Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:24:05 (43)

2002-10-03 11:24:05# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:24]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað skiptir matarverð miklu máli fyrir allar þjóðir. Þess vegna er eðlilegt að mál sem þessi séu rædd hér á Alþingi. Hins vegar kemur fram, í því máli sem hér hefur verið lagt fram, að upplýsingarnar og tölurnar eru orðnar úreltar. Upplýsingarnar í þessu máli eru of gamlar og þess vegna þarf kannski að endurvinna upplýsingarnar í þessari þáltill.

Ég vil nefna að sl. vetur voru hér á Alþingi gerðar stórkostlegar breytingar varðandi grænmeti þar sem allir tollar voru felldir niður --- allir tollar, bæði GATT-tollar og krónutollar. Þannig er orðin mikil breyting á þeim bænum hvað þetta varðar. Að auki voru engir tollar á ávöxtum, GATT-tollar hafa aldrei verið á ávöxtum í þessum töflum. Þarna hefur orðið gríðarleg breyting. Auk þess vil ég minna á að samstarf hefur náðst milli ASÍ og aðila sem áttu aðild að aðlögunarsamningi þeim sem samþykktur var hér á þingi í fyrra um að gera verðkannanir á vegum ASÍ. Þeim hefur verið falið að sjá um það. Þær verðkannanir munu sannarlega leiða í ljós að þessir vöruflokkar hafa lækkað í verði. Til þessa held ég að við verðum að taka tillit og fara eftir.