Einkavæðingarnefnd

Þriðjudaginn 08. október 2002, kl. 13:35:41 (315)

2002-10-08 13:35:41# 128. lþ. 6.4 fundur 4. mál: #A einkavæðingarnefnd# þál., Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 128. lþ.

[13:35]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Heppilegt hefði mér þótt að fulltrúar ríkisstjórnarinnar í ráðherranefndinni sem ber ábyrgð á einkavæðingarstefnunni hefðu verið viðstaddir þessa umræðu. Hér er einn þeirra, hæstv. viðskrh., og ber að þakka það. En sæti í þessari nefnd eiga tveir fulltrúar Sjálfstfl. og tveir fulltrúar Framsfl., hæstv. viðskrh. og hæstv. utanrrh., en af hálfu Sjálfstfl. eru það hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Frá því að ríkisstjórn undir forustu og forsjá Sjálfstfl. tók sér bólfestu í Stjórnarráði Íslands vorið 1991 hefur eitt mál verið á dagskrá öðrum fremur. Einkavæðing, sala ríkiseigna og markaðsvæðing opinberrar þjónustu. Ekki kemur mér til hugar að alhæfa um alla einkavæðingu, ekki heldur þá sem ríkisstjórnir undir forustu hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar hafa framkvæmt. Fyrirtæki sem sett voru á laggirnar með félagslegu átaki fyrr á tíð geta þannig vel átt heima á markaði þegar fram líða stundir. Sala á Gutenberg-prentsmiðjunni, SR-mjöli og Áburðarverksmiðjunni var ekki umdeild sem slík heldur fyrst og fremst hvernig að verki var staðið og hve illa haldið á hagsmunum almennings, hagsmunum eigenda, hagsmunum skattgreiðenda og hagsmunum þjóðarinnar.

Staðreyndin er sú að við getum verið með mismunandi pólitískar skoðanir og hugmyndir um þessi efni og mismunandi afstöðu til einkavæðingar. En við ættum að geta sameinast um að skynsamlegum reglum sé fylgt. Eða eigum við að segja að yfirleitt sé reglum fylgt og vel farið með almannafé. Það er einmitt þetta sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði teljum að hafi ekki verið gert sem skyldi. Í því efni vísum við á mýmörg dæmi. Við nefnum t.d. reynsluna af SR-mjöli, sölunni á Síldarverksmiðjum ríkisins sem voru seldar fyrir brotabrot af raunverulegu verðmæti, enda greiddu nýir eigendur sér tugi milljóna í arð aðeins fáeinum mánuðum eftir söluna. Eins og menn kann að reka minni til var mörgum hundruðum millj. veitt inn í verksmiðjurnar áður en þær voru seldar og reyndar einnig eftir að þær voru seldar.

Samkvæmt upplýsingum sem fram hafa komið á Alþingi var almannafé að upphæð 632 millj. kr. veitt í SR-verksmiðjurnar en söluandvirðið á sambærilegu verðlagi var hins 793 millj. Þarna munar 161 millj. sem ríkið var í reynd að fá. Samkvæmt upplýsingum frá árinu 1998, var markaðsvirði SR-mjöls komið í 3,7 milljarða rúma en er núna 4,3 milljarðar. Þetta er eitt dæmi.

Lítum núna á Áburðarverksmiðjuna. Hún var seld árið 1999 fyrir 1.257 millj. Síðar kom á daginn að innan borðs var lager að verðmæti 750 millj. Í sjóðum fyrirtækisins voru 19 millj. Raunverulegt söluandvirði var þannig innan við hálfur milljarður. Hvað gerist svo sl. vor? Þá var Áburðarverksmiðjan seld með manni og mús fyrir 1,3 milljarða, fyrir 1.300 millj. kr. Nú spyr ég: Var það ekki hlutverk sérfræðinga ríkisstjórnarinnar, hlutverk einkavæðingarnefndarinnar, að sjá hvað þarna var í kortunum og snúa sér til þessa væntanlega kaupanda sem var Reykjavíkurborg?

Herra forseti. Öll þekkjum við þær hræringar sem orðið hafa í íslensku atvinnulífi, ekki síst í verslun og viðskiptum þar sem jafnt stjórn og stjórnarandstaða með sjálfan hæstv. forsrh. í broddi fylkingar nú síðast í umræðu í gær, kvarta yfir fákeppni. Ef menn telja þetta vera mikla meinsemd í íslensku samfélagi er rétt að spyrja hvaða áhrif einkavæðingarnefnd og einkavæðingin hafi haft á þetta ferli. Eða skyldu menn vera búnir að gleyma því að hér voru til skamms tíma til fjárfestingarsjóðir í atvinnulífinu, Fiskveiðasjóður, Útflutningslánasjóður, Iðnlánasjóður, sem allir voru sameinaðir undir hatti FBA, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins sem síðar varð gleyptur af Íslandsbanka. Og hvað gerði þessi banki? Hvað gerði Fjárfestingarbanki atvinnulífsins? Hann fór höndum um stærstu vörudreifingaraðila landsins og þegar upp var staðið ríkti hér meiri fákeppni en gert hefur um langt skeið. Maður þarf að fara alla leið aftur á tíma einokunarverslunar til að finna samlíkingu við Baugsveldið.

