Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 14. mars 2003, kl. 23:31:35 (5184)

2003-03-14 23:31:35# 128. lþ. 102.37 fundur 622. mál: #A sveitarstjórnarlög# (fjármálastjórn o.fl.) frv. 74/2003, SJS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[23:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég rita undir nál. félmn. með fyrirvara eins og hér kom fram áðan hjá formanni og framsögumanni nefndarinnar. Á fyrirvaranum er sú skýring að talsverður hluti ákvæða þessa frv. tengist ákaflega umdeildri þróun eða ákaflega umdeildum hlutum sem eru talsvert á dagskrá hjá sveitarstjórnum um þessar mundir, þ.e. sem sagt að velja leið einkavæðingar eða einkafjármögnunar eða einkarekstrar í ákveðnum tilvikum, jafnvel þegar í hlut á lögboðin þjónusta, skylduverkefni sveitarfélaganna. Varðandi þau atriði hefði ég getað hugsað mér að kveðið væri miklu fastar á í lögum og með skýrari hætti t.d. um svigrúm sveitarfélaganna til þess að láta yfir höfuð úr sinni eigu fasteignir sem eru nauðsynlegar til þess að unnt sé að tryggja hina lögbundnu þjónustu, eins og húsnæði fyrir grunnskóla eða annað í þeim dúr.

Hitt er annað að ákvæði þessa frv., og sérstaklega með þeim breytingum sem félmn. leggur til, eru í öllum greinum til bóta gagnvart því ástandi sem skapast velji sveitarstjórnir að fara þessar leiðir. Það er alveg ljóst að öll viðleitni frv. og sérstaklega brtt. nefndarinnar og þær lögskýringar sem koma fram í nál. eru að mínu mati verulega mikils virði og til bóta hvað það varðar að það liggi alveg ljóst fyrir og skýrt að hugsun löggjafans og vilji er sá að sveitarfélög láti aldrei úr sinni hendi möguleikann á því að taka til sín á nýjan leik aðstöðu, fasteignir, húsnæði, sem þeim er nauðsynlegt að hafa forræði á til að geta sinnt sínum lögbundnu skyldum. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði, herra forseti, og nægir að minna t.d. á vandræðagang sem tengst hefur einkavæðingar- eða frjálshyggjutilraunum hjá einstökum sveitarfélögum á undanförnum missirum, svo maður fari nú ekki út fyrir landsteinana og nefni t.d. ósköpin sem íbúar bæjarfélagsins Farum í Danmörku urðu fyrir þegar þeir höfðu lent í klónum á pólitík af þessu tagi um nokkurt árabil.

Allar reglur frv. og þær breytingar sem félmn. leggur til eru sem sagt tvímælalaust til bóta. Þær ættu að tryggja ábyrgari meðferð þessara mála að breyttu breytanda út frá því hvaða leiðir einstakar sveitarstjórnir velja. En ég áskil mér fullan rétt til þess að fylgja því eftir þó síðar verði að inn í sveitarstjórnarlög komi ósköp einfaldlega hrein og bein ákvæði sem dragi mörkin þar að eignir og aðstaða, sem eru forsenda þess að sveitarfélög geti ábyrgst og sinnt sínum lögbundnu skyldum, skuli vera í þeirra höndum og þar dragi menn mörkin.

Gagnvart öðrum þáttum í starfsemi sveitarfélaganna gegnir verulega öðru máli þegar ekki er um rekstur að ræða sem flokkast undir þeirra lögbundnu skyldur. En þessar breytingar eru þó til bóta miðað við ástandið eins og það er í dag og þess vegna styð ég þær.