löngu hætt að taka nokkurt mark á svona löguðu.