2003-03-15 01:47:22# 128. lþ. 102.20 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[25:47]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ástæða til að minna á það og ég geri engar athugasemdir við það að forseti nefni þetta, en hins vegar kom þingmaðurinn í ræðu sinni inn á þennan þátt og rakti hann. Það var athugasemdalaust af hálfu forseta þannig að þetta var hluti af ræðu hans og af því sem fram kom í máli hans og því eðlilegt að gera athugasemdir við það ef ástæða þykir til. Og mér þykir það í þessu tilviki þar sem í ummælum þingmannsins fólst sú skoðun að á þá starfsmenn sjúkrahúsa eða heilbrigðisstofnana sem þar starfa og eru búsettir úti á landi sé ekki litið sem heimamenn.

Mér finnst, herra forseti, hins vegar sjálfsögð sú breyting sem lögð var til. Það fyrirkomulag sem verið hefur til þessa er þannig að sveitarstjórnir hafa skipað þær stjórnir, þrjá eða fjóra af fimm, og ráðherra aðeins skipað einn. Sveitarstjórnirnar hafa ekki borið neina ábyrgð á rekstrinum, þær hafa ekki lagt neitt til rekstrarins en borgað hluta af stofnkostnaði.

Þegar samið er um það að sveitarfélögin hætti að leggja nokkuð fram í stofnkostnað þá sé ég ekki nokkra ástæðu til þess að meiri hluti stjórnar sé skipaður af aðila sem ber enga ábyrgð á rekstrinum. Auðvitað á sá aðili sem ber ábyrgð á rekstrinum og fulltrúi þess sem borgar hann að skipa þessa aðila og samkvæmt lögum ræður hann framkvæmdastjóra þannig að þetta eru trúnaðarmenn hans og eðlilegt að þeir verði það í þessu.