Velferð barna og unglinga

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 13:42:49 (91)

2002-10-03 13:42:49# 128. lþ. 3.95 fundur 134#B velferð barna og unglinga# (umræður utan dagskrár), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[13:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Undanfarið hafa borist úr ýmsum áttum alvarlegar vísbendingar um aðbúnað og líðan fjölda barna og ungmenna. Nýlegar kannanir benda til að kynferðisleg misnotkun á börnum sé meiri hér en áður var talið. Fleiri falla fyrir eigin hendi en í umferðarslysum og sjálfsvígstilraunum ungmenna fer fjölgandi. Brottfall er meira úr framhaldsskólum en í nágrannalöndum okkar og einelti er viðvarandi vandi. Við þessu verður að bregðast.

Niðurstöður nýlegrar rannsóknar á kynferðislegri misnotkun á börnum hér á landi eru ískyggilegur vitnisburður um þjóðfélagsmein sem uppræta verður með öllum tiltækum ráðum. Á hverju ári er sálarheill og hamingju fjölda ungmenna stefnt í voða vegna misnotkunar sem oftar en ekki liggur í þagnargildi. Það er skylda stjórnvalda að bregðast við þessum niðurstöðum með ábyrgum hætti og fagna ég áhuga félmrh. á því.

Alþingi hefur samþykkt að mótuð skuli heildarstefna í málefnum barna og unglinga. Þeirri vinnu verður að hraða. En stefnumótun dugar þó skammt ef foreldrum er ekki gert kleift að veita börnum sínum viðunandi aðbúnað og viðurværi. Góð lífsskilyrði í uppvexti er mikilvægur þáttur fyrir líðan barns. Það er óþolandi og okkar velferðarsamfélagi til vansa að foreldrar skuli þurfa að bíða í röðum eftir aðstoð líknarfélaga og hjálparstofnana til að geta búið börn sín skammlaust í skólann. Bág kjör fjölda barnafólks, einstæðra foreldra og ekki síst öryrkja og barna þeirra er stór hluti vandans. Á honum verða stjórnvöld að taka þegar í stað.