Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:14:03 (292)

2002-10-07 16:14:03# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:14]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil það núna að þingmaðurinn hefur alveg misskilið þingmálið sem ég er að flytja. Hann heldur að nýja könnun þurfi til að bera saman vöruverð. Það er reyndar lítil tillaga á borðinu sem ég mælti fyrir um leið og ég mælti fyrir þessu máli sl. fimmtudag og óskaði eftir að færi beint til nefndar vegna þess að það væri eðlilegt að umræðan um þessi tvö mál færi fram samtímis, um að jafnaðarlega verði borið saman vöruverð og birt opinberlega þannig að við getum fylgst með því hvernig staðan er hjá okkur. Samanburðurinn snýst um Norðurlönd.

Herra forseti. Tillagan er um að finna út hvaða þættir það eru sem mynda vöruverðið, annars vegar í innlendri framleiðslu og hins vegar í innfluttri matvöru, og kanna hvað það er í hverjum þeim þætti sem er svo ólíkt hjá okkur að vöruverðið er eins hátt og raun ber vitni.

Herra forseti. Ef við ætlum að nálgast einhvern sannleik til þess að geta gert þær breytingar sem þarf til að okkar fólk, okkar þjóð, standi líkt að vígi og nágrannaþjóðirnar þurfum við að fá ákveðna þekkingu. Þingmálið er um þessa úttekt, ekki samanburðinn á matvælaverði. Og ég verð að geta þess, herra forseti, að samkvæmt svari hæstv. forsrh. um vísitölur á Norðurlöndunum stóð vísitalan hjá okkur árið 1990 í rúmum 90. Hún er núna komin í 121,5. Í Finnlandi stóð hún í 103. Hún er búin að hækka upp á tímabilinu en er aftur þarna, árið 2000, samkvæmt svari ráðherra, komin í 103,9. Þetta gerist núna í nágrannalöndunum. Við erum ekki að tala um Evrópu almennt eða Suður-Evrópu, heldur Noreg, Svíþjóð, Danmörku og Finnland. Og, herra forseti, öll Norðurlöndin nema Danmörk eru með 12% í virðisaukaskatt á matvöru og við með 14%. Danir eru með 25% en eru langt undir okkur í verðlagi. Þetta eru staðreyndirnar sem blasa við.