2003-03-15 02:12:02# 128. lþ. 102.20 fundur 661. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv. 61/2003, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 128. lþ.

[26:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í þessari grein frv., 3. tölul. 8. gr., eru þau ákvæði sem hvað umdeildust hafa verið, a.m.k. af hálfu okkar, þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þar sem opnað er fyrir þann möguleika að færa rekstur hafna yfir í einkahlutafélög eða yfir í hlutafélagaform og fela þann rekstur einkaaðilum. Það er augljóst mál að það er mikil grundvallarákvörðun að fara inn á þá braut en samkvæmt gildandi lögum hefur þetta verið samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og alfarið opinber þjónusta.

Það hefði verið til mikilla bóta, herra forseti, ef það hefði náðst fram að fella út þessi umdeildu ákvæði vegna þess að önnur atriði, sem vissulega eru mörg og umdeilanleg í frv., eru fæst þess eðlis að þar sé um grundvallarstefnubreytingu að ræða af því tagi að ekki mætti lagfæra það enda sum þeirra þannig úr garði gerð að þau eiga ekki að koma til framkvæmda fyrr en jafnvel að fimm árum liðnum. Ég harma það, herra forseti, að ekki skyldi takast að lenda málinu þó þannig sem til bóta hefði verið, að þetta umdeilda atriði færi út. Ég greiði að sjálfsögðu atkvæði gegn þessu ákvæði.