Fjáraukalög 2003

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 19:01:15 (5147)

2003-03-14 19:01:15# 128. lþ. 101.17 fundur 653. mál: #A fjáraukalög 2003# (aðgerðir í atvinnu- og byggðamálum) frv. 58/2003, Frsm. meiri hluta ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 128. lþ.

[19:01]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. fjárln. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003 vegna aðgerða í atvinnu- og byggðamálum.

Með frumvarpinu er lagt til að útgjöld árið 2003 aukist um 4.700 millj. kr. og verði samtals 264,8 milljarðar kr. Er það í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar um átak í atvinnu- og byggðamálum frá 11. febrúar sl. með það að markmiði að efla atvinnutækifæri fram til þess tíma er áhrifa stóriðjuframkvæmda fer að gæta til fulls. Framlög til vegamála aukast um 3 milljarða kr., 1 milljarður kr. rennur til að framkvæma áætlun um menningarhús og fé til atvinnuþróunar er aukið um 700 millj. kr.

Eins og ég gat um er hér verið að koma til móts við marga þá sem búa við það böl að vera atvinnulausir eða hafa ótrygga atvinnu. Það er einlæg trú mín að verði þetta frv. að lögum þá muni það fjárframlag sem kemur frá ríkisvaldinu reynast bæði einstaklingum og þjóð til blessunar og hagsbóta.