Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:37:09 (282)

2002-10-07 15:37:09# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KÓ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:37]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Í síðustu viku ræddum við þáltill. á þskj. 3, mál nr. 3, um matvælaverð. Í þeirri umræðu ræddi ég nokkuð um það að frá Alþingi hefðu á sl. vetri verið afgreidd lög um lækkun á grænmetisverði. Þegar ég skoða betur þau fylgigögn sem þessari þáltill. fylgja kemur í ljós eins og raunar kom að hluta til fram í umræðunni í síðustu viku að stuðst er við framreiknaðar tölur frá árinu 1998 og í þeim framreikningi kemur greinilega fram mikil hækkun á matvælaverði á Íslandi. Jafnframt kom fram í umræðunni að það kynni að vera vegna gengisbreytinga sem hér voru á þeim tíma. En nú hef ég leitað mér frekari upplýsinga um þetta mál og náði í upplýsingar frá Eurostat þar sem til eru rauntölur til 2001, ekki framreiknaðar tölur frá 1998 heldur rauntölur þeirra 15 Evrópusambandslanda sem áður var getið í þáltill. Þá kemur í ljós að þessi mismunur er ekki nærri svo mikill sem haldið er fram í þeirri þáltill. sem hér hefur verið kynnt og sýnir það að mínu mati nokkuð að þetta mál hefur verið hroðvirknislega unnið af hálfu þeirra sem fluttu tillöguna á Alþingi og þyrfti í raun að lagfæra greinargerð tillögunnar til samræmis við rauntölur Eurostat en þær eru mun lægri.

Í umræðunni í síðustu viku kom lítt fram um gæði hinnar íslensku matvöru og hins innlenda þáttar matvörunnar. Mér fyndist eðlilegt að fjallað væri um það nokkrum orðum að þegar við erum að bera saman verð þá verðum við að bera saman gæði vörunnar. Ég held að óyggjandi sé að íslenska varan tekur um margt fram þeirri vöru a.m.k. sem kemur frá Suður-Evrópuríkjunum.

Þá hefur ekki komið nógu skýrt fram í þessu máli að virðisaukaskattur á matvöru innan þessara 15 Evrópusambandslanda er mjög mismunandi allt frá því að vera nánast við núllið og upp í 25% og sá þáttur skiptir auðvitað máli og hefði þurft að koma fram nákvæmar en í þáltill.

Samkeppnisstofnun hefur gert ýmsar úttektir og verðkannanir hér á landi undangengin ár sem ég hef lítils háttar kynnt mér og það væri full ástæða til að koma þeim þætti málsins inn í tillöguna þannig að hún sé þá víðtækari og frekari upplýsingar þar inni. Þá væri í raun jafnframt svarað mörgum þeirra spurninga sem spurðar voru í síðustu viku.

Einnig kom fram í umræðunni að ekki væri sama í hvaða löndum við værum að bera saman annars vegar matvælaverð og hins vegar laun. Það kemur í ljós í gögnum sem ég hef aflað mér að því hærri sem launin eru í hinum 15 þjóðlöndum sem miðað er við þeim mun hærra er matarverðið. Það háttar þannig til að hér erum við með tiltölulega há laun og hátt matvælaverð og í þessu riti erum við með tiltölulega há laun og hátt matarverð. Við getum farið til landa eins og Póllands og Tyrklands þar sem eru lág laun og lágt matarverð. Þannig verðum við að bera þetta saman og það hefði verið hyggilegt að þetta hefði fylgt þáltill. þannig að við værum með öll gögn málsins saman komin.

Ég vil vitna enn og aftur til þeirrar umræðu sem varð í síðustu viku en þá nefndi hv. þm. Kristján Möller að flutningskostnaður hefði veruleg áhrif á matvælaverð hér á landi. Ég hygg að það sé alveg rétt og það þurfi að íhuga frekar. Vil ég í því sambandi minna á ferð sem hv. iðnn. fór til Sauðárkróks, en á fundi þar með fulltrúum frá Byggðastofnun o.fl. kom skýrt fram að Evróputilskipun, svokölluð vökulög sem voru samþykkt hér á hinu háa Alþingi, gera það að verkum að flutningskostnaður hefur hækkað um a.m.k. 7%. Sumir tala um 10% vegna þessara tilteknu laga sem við erum að framfylgja. Þetta á jafnframt við um fleiri flutningsleiðir, fleiri en langferðabifreiðir. Þetta á jafnt um hópferðarekstur þeirra sem reka hópferðabíla og annarra. Þeir hafa þurft að taka á sig kostnaðarhækkanir vegna þessa.

Svo ég vitni enn einu sinni í umræðuna í síðustu viku þar sem talað var um fólk sem hefði minna á milli handa, þá vil ég minna á það í þessari umræðu að nú á haustmánuðum stendur yfir sláturtíð. Það er einhver alódýrasti matur sem okkur Íslendingum gefst kostur á að kaupa og við höfum lifað á í gegnum aldir. Nú háttar svo til að fólk kaupir ekki slátur og tekur ekki slátur nema að litlu leyti og því er nánast fleygt. Ég vil benda því ágæta fólki á, hvort sem það hefur mikið eða lítið milli handa, að með því að sýna hagsýni í innkaupum og nýta ódýra matvöru er hægt að bæta margt í sínu heimilishaldi.

Í umræðunni kom jafnframt fram hvað væri til úrbóta til að ná matarkostnaði niður. Ég vil varpa því fram til flutningsmanns hvort sú hugmynd væri ekki athugunar verð að hér væri komið upp mörkuðum, þ.e. mörkuðum beint frá bændum til neytenda þannig að við gætum hreinlega sparað milliliðakostnað sem er greinilega mjög hár í landinu.

Að lokum vil ég, herra forseti, fagna þessari umræðu. Ég vænti þess og vona að hún megi skila okkur fram varðandi matarverð, en ég vil að hún sé fagleg og að farið sé vel í saumana á þessu máli.