2003-03-15 01:50:56# 128. lþ. 102.20 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[25:50]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef orðið var við það hjá þeim sem hafa hlustað á hv. 3. þm. Norðurl. v., Kristján L. Möller, að hann hefur komið því vel til skila að hann er landsbyggðarþingmaður, ég óska honum til hamingju með það. (KLM: Þakka þér fyrir.)

Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna til nál. 1. minni hluta samgn., en þar segir:

,,Engar forsendur eru fyrir því nú að samþykkja lög sem gera ráð fyrir að þessar hafnir keppi sín á milli með þeim hætti sem fyrirhugað er. Í frumvarpinu felst að stjórnvöld treysta sér einfaldlega ekki til að tryggja búsetu í byggðum landsins né hafa þau dug í sér til að taka ákvörðun um það hvaða byggðir skuli lifa og hverjar ekki. Þess í stað á að etja þeim saman á ógeðfelldan hátt. Slík vinnubrögð eru þinginu ekki sæmandi og því leggst 1. minni hluti gegn því að frumvarpið verði samþykkt.``

Nú langar mig til, herra forseti, að spyrja hv. þm. hvort í eftirfarandi orðum að hafa ,,dug í sér til að taka ákvörðun um það hvaða byggðir skuli lifa og hverjar ekki`` felist fyrirheit Samfylkingarinnar um að hún hafi leyniskýrslu um það hvaða byggðir hún vill að lifi og hvaða byggðir hún vill að deyi hér á landi. Ef það er ekki skilningurinn þá er þetta undarleg orðnotkun.