Fjárlög 2003

Föstudaginn 04. október 2002, kl. 12:33:56 (130)

2002-10-04 12:33:56# 128. lþ. 4.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2003# frv., ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 128. lþ.

[12:33]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. sem hér talaði hóf mál sitt á að geta um þann tíma sem fjárln., þingflokkar og Alþingi hafa til að gaumgæfa frv. áður en það kemur til 1. umr. Það má vel skoða og ræða hvort lengja eigi tímann frá því að frv. er lagt fram þar til það kemur til 1. umr. Mér finnst það umræðunnar virði.

Hv. þm. sagði hins vegar að flokkur hans, Frjálslyndi flokkurinn eða fulltrúar hans, hefðu enga aðild átt að fjárlagafrv. Rétt er að þeir komu ekki að gerð þess en ég vil láta það koma fram í umræðunni að fulltrúi Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, hefur fengið fulla áheyrnaraðild að fjárln. og því sem þar hefur farið fram. Hann hefur setið þá fundi síðustu daga eins og aðrir þingmenn í fjárln. og hefur því sömu möguleika og við hin til að kynna sér frv.

Um forsendur fjárlagafrv. og þá óvissu sem ég taldi að ríkti þar um vil ég endurtaka að þar gat ég um uppsagnir Íslenskrar erfðagreiningar. Ég gat um áhrif stóriðjuframkvæmda, sem koma að sjálfsögðu til tekna og síðan hugsanleg ytri áhrif, svo sem vegna styrjaldar sem gæti brostið á í Írak og efnahagsþróun í nágrannalöndum á viðskiptasviði. Þetta voru þau atriði sem ég nefndi. Auðvitað má telja upp fleiri atriði en ég vil endurtaka þessi til glöggvunar við umræðuna.