Matvælaverð á Íslandi

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 16:25:09 (297)

2002-10-07 16:25:09# 128. lþ. 5.4 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[16:25]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að hv. þm. hefði komið á fleiri staði en Siglufjörð. Mér finnst hv. þingmaður tala eins og enginn hafi farið um landið og kynnt sér hvernig aðstæður eru almennt hjá fólki. Ég veit bara að vestur á fjörðum fara Súgfirðingar núna í gegnum göng til Ísafjarðar. Þetta er mjög þægilegur ferðamáti og þar geta menn valið um margar verslanir og fengið vöruverð lægra miðað við þau útibú sem eru á þessum stöðum. Reyndar eru orðnar mjög fáar verslanir á þessum minnstu stöðum. Það er kannski ein sjoppa við hliðina á bensínstöðinni. Ég held að hv. þingmaður þekki í rauninni ekki orðið aðstæður úti á landi. Ég skora á hann að fara og kynna sér málin áður en hann heldur áfram með þann málflutning sem hann hefur haft uppi.

Það er alveg augljóst mál að hv. þm. hefur ekki hugmynd um það hvaða vegabætur hafa átt sér stað í landinu á undanförnum árum. Það eru líka göng frá t.d. Flateyri og yfir á Ísafjörð. (KLM: Hvað með Raufarhöfn?) Það er malbikaður vegur frá Súðavík til Ísafjarðar og það er búið að lagfæra veginn frá Bolungarvík þannig að þetta er mjög auðveld leið fyrir allflesta Vestfirðinga. Auðvitað eru til þeir staðir sem eru verr settir en aðrir en það er samt gríðarlega mikilvægt fyrir þá staði að geta þó leitað inn á þessa þéttbýliskjarna sem við erum örugglega sammála um að eru staðir eins og Akureyri fyrir Norðurland. Ég veit ekki annað en t.d. Siglfirðingar hafi lagt ofuráherslu á það að fá göng frá Siglufirði yfir á Eyjafjarðarsvæðið til að geta tengst Akureyri. Var það ekki til þess að fá betri þjónustu? Hver er ástæðan fyrir því að gera þessi rokdýru göng fyrir 1.500 Siglfirðinga? Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Það hlýtur að vera vegna þess að hv. þm. gerir ráð fyrir því að Siglfirðingar fái betri þjónustu, þar á meðal lægra vöruverð.