Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 15:52:46 (287)

2002-10-07 15:52:46# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér hefur verið fjallað þó nokkuð mikið um þessa tillögu og ég held að megi segja að allflestir eða allir ræðumenn séu í sjálfu sér jákvæðir gagnvart henni.

En ég vil undirstrika og taka undir með þeim sem benda á nauðsynina á því að útvíkka sjónarhornið sem unnið er út frá. Menn hafa komist að því að vöruverð er miklu hærra hér og öll viljum við lægra vöruverð í landinu, það gefur augaleið. Það er sameiginlegt markmið allra en þá er það spurningin um aðferðafræðina við að gera það.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, flm. tillögunnar, benti á að það þyrfti að fara í stjórnvaldsaðgerðir. Það liggur nú kannski fyrir í dag hverjar sumar af þessum stjórnvaldsaðgerðum þyrftu að vera því að allflestir hafa bent á flutningana sem eru gríðarlega dýrir í svona stóru landi. Það er til aðferð við að takast á við þann vanda, t.d. vegur flutningskostnaðurinn þungt í vöruverði.

Menn hafa bent á og ég nefndi í umræðunni þá gríðarlegu fjárfestingu sem hefur verið í verslun hér. Auðvitað lendir það á á neytandanum að fjármagna slíkt og það eru gríðarlegar fjárfestingar eins og þjóðin veit sem við höfum farið í hvað varðar verslunina.

Í þriðja lagi er það vinnsla afurðanna og þar hafa nú heldur betur orðið tilþrif á síðustu missirum, t.d. hvað varðar sameiningu mjólkurbúa, búið er að taka gríðarlegan pening út úr afurðastöðvunum af fyrri eigendum, sláturhús hafa farið á hausinn o.s.frv., þannig að þar liggja náttúrlega gríðarlegir peningar sem leggjast á pyngju neytandans.

Ég tek því undir, virðulegi forseti, með þeim sem telja nauðsyn á því að breikka þessa umræðu þannig að við getum tekið á öllum þeim póstum sem augljóslega samkvæmt könnunum og úttektum eru að langmestu leyti innanríkisvandamál hér vegna þess að eins og fram hefur komið í umræðunni er innflutt landbúnaðarvara sem er keypt á heimsmarkaði til landsins ekki hlutfallslega lægri. Það má segja að innflutta varan standi heldur betur samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram. Það er því margt sem bendir til þess að taka þurfi til hendinni að langmestu leyti hér heima fyrir og ég vil árétta að það er fjárfestingaþátturinn, flutningskostnaðarþátturinn og úrvinnsluþátturinn sem þarf að ráðast á hvað þetta varðar.

Að öðru leyti vil ég segja, virðulegi forseti, að ég fagna því að þessi tillaga er komin fram og auðvitað, eins og ég sagði áðan, styðja allir vinnu sem miðar að því að koma niður vöruverði í landinu þannig að það verði til hagsbóta fyrir landsmenn alla og alla neytendur hér.