2003-03-15 00:45:50# 128. lþ. 102.34 fundur 715. mál: #A tollalög# (landbúnaðarhráefni) frv. 80/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[24:45]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það kom í ljós að hv. þm. gat ekki bent á þessi tvö lykilorð í ræðu sinni áðan, ,,hreindýrakjöt`` og ,,Grænland``. Þvert á móti liggur fyrir og kom fram í máli hans að hér er ekki um að ræða afmarkað mál um eina kjöttegund sem yrði flutt inn frá einu landi, unnin hérlendis og afurðirnar seldar erlendis. Þvert á móti er um að ræða almenna heimild sem verið er að leggja til að verði opnuð en í dag er óheimilt að fella niður toll af landbúnaðarhráefni sem nýtur tollverndar á grundvelli innlendrar landbúnaðarstefnu. Hér er verið að leggja til að opna þetta algjörlega, ekki bara fyrir hreindýrakjöti heldur, eins og kemur fram í greinargerðinni, kjötvörum, mjólkurafurðum, eggjum, grænmeti o.fl. Um er að ræða mjög víðtæka heimld og hún er svo víðtæk að hún afmarkast ekki við að hið innflutta hráefni verði selt sem fullunnar vörur erlendis. Heimildin nær til þess einnig að menn geti selt þetta innflutta hráefni þegar búið er að vinna úr því hér á innanlandsmarkaði.

Mig langar að spyrja hv. þm.: Telur hann að staðan á kjötmarkaði innan lands sé með þeim hætti að rétt sé að bæta við, flytja inn hráefni og bæta við til sölu á innanlandsmarkaði? (Gripið fram í.) Telur hv. þm. að það sé það besta sem hann geti gert fyrir landbúnaðinn í dag? (DrH: Þetta er til útflutnings og það veit hv. þm.)