Já, Baugsveldið, vel á minnst. Hverja skyldi ríkisstjórnin hafa kallað sér til ráðgjafar og fulltingis til að stýra þessu ferli? Lítum ögn á það. Þegar Sjálfstfl. og Alþfl. höfðu lokið sér af árið 1995 tóku Sjálfstfl. og Framsfl. upp þráðinn. 14. febrúar árið 1996 var að nýju sent út erindisbréf í samræmi við skipan nýrrar einkavæðingarnefndar, sem starfar eins og ég sagði áður á ábyrgð fjögurra ráðherra sem allir eru horfnir á braut, líka hæstv. viðskrh. sem var hér við upphaf fundarins. Þetta eru tveir ráðherrar Framsfl. og tveir ráðherrar Sjálfstfl. í samræmi við margfræga helmingaskiptareglu.

Hverjir skyldu hafa verið skipaðir í nefndina í febrúar 1996? Ég ætla að nefna tvo. Ég ætla að nefna Hrein Loftsson og Jón Sveinsson. Hvers vegna nefni ég þá? Ég nefni þá vegna stöðu þeirra í atvinnulífinu og þá sérstaklega þeim geira atvinnulífsins sem einkum er samtvinnaður einkavæðingarferlinu. Um árabil eða fram á sl. vor var Hreinn Loftsson stjórnarformaður Baugs og Jón Sveinsson hefur verið og er að því er ég best veit enn stjórnarformaður Íslenskra aðalverktaka. Með tilhlýðilegri virðingu fyrir þessum einstaklingum þykir mér það bera vott um furðulegt dómgreindarleysi að skipa menn í einkavæðnigarnefnd sem eru svo nátengdir þeim hagsmunum sem um er vélað.

Vilja menn að ég nefni dæmi? Ég hef þegar vísað á tenginguna við Baugsveldið. Hvað hefur gerst þar? Ég skal nefna annað. Þegar ríkisstjórnin gerði samning við Öldung hf. um að reisa dvalarheimili fyrir aldraða í Sóltúni í Reykjavík gagnrýndi Ríkisendurskoðun að ekki væri farið eftir tilsettum reglum við útboð heldur samið við einn tiltekinn aðila. Nú getur það í sumum tilvikum verið rétt og skynsamlegt að semja með þessum hætti en Ríkisendurskoðun taldi svo ekki vera í þessu tilviki.

Í skýrslu sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér segir að áhöld hafi verið um hvort nægilegt tillit hafi verið tekið til jafnræðissjónarmiða. Orðrétt segir, með leyfi forseta:

,,Í ljósi þess hve breytingarnar voru umtalsverðar og með hliðsjón af því hvernig staðið var að málum í upphafi og jafnræðissjónarmiðum hefði að mati Ríkisendurskoðunar verið eðlilegra að bjóða þjónustuna út á ný.``

Hver var það sem fékk þetta verkefni? Jú, það var Öldungur hf. og í eigu hvers er Öldungur hf.? Öldung áttu tvö fyrirtæki, Securitas og Íslenskir aðalverktakar þar sem einkavæðingarnefndarmaðurinn gegnir stjórnarformennsku. Sérfræðingar ríkisstjórnarinnar hafa leitað út fyrir sinn rann eftir ráðgjöf og eðlilegt er að þeir leiti til þeirra manna sem þeir treysti best og beri saman bækur við þá aðila. Þannig leitaði einkavæðingarnefndarmaðurinn Hreinn Loftsson til lögfræðings úti í bæ. Sá lögfræðingur heitir Hreinn Loftsson. Hann greiddi honum fyrir þessa ráðgjöf, á árabilinu 1996--2001, tæpar 11 millj. kr., þ.e. 10,9 millj. Hann tók sjálfur í nefndarlaun 5,7 millj. eða alls á þessu árabili 16,6 millj. rúmar.

Jón Sveinsson leitaði einnig ráðgjafar úti í bæ og hvert skyldi hann hafa leitað ráðgjafar? Hjá Jóni Sveinssyni fyrir 3,5 millj. kr. á sama tímabili. Hann tók sjálfur í nefndarlaun 3,5 millj. Alls voru það 6,8 millj. í þann vasa á þessu árabili.

[13:45]

Hæstv. forsrh. hefur gert þetta að umræðuefni, m.a. 18. febrúar árið 2002. Honum fundust þetta ekki miklir peningar, að borga 5.500 kr. á tímann í ráðgjöf. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Ef menn lesa nýjasta tímarit lögfræðinga má sjá að menn telja ríkið hafa hlunnfarið þá menn sem þannig starfa því að útseldur taxti ætti að vera í kringum 9.000--9.500 kr. á tímann vegna þess sem þessir menn bera. Þeir eru settir í nefndina sem sérfræðingar.``

Þarna talaði hæstv. forsrh. Þeir eru settir sem sérfræðingar en leita síðan ráðgjafar hjá sérfræðingum úti í bæ.

Þetta þykir mér vera ótrúleg bíræfni, ég ætla að leyfa mér að segja það, ekki síst af hálfu hæstv. forsrh. sem talar fyrir hönd ríkisstjórnar sem er ábyrg fyrir því að greiða atvinnulausu fólki 73.600 kr. á mánuði. Það finnst mönnum ekki vera tiltökumál. En hitt finnst mönnum vera jafnvel óskammfeilið, að greiða þessum mönnum 5.500 kr. á klukkutímann og ætti að vera 10.000 kr. tæpar ef marka má orð hæstv. forsrh.

Þau eru fleiri, ráðgjafarstörfin. Friðrik Pálsson, stjórnarformaður Landssímans hf., þáði á einu ári rúmar 5 millj. kr. í ráðgjöf, 5.098.000 kr., í ofanálag á stjórnarlaunin sem voru 150 þús. kr. á mánuði. Þar erum við að tala um 7,6 millj. á ári. Og hver skyldi öll þessi ráðgjöf hafa verið? Hún hlýtur að hafa verið kvölds og morgna og allar helgar. Gekk hún út á það að ráðleggja að selja Landssímahúsið hér handan við völlinn á 820 millj. kr., eins og gert var, og leigja það síðan aftur fyrir 8,2 millj. á mánuði? Hvers vegna var þetta gert? Jú, það var til að hafa handbært fé, sögðu menn. Og hvernig var það fé notað?

Hreinn Loftsson sagði, og var reyndar ekki skemmt, að Landssíminn hefði verið rekinn eins og hlutabréfasjóður. Og þeir töpuðu á þessu braski, m.a. í einu tilviki hálfum milljarði króna þegar fjárfest var í bandarísku fyrirtæki, IP Bell. Þáv. framkvæmdastjóri, Þórarinn V. Þórarinsson, sagði að það væri nú ekki mikið, að tapa 400--500 millj., fyrir fyrirtæki sem hefði fjárfest fyrir 11 milljarða.

En ég spyr: Ef þessum mönnum þótti þetta ekki ámælisvert, hvað þykir þeim sem eru ábyrgir fyrir almannasjóðum, þeim ráðherrum sem ég vísaði hér til og sjá ekki ástæðu til að vera viðstaddir þessa umræðu? Hvað þykir þeim um þetta ráðslag? Ég bara spyr.

Og hér erum við að tala um fyrirtæki og stofnun sem á rúmum tíu árum, á árabilinu 1988 fram undir aldarlok, skilaði í ríkissjóð um 20 milljörðum kr. og landsmönnum einhverri bestu, hagkvæmustu og ódýrustu símaþjónustu sem fyrirfinnst í heiminum öllum.

Reyndar var forsrh. nokkuð brugðið þegar þetta bar á góma, Landssímahneykslið, og sagði þegar stjórnin var sett af, með leyfi forseta:

,,Það er bersýnilega eðlilegast, heilbrigðast og hreinlegast að ný stjórn komi að Símanum, nýr forstjóri komi síðan að Símanum, ráðinn af þeirri stjórn og menn hendi þessum syndum bak við sig eins og sagt var.``

Vandinn er sá að þessi vinnuaðferð gengur ekki lengur upp, hefur aldrei gengið upp en gengur nú alls ekki lengur upp. Mál er að linni. Jafnharðan og hæstv. forsrh. kastar syndum sínum og reyndar einnig meintum syndurum á bak við sig koma upp ný hneykslismál. Einn nefndarmanna í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, sem sagði sig úr nefndinni nýlega í tengslum við sölu á ríkisbönkunum, kveðst aldrei hafa orðið vitni að eins ámælisverðum vinnubrögðum og nú.

Hæstv. forseti. Mér er skammtaður naumur tími en ég gæti haldið lengi áfram. Ég ætla að ljúka máli mínu á því að vitna í erindisbréf einkavæðingarnefndar og beina því til ríkisstjórnarinnar og allra sem koma að þessum málum að bera saman erindisbréfið og efndirnar, framkvæmdina á þessu ferli öllu.

Í erindisbréfinu er vísað til þess að nýta betur ráðstöfunarfé ríkisins. Hefur það verið gert? Nei. Talað er um að fara skuli eftir verklagsreglum. Hefur það verið gert? Þar eru alvarlegar brotalamir. Að hvetja til útboða í rekstri og þjónustu. Stundum hefur það verið gert, stundum hefur það ekki verið gert og stundum á mjög ámælisverðan hátt að mati Ríkisendurskoðunar. Að lækka umsýslu- og rekstrarkostnað og afla ríkissjóði tekna. Hefur það verið gert sem skyldi? Ég hefði haldið ekki. Fjölmörg dæmi eru um að það hefur ekki verið gert, og bera glóðvolg fjárlögin þess glöggt vitni